Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12026/2023)

Kvartað var yfir því að innviðaráðuneytið hefði ekki brugðist við erindi vegna gjaldskrárfyrirkomulags íþróttamiðstöðvar og sundlaugar Grímsnes- og Grafningshrepps.  

Í svari frá ráðuneytinu kom fram að vonir stæðu til að ljúka málinu í apríl nk. og því ekki tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. febrúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 19. janúar sl. yfir því að innviðaráðuneytið hafi enn ekki brugðist við erindi yðar 1. október 2021 vegna gjaldskrárfyrirkomulags íþróttamiðstöðvar og sundlaugar Grímsnes- og Grafningshrepps.

Kvörtuninni fylgdu samskipti yðar við ráðuneytið þar sem þér óskið upplýsinga um hvað líði meðferð málsins. Af þeim samskiptum verður ráðið að ráðuneytið hafi um nokkurt skeið haft til skoðunar hvort tilefni sé til að fjalla um málið á grundvelli heimildar þess í 112. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags.

Í tilefni af kvörtun yðar var innviðaráðuneytinu ritað bréf 6. febrúar sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindis yðar. Svarbréf ráðuneytisins barst 21. sama mánaðar þar sem fram kemur að ráðuneytið sé enn með mál yðar til skoðunar með tilliti til þess hvort um það verði fjallað á grundvelli áðurnefndrar 112. gr. laga nr. 138/2011. Í niðurlagi svarbréfs ráðuneytisins kemur fram að vonir standi til þess að málinu verði lokið í byrjun aprílmánaðar næstkomandi.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu ráðuneytisins á erindi yðar og í ljósi þess að nú liggja fyrir áform ráðuneytisins um að ljúka málinu á næstunni, tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu.

Lýk ég því meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2.. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Standist áform ráðuneytisins ekki getið þér leitað til mín á nýjan leik með sérstaka kvörtun þar að lútandi.