Almannatryggingar.

(Mál nr. 12052/2023)

Kvartað var yfir framkvæmd fjármála- og efnahagsráðuneytisins á hækkun bóta almannatrygginga og óskað eftir áliti umboðsmanns á því hvort ráðherra bæri að bæta viðkomandi þann mismun sem hann teldi að væri á þeim greiðslum sem hann hefði fengið og þeim sem hann teldi sig hafa átt að fá ef framkvæmd ráðuneytisins hefði tekið mið af útreikningum Hagstofunnar um launaþróun. 

Umboðsmaður vísaði til fyrri athugunar sinnar í máli nr. 9818/2018 og taldi ekki líkur á að frekari athugun sín myndi leiða til þess að hann hefði forsendur til að gera athugasemdir við framkvæmd og afstöðu ráðuneytisins. Væri hann þá með í huga þau matskenndu viðmið sem taka skyldi mið af við hækkun almannatrygginga.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. febrúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 7. febrúar sl. Samkvæmt kvörtuninni beinist hún að framkvæmd laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, nánar tiltekið framkvæmd fjármála- og efnahagsráðuneytisins á hækkun bóta almannatrygginga samkvæmt 69. gr. laganna. Að því leyti óskið þér eftir því að umboðsmaður veiti álit sitt á því hvort fjármála- og efnahagsráðherra beri að bæta yður þann mismun sem þér teljið að sé á þeim greiðslum almannatrygginga sem þér hafið fengið og þeim sem þér teljið að þér ættuð að hafa fengið greiddar ef framkvæmd ráðuneytisins hefði tekið mið af útreikningum Hagstofunnar um launaþróun.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu. Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að ekki verður annað ráðið en að athugasemdir yðar beinist einkum að hækkun bóta almannatrygginga eins og hún var ákveðin í fjárlögum ársins 2021.

Þá lúta athugasemdir yðar einnig að viðbrögðum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við erindum yðar. Af þeim gögnum sem fylgdu kvörtun yðar, sem og fyrri kvörtunum sem þér hafið komið á framfæri um sama efni, verður ráðið að þér hafið átt í nokkrum samskiptum við ráðuneytið vegna málsins, þar sem þér hafið m.a. krafið fjármála- og efnahagsráðherra um áðurlýstan mismun á greiðslum almannatrygginga, þ.e. að teknu tilliti til niðurstaðna Hagstofunnar um launaþróun árið 2021. Í svarbréfi ráðuneytisins 9. janúar sl. við erindi yðar kemur að þessu leyti fram að þar sem lög um almannatryggingar heyri undir félags- og vinnumarkaðsráðherra, og þar sem Tryggingastofnun fari með framkvæmd þeirra, geti fjármála- og efnahagsráðuneytið ekki tekið afstöðu til óska yðar um viðbótargreiðslur.

Ég hef skilið athugasemdir yðar við framkvæmd fjármála- og efnahagsráðuneytisins á þá leið að þær lúti að því að mat ráðuneytisins á launaþróun, sem hækkun bóta almannatrygginga hefur tekið mið af, hefur undanfarin ár reynst vera lægra en meðallaunaþróun eins og hún hefur verið reiknuð af Hagstofunni ár hvert. Líkt og fram kemur í kvörtun yðar hafði umboðsmaður Alþingis árið 2019 til athugunar kvörtun Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) yfir framkvæmd ráðuneytisins að þessu leyti í máli nr. 9818/2018. Í bréfi umboðsmanns 24. september 2019 sem sent var m.a. fjármála- og efnahagsráðherra, sagði m.a. eftirfarandi:  

Eins og mál þetta ber með sér og sem afleiðing af orðalagi 69. gr. laga nr. 100/2007 kemur það í hlut fjármála- og efnahagsráðherra við undirbúning og í frumvarpi til fjárlaga fyrir hvert ár að taka ákvörðun um hvaða viðmiðanir hann leggur til grundvallar tillögugerð sinni um „launaþróun“. Undirbúningur og tillögugerð í fjárlagafrumvarpi hefur þá sérstöðu umfram önnur verkefni stjórnvalda, og þar með ráðherra, að hún þarf annars vegar að vera í samræmi við gildandi lög um þau efnisatriði sem þar er fjallað um og hins vegar felur hún í sér tillögu um pólitíska stefnumörkun ráðherra og áherslur við ráðstöfun opinbers fjár. Þegar gætt er að stöðu borgaranna, og eins og í þessu tilviki, þeirra sem á hverjum tíma kunna að eiga rétt til greiðslna, sem falla undir umrætt ákvæði og eru með vissum hætti grunnur að framfærslu þeirra og útfærsla á stjórnarskrárákvæði um rétt borgaranna til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku og elli, getur reynt á hvaða kröfur um skýrleika laga eigi við. Almennt er litið svo á að þegar reynir á stjórnarskrárbundin réttindi borgaranna verði að gera ríkari kröfur en að jafnaði um útfærslu löggjafans á þeim réttindum. Hvað sem líður fjárstjórnarvaldi Alþingis hefur þingið í þessu tilviki ákveðið að setja sjálfu sér ákveðið matskennt viðmið og að auki lágmark um breytingar á fjárhæðum bóta almannatrygginga og tiltekinna annarra greiðslna.

Í bréfinu, svo og bréfi umboðsmanns til ÖBÍ af sama tilefni, segir jafnframt að eins og 69. gr. laga um almannatrygginga er sett fram hafi ráðherra, við hækkun bóta almannatrygginga samkvæmt greininni, tiltekið svigrúm til mats hverju sinni til að taka mið af ólíkum aðstæðum þegar reynir á launaþróun. Í ljósi þess hversu matskennt lagaákvæðið væri um þau viðmið sem hækkun bóta almannatrygginga ár hvert tekur mið af væru ekki forsendur til að fullyrða að sú framkvæmd ráðherra og ráðuneytisins sem kvörtunin laut að væri í ósamræmi við 69. gr. laga um almannatryggingar. Bréf umboðsmanns til ráðuneytisins og ÖBÍ má finna á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Að þessu gættu, og eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar, og þau gögn sem henni fylgdu, tel ég ekki líkur á því að frekari athugun mín á málinu muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við þá framkvæmd og afstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem kvörtunin beinist að. Hef ég þá í huga þau matskenndu viðmið sem 69. gr. vísar til, þ.e. að taka skuli mið af launaþróun við hækkun bóta almannatrygginga.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar lokið.