Húsnæðismál.

(Mál nr. 12032/2023)

Kvartað var yfir kaupum Félagsbústaða hf. á íbúðum í tilteknu fjöleignarhúsi og að þar væru nú leigðar út félagslegar íbúðir. Kaupin væru í andstöðu við deiliskipulag, eignaskiptayfirlýsingu og kvaðir um kauprétt Félagsbústaða hf. Þá var kvörtuninni jafnframt beint að Reykjavíkurborg og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem veitt hefðu kaupunum stofnframlag.

Þar sem Félagsbústaðir eru hlutafélag og því einkaréttarlegur aðili heyra ekki allir þættir í starfsemi þeirra undir eftirlit umboðsmanns og átti það við um kvörtunarefnið er laut að þeim. Hvað eignaskiptayfirlýsingu og deiliskipulag snerti þá hafði héraðsdómur þegar fjallað um það og því ekki skilyrði til að umboðsmaður gerði það. Hið sama gilti um stofnframlagið þar sem ákvörðun um það laut ekki hagsmunum viðkomandi umfram aðra. 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. febrúar 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 31. janúar sl. er lýtur að kaupum Félagsbústaða hf. á íbúðum í fjöleignarhúsinu [...] og að þar séu nú leigðar út félagslegar íbúðir. Er þar m.a. vísað til þess að kaupin séu í andstöðu við deiliskipulag, eignaskiptayfirlýsingu og kvaðir um kauprétt Félagsbústaða hf. Þá er kvörtuninni jafnframt beint að Reykjavíkurborg og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem veitt hafi kaupunum stofnframlag.

  

II

1

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga er starfssvið umboðsmanns nánar afmarkað og nær það einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hafa opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða falla undir 3. mgr. 3. gr. Að öðru leyti tekur starfssvið umboðsmanns ekki til einkaaðila.

Félagsbústaðir hf. eru hlutafélag og telst því til einkaréttarlegs aðila. Um kaup félagsins á fasteignum í þágu þeirrar starfsemi sem því er falið að sinna fer eftir ákvæðum laga um fasteignakaup og annarra viðeigandi laga. Þótt Reykjavíkurborg hafi falið félaginu að annast útleigu félagslegra leiguíbúða og þar með rækja sum þeirra verkefna sem annars myndu hvíla á herðum sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga leiðir það ekki til þess að allir þættir í starfsemi félagsins heyri undir eftirlit umboðsmanns.

Það atriði í kvörtun yðar sem varðar Félagsbústaði hf. beinist að athöfn einkaréttarlegs aðila sem felur ekki í sér stjórnsýslu í skilningi 3. gr. laga nr. 85/1997 enda er ekki í henni fólgin beiting opinbers valds sem félaginu hefur verið fengið með lögum eða ákvörðunartaka á þeim grundvelli. Samkvæmt framangreindu fellur það utan starfssviðs mín að fjalla um kvörtun yðar að því marki sem hún lýtur að umræddum kaupum félagsins.

  

2

Hvað varðar athugasemdir yðar þess efnis að umrædd kaup félagsins séu í andstöðu við eignaskiptayfirlýsingu og gildandi deiliskipulag tek ég fram að í b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 segir að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa dómstóla. Í þessu ákvæði felst að umboðsmaður endurskoðar hvorki niðurstöður dóms né þau málsatvik eða málsástæður sem þegar hafa hlotið meðferð fyrir dómstólum. Ég nefni þetta þar sem fyrir liggur að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2022 í máli nr. E-1853/2022 var því hafnað að skilmálar í deiliskipulagi eða eignaskiptayfirlýsing stæðu áðurnefndum kaupum og eignarhaldi Félagsbústaða hf. í vegi. Brestur því einnig lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að þessu leyti.

  

3

Loks eru í kvörtun yðar gerðar athugasemdir við að Reykjavíkurborg og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi veitt kaupunum stofnframlag. Um stofnframlög er fjallað í III. kafla laga um almennar íbúðir. Þar segir í 1. mgr. 10. gr. að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og sveitarfélögum sé heimilt að veita, m.a. sveitarfélögum og lögaðilum sem eru alfarið í eigu sveitarfélaga, stofnframlög vegna byggingar eða kaupa íbúðarhúsnæðis sem ætlað sé leigjendum sem séu undir tekju- og eignamörkum skv. 6. og 7. mgr.

Af þessu tilefni tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem starfssvið umboðsmanns tekur til, kvartað af því tilefni til hans. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ég fæ ekki ráðið af erindi yðar að þessu leyti að kvartað sé yfir athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem beinist sérstaklega að yður heldur snýr það fremur að því að annar aðili, þ.e. Félagsbústaðir hf., hafi fengið úthlutað svokölluðu stofnframlagi á framangreindum grundvelli. Af erindi yðar verður því ekki ráðið að kvörtunarefnið varði hagsmuni yðar umfram aðra með þeim hætti að uppfyllt séu skilyrði til þess að ég geti tekið málið til frekari meðferðar að þessu leyti.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.