Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12054/2023)

Kvartað var yfir þeirri afstöðu mennta- og barnamálaráðuneytisins að aðhafast ekki í tilefni af erindi þar sem óskað var eftir rannsókn þess á framkomu stjórnenda Tækniskólans gagnvart viðkomandi.  

Í svari ráðuneytisins til viðkomandi kom fram að Tækniskólinn væri ekki opinber framhaldsskóli og eftirlit þess því ekki það sama og gagnvart slíkum. Umboðsmaður taldi ekki efni til að gera athugasemd við niðurstöðu ráðuneytisins að aðhafast ekki í málinu. Benti hann á að ákvarðanir og framganga skólans gagnvart starfsmönnum í einstökum málum færi fram á einkaréttarlegum grundvelli og heyrðu ekki undir eftirlit ráðherra.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. febrúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 13. febrúar sl. yfir þeirri afstöðu mennta- og barnamálaráðuneytisins 20. janúar sl. að aðhafast ekki í tilefni af erindi yðar þar sem þér óskuðuð eftir rannsókn þess á framkomu stjórnenda Tækniskólans, sem þér starfið við, gagnvart yður.

Í bréfi ráðuneytisins til yðar voru ákvæði laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, rakin  og tekið fram að eftirlitshlutverk ráðuneytisins með skólum sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt 12. gr. laganna sé bundið við III. kafla laganna. Eftirlit þess með skólum sem hlotið hafa slíka viðurkenningu sé ekki það sama og með opinberum framhaldsskólum sem heyra undir ráðherra. Þar sem Tækniskólinn hefði hlotið viðurkenningu ráðherra til kennslu á framhaldsskólastigi samkvæmt téðum III. kafla laga nr. 92/2008 teldist hann ekki opinber framhaldsskóli. Þá sagði að ráðuneytið teldi þær upplýsingar sem fram kæmu í erindi yðar ekki vera þess eðlis að það teldi tilefni til að bregðast við gagnvart Tækniskólanum á grundvelli heimilda sinna í lögum um framhaldsskóla og myndi ráðuneytið því ekki aðhafast frekar í málinu.

Svo sem rakið er í bréfi ráðuneytisins til yðar er Tækniskólinn einkarekinn skóli sem fengið hefur viðurkenningu ráðherra til kennslu á framhaldsskólastigi á grundvelli 12. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að í viðurkenningu skóla felist staðfesting á því að starfsemi viðkomandi skóla uppfylli, á þeim tíma sem viðurkenning er veitt, almenn skilyrði laganna og reglna sem settar eru með stoð í þeim. Þar segir jafnframt að skóli sem hlotið hefur viðurkenningu hafi sjálfdæmi um starfsemi sína að öðru leyti en því sem kveðið er á um í lögunum, reglum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli laganna. Uppfylli skóli, sem fengið hefur viðurkenningu, ekki skilyrði laganna og reglur og skilyrði sem sett eru á grundvelli þeirra getur ráðherra afturkallað viðurkenninguna, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Samkvæmt 3. gr. laganna fer mennta- og barnamálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála er lögin taka til og ber m.a. ábyrgð á eftirliti með stjórnsýslu og skólastarfi.

Af stöðu Tækniskólans sem einkaréttarlegs aðila leiðir að hann telst ekki, sem slíkur, hluti af stjórnsýslu ríkisins. Tækniskólinn telst því ekki stjórnvald líkt og opinberir framhaldsskólar, og þá fer ráðherra ekki með almennar yfirstjórnunarheimildir gagnvart skólanum. Eftir sem áður fer ráðherra með eftirlit með því að skólinn uppfylli skilyrði laga nr. 92/2008 og reglur í samræmi við þá viðurkenningu sem honum hefur verið veitt. Í samræmi við þetta sæta einstakar ákvarðanir sem teknar eru af hálfu skólans ekki kæru til ráðherra nema um það sé sérstaklega kveðið í lögum líkt og háttar til varðandi tilteknar ákvarðanir gagnvart nemendum skólans, sbr. ákvæði VI. kafla laga nr. 92/2008, en þar er gert ráð fyrir að tilteknar ákvarðanir skólameistara framhaldsskóla sé unnt að kæra til ráðuneytisins. Það leiðir hins vegar af framangreindu að ákvarðanir og framganga skólans gagnvart starfsmönnum í einstökum málum fer fram á einkaréttarlegum grundvelli og heyra ekki undir eftirlit ráðherra. Að þessu virtu og eftir að hafa kynnt mér umkvörtun yðar til ráðuneytisins og bréf þess til yðar tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að ekki sé tilefni til að bregðast við erindi yðar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.