Neytendamál.

(Mál nr. 12055/2023)

Kvartað var yfir þjónustustigi kvörðunarþjónustu sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefði útvistað til einkaaðila.  

Þar sem málið hafði ekki verið borið undir æðri stjórnvöld og kæruleið þannig tæmd voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. febrúar 2023.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 14. febrúar sl. sem lýtur að þjónustustigi kvörðunarþjónustu sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi útvistað til BSI á Íslandi ehf. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við þá þjónustu sem veitt er af hálfu félagsins, m.a.  afgreiðslutíma þess og að félagið svari erindum yðar ekki með fullnægjandi hætti.

Rétt er í upphafi að geta þess að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftir­­lit með stjórn­sýslu ríkis og sveitar­félaga og tryggja rétt borgaranna gagn­vart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ég nefni þetta þar sem BSI á Íslandi ehf. er einkahluta­félag sem starfar m.a. á grundvelli laga nr. 138/1994, um einkahluta­félög, og telst því einkaréttarlegur aðili.

Hvað sem því líður og í miðað við þann skilning sem ég legg í kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, skal Húsnæðis- og mannvirkjastofnun starfrækja faggilta mælifræðistofu svo hægt sé að sinna lögbundnu eftirliti eða tryggja að öðrum kosti með samningi aðgang að rekjanlegum kvörðunum. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 4. gr. sömu laga skal stofnunin annast yfireftirlit á sviði mælifræði í samræmi við ákvæði laga og reglna settra samkvæmt þeim, en í yfireftirliti felst m.a. yfirumsjón með eftirliti sem einkaaðilar framkvæma í umboði eftirlitsstjórnvalds, sbr. 3. gr. sömu laga. Ég nefni þetta þar sem ég fæ helst ráðið að téðu félagi hafi með samningi verið falið umrætt hlutverk.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 91/2006 fer menningar- og viðskiptaráðherra með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum, sbr. yfirstjórn hans með mælingum, mæligrunnum og vigtarmönnum samkvæmt l-lið 6. töluliðar 9. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þá fer innviðaráðuneytið með yfirstjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sbr. t-lið 5. töluliðar 7. gr. sama forsetaúrskurðar.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindum lagagrundvelli er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til um­boðs­manns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir ákvæðið á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til þess að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Með vísan til þess sem að framan er rakið og þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að benda yður á þá leið að bera upp erindi yðar upp við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem, eins og fyrr segir, gegnir eftirlitshlutverki á sviði mælifræði, og eftir atvikum fyrrgreind ráðuneyti. Ég tek þó fram að með þeirri ábendingu minni hef ég enga efnislega afstöðu tekið til kvörtunar yðar að öðru leyti.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Teljið þér yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.