Fyrirtækjaskrá. Firmavernd. Skráning firmanafns. Lögmætisreglan.

(Mál nr. 3235/2001)

A kvartaði yfir synjun fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands á að heimila breytingu á nafni félagsins í Pósthúsið ehf. Var synjunin byggð á því að umrætt nafn væri almennt heiti og því ekki fallið til þess að veita A einkarétt yfir því gagnvart öðrum aðilum. Þá byggði stofnunin á því að samkvæmt 6. gr. laga nr. 142/1996, um póstþjónustu, hefði íslenska ríkið einkarétt á að veita nánast alla þá þjónustu sem almennt væri veitt á pósthúsum.

Um fyrra atriðið rakti umboðsmaður ákvæði laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, einkum 10. gr. laganna. Tók hann fram að af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum yrði ekki ráðið að það væri skilyrði fyrir skráningu firmanafns að umbeðið nafn hefði þá eiginleika að það veitti viðkomandi fyrirtæki einkarétt til nafnsins umfram aðra sem hefðu svipaða starfsemi með höndum. Tók hann fram að engar aðrar ályktanir yrðu dregnar af dómaframkvæmd eða viðhorfum fræðimanna. Var það því niðurstaða umboðsmanns að ekki væri hægt að fallast á það með hagstofunni að henni hefði verið heimilt að hafna umræddri skráningarbeiðni á þessum forsendum.

Um síðara atriðið tók umboðsmaður fram að ekki væri loku fyrir það skotið að lög kynnu að mæla fyrir um að tiltekin afmörkuð starfsemi væri undirorpin einkarétti tiltekins aðila, s.s. ríkis eða ákveðins lögaðila. Ekki yrði þannig fullyrt að óheimilt væri í öllum tilvikum að hafna skráningu firmanafns sem eindregið gæfi til kynna að viðkomandi fyrirtæki hefði hug á því að stunda slíka starfsemi sem háð væri einkarétti annars aðila. Þó taldi umboðsmaður að gera yrði þá kröfu í slíkum tilvikum að þær lagaheimildir sem veittu slíkan einkarétt vegna ákveðinnar starfsemi, sem annars væri öllum frjáls, væru skýrar og glöggar. Umboðsmaður rakti þessu næst ákvæði laga nr. 142/1996, um póstþjónustu, sbr. nú lög nr. 19/2002. Af þeim taldi hann ekki unnt að draga þá ályktun að umfang og eðli þess einkaréttar sem ríkinu væri veittur með lögunum hefði verið með þeim hætti að hagstofunni hefði verið heimilt að hafna skráningu firmanafnsins Pósthúsið ehf. á þessum forsendum.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Hagstofu Íslands að stofnunin tæki mál A til endurskoðunar, kæmi fram ósk þess efnis frá félaginu, og tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I.

Hinn 11. maí 2001 leitaði B, hdl., til mín f.h. A og kvartaði yfir synjun fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands, dags. 9. febrúar 2001, á að heimila breytingu á nafni félagsins í Pósthúsið ehf.

Í kvörtun málsins kemur fram að félagið hafi haft í hyggju að stunda alla þá póststarfsemi sem því væri heimilt lögum samkvæmt. Mikil samkeppni væri á þessu sviði og væru hagsmunir félagsins af því að fá nafninu breytt því miklir. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við synjun Hagstofu Íslands og því borið við að hún hafi ekki verið í samræmi við lög.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 30. apríl 2002.

II.

Málavextir eru þeir að 8. febrúar 2001 lagði A fram við fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands tilkynningu um breytingu á samþykktum félagsins. Fór félagið m.a. fram á að skráð yrði nýtt nafn á félagið og átti það að heita Pósthúsið ehf. Beiðninni var synjað af hálfu stofnunarinnar samdægurs og fór félagið fram á að erindinu yrði synjað skriflega auk þess sem lögmaður félagsins sendi Hagstofu Íslands bréf, dags. sama dag, þar sem krafist var rökstuðnings fyrir nefndri ákvörðun með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skrifleg synjun fyrirtækjaskrár, dags. 9. febrúar 2001, var send félaginu og fylgdu því bréfi starfsreglur fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands um nafngiftir. Rökstuðningur Hagstofu Íslands barst síðan með bréfi, dags. 16. mars 2001. Í bréfinu sagði m.a. svo:

„Þegar einkahlutafélagi er valið nafn ber að fara eftir ákvæðum laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903 sbr. 3. mgr. 1. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Í 8. gr. firmalaga kemur fram að hverjum þeim sem reka vill atvinnustarfsemi af einhverju tagi beri að hlýða ákvæðum laganna um nafn það sem hann notar við atvinnuna. Sú grein laganna sem einkum kemur til skoðunar hér er 10. gr., einkum 1. mgr. og 1. ml. 2. mgr. Hafa verður í huga að lög þessi eru komin til ára sinna og atvinnuhættir hafa tekið verulegum breytingum frá setningu þeirra. Verða þau því skýrð að teknu tilliti til breyttra aðstæðna og er það í samræmi við viðurkenndar lögskýringaraðferðir í íslenskum rétti. Á grundvelli skýringar laganna hefur Fyrirtækjaskrá sett sér starfsreglur sem þér hafið þegar fengið afrit af. Við gerð umræddra reglna var einnig horft til framkvæmdar sambærilegra reglna á Norðurlöndunum, einkum í Danmörku. Að auki var höfð hliðsjón af 25. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 með síðari breytingum og 14. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997 en fræðimenn hafa talið að síðastnefndri grein verði beitt með lögjöfnun um firmaheiti.

Af framangreindum réttarheimildum verða ráðnar þrjár meginreglur firmaréttarins varðandi skráningu firmaheita og ber skrásetjara að eigin frumkvæði að ganga eftir að firmaheiti samræmist þessum meginreglum. Hafa fræðimenn talið þær vera:

1. Gæta ber þess að ekki skapist hætta á ruglingi við þegar skráð firmanöfn.

2. Gæta skal þess að nafnið brjóti ekki gegn betri rétti annarra. Í þessu felst einnig krafa um að nafnið sé til þess fallið að skapa þeim sem skráir það einkarétt til þess.

3. Þess ber að gæta að nafnið gefi ekki villandi upplýsingar um þá starfsemi sem viðkomandi hefur með höndum.

Meginreglur þessar standa að baki áðurnefndum lagareglum og eru þeim til fyllingar.

Ástæður þær sem liggja áðurnefndri synjun að baki eru einkum tvær. Í fyrsta lagi að nafnið Pósthúsið er að mati stofnunarinnar almennt heiti og því ekki fallið til þess eitt og sér að aðgreina starfsemi umbjóðanda yðar frá starfsemi annarra aðila á sama starfssviði sbr. 10. gr. firmalaga nr. 42/1903, enda gæti umbjóðandi yðar ekki eignast einkarétt til nafnsins umfram aðra sem hefðu svipaða starfsemi með höndum (sjá einnig meginreglu nr. 2 hér að ofan). Í öðru lagi er nafn þetta samkvæmt almennum málskilningi tengt við tiltekna starfsemi. Þ.e.a.s. orðið pósthús þýðir staður þar sem veitt er almenn póstþjónusta. Samkvæmt 6. gr. laga um póstþjónustu nr. 142/1996 hefur Íslenska ríkið einkarétt til að veita nánast alla þá þjónustu sem almennt er veitt á „pósthúsum“. Samkvæmt 12. gr. sömu laga má Íslenska ríkið fela öðrum meðferð þessa einkaréttar síns. Íslenska ríkið hefur falið Íslandspósti hf. meðferð þessa einkaréttar eins og kunnugt er. Ekki verður því séð að þrátt fyrir það að umbjóðandi yðar hyggist starfa við einhverskonar póstdreifingu geti hann boðið þjónustu sem almennt er veitt á pósthúsum. Nafnið „Pósthúsið“ myndi því gefa villandi mynd af þeirri starfsemi sem umbjóðandi yðar hyggst stunda sbr. 1. mgr. 10. gr. firmalaga nr. 42/1903 (sjá einnig meginreglu 3 hér að framan).

Við afgreiðslu þessa erindis er ekki byggt á því að reglur Fyrirtækjaskrár um nafngiftir sem stuðst er við og þér hafið fengið eintak af, hafi sjálfstætt gildi sem réttarheimild. Það sem þar stendur eru vinnureglur sem að mati Fyrirtækjaskrár eru byggðar á réttri túlkun þeirra lagagreina sem vitnað hefur verið til í bréfi þessu.“

III.

Ég ritaði Hagstofu Íslands bréf, dags. 22. maí 2001, og óskaði þess m.a., sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að hagstofan léti mér í té eintak af starfsreglum sem fyrirtækjaskrá hefði sett sér og starfaði eftir og vísað væri til í rökstuðningi fyrirtækjaskrár frá 16. mars 2001. Hagstofa Íslands svaraði fyrirspurn minni með bréfi, dags. 4. desember 2001, en með bréfinu fylgdi ljósrit af starfsreglum þeim sem fyrirtækjaskrá vísaði til í bréfi stofnunarinnar, dags. 16. mars 2001. Í bréfinu sagði m.a. svo:

„Við skráningu nafna hefur hlutafélagaskrá m.a. haft til hliðsjónar ákvæði laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903, samkeppnislaga nr. 8/1993, laga um vörumerki nr. 45/1997 og dóma sem gengið hafa hér á landi. Lengst af var ekki talin ástæða til að festa á blað sérstakar verklagsreglur við skráningu firmanafna þar sem tiltölulega auðvelt þótti að gæta samræmis í ákvörðunum.

Hagstofan tók við rekstri hlutafélagaskrár 1. september 1997. Skráin var þá sameinuð rekstri fyrirtækjaskrár. Við þetta fjölgaði starfsmönnum sem fjölluðu um skráningu nafna fyrirtækja. Jafnframt fjölgaði nýskráningum félaga mjög á þessum tíma og því fylgdu enn meiri álitamál um skráningu nafna. Sem dæmi má nefna að fyrir áratug voru nýskráningar um 500-600 á ári en um og yfir 2000 á ári síðastliðin tvö ár. Allar þessar breytingar leiddu í ljós að verklag við þessa skráningu þarfnaðist endurskoðunar eins og frá var sagt í bréfi Hagstofunnar til yðar 11. október 1999 [...].

Á þessu tveggja ára tímabili hafa skráningarreglur um heiti fyrirtækja verið í mótun hjá Hagstofunni. Til hliðsjónar nýjum reglum hafa framangreind lagaákvæði og dómar verið hafðir að leiðarljósi auk þess sem könnuð hafa verið hliðstæð álitaefni í norrænni löggjöf og í skrifum íslenskra og annarra norrænna fræðimanna. Þá hefur enn fremur verið litið til reglna vegna EES-samningsins. Tilgangur Hagstofunnar með skriflegum verklagsreglum er fyrst og fremst sá að tryggja sem mest samræmi í afgreiðslum og ákvörðunum fyrirtækjaskrár. Jafnframt hafa verklagsdrögin verið notuð í viðræðum og sýnd forsvarsmönnum fyrirtækja til leiðbeiningar ef upp koma álitamál um nafngiftir fyrirtækja.

Hagstofunni þykir miður að í framangreindum úrskurði fyrirtækjaskrár hafi verið vísað til þessara draga við synjun á skráningu nafns. Hagstofan hefur ekki samþykkt drögin sem endanlegar verklagsreglur fyrir skráningu á nöfnum fyrirtækja, sem fyrirtækjaskrá beri að fara eftir við skráningu nafna. Meðan svo er eru drögin einungis verklagsreglur í mótun. Þá var og óheppilegt að kalla drögin reglur.

Hagstofunni er ljóst að fyrirtækjaskrá getur ekki vísað til formlegra reglna við ákvarðanir sínar um nöfn fyrirtækja fyrr en þær hafa verið birtar eins og heimild er fyrir t.d. í 2. mgr. 121. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, sbr. 8. gr. laga nr. 43/1997 og 2. mgr. 147. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, sbr. 9. gr. laga nr. 41/1997.

[...]“

Ég sendi lögmanni A svarbréf Hagstofu Íslands með bréfi, dags. 7. desember 2001. Þá ritaði ég hagstofustjóra svohljóðandi bréf, dags. 27. desember 2001, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997:

„Í bréfi hagstofunnar til lögmanns [A], dags. 16. mars sl., sem ritað var í tilefni af beiðni hans um að stofnunin veitti rökstuðning fyrir synjun þess á beiðni félagsins um nafnbreytingu í fyrirtækjaskrá, kemur fram að ákvörðunin hafi einkum byggst á 1. mgr. 10. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Fram kemur í bréfinu að ástæður nefndrar synjunar hafi nánar tiltekið verið tvær. Annars vegar hafi nafnið Pósthúsið ehf. verið almennt heiti að mati stofnunarinnar og því „ekki fallið til þess eitt og sér að aðgreina starfsemi“ félagsins frá starfsemi annarra aðila á sama starfssviði enda gæti félagið ekki eignast einkarétt til nafnsins umfram aðra sem hefðu svipaða starfsemi með höndum. Hins vegar sé nafn þetta samkvæmt almennum málskilningi tengt við tiltekna starfsemi. Er rakið að samkvæmt 6. gr. laga nr. 142/1996, um póstþjónustu, hafi íslenska ríkið einkarétt til að veita nánast alla þjónustu sem almennt er veitt á „pósthúsum“ en samkvæmt 12. gr. sömu laga sé íslenska ríkinu heimilt að fela öðrum meðferð þessa einkaréttar síns. Hafi það verið gert með því að fela Íslandspósti hf. meðferð einkaréttarins. Þá segir í bréfi hagstofunnar að því verði ekki séð „að þrátt fyrir það að [félagið] hyggist starfa við einhverskonar póstdreifingu geti [það] boðið þjónustu sem almennt er veitt á pósthúsum.“ Nafnið Pósthúsið ehf. myndi því gefa „villandi“ mynd af þeirri starfsemi sem [A] hyggst stunda.

Í tilefni af framangreindum forsendum fyrir synjun Hagstofu Íslands óska ég þess að stofnunin skýri viðhorf sitt til kvörtunarinnar og sérstaklega eftirfarandi spurninga:

1. Hver er lagagrundvöllur þess skilyrðis að umrætt nafn, sem óskað var eftir skráningu á, megi ekki vera almennt heiti sem leiði til þess að á skorti að það sé til þess fallið eitt og sér að aðgreina starfsemi umsækjanda frá starfsemi annarra aðila á sama starfssviði. Telji stofnunin að þetta skilyrði verði leitt af 10. gr. laga nr. 42/1903 óska ég þess að stofnunin geri grein fyrir því hvaða aðilar það eru á sama starfssvæði sem umræddar forsendur vísa til og þá hvort og þá að hvaða marki nafnið Pósthúsið ehf. var talið ósamrýmanlegt lögvörðum rétti slíkra aðila, þ.e. annað hvort skráðum firmaheitum eða skráðum vörumerkjum.

2. Þá óska ég þess að Hagstofa Íslands geri nánar grein fyrir því hver sé lagagrundvöllur þess skilyrðis sem fram kemur í forsendum synjunar stofnunarinnar að umbeðið nafn verði að veita viðkomandi fyrirtæki einkarétt til nafnsins, umfram aðra sem hafa svipaða starfsemi með höndum, til þess að það sé skráningarhæft samkvæmt lögum nr. 42/1903. Í þessu sambandi óska ég þess að stofnunin hafi í svari sínu hliðsjón af eftirfarandi athugasemdum úr frumvarpi því er varð að lögum nr. 42/1903:

„Með því að ákvæðinu um réttnefni firma eru sett vegna viðskiptanna manna á milli, er það samkvæmt 10. gr. embættisskylda skrásetjara að gæta ákvæðanna þar um, [...] að ekki sjeu sett á skrá fyrir sama kaupstað eða hrepp fleiri samhljóða firmu, og leiðir líka af þessu síðara ákvæði, að umsýsluhafendur geta með því að tilkynna umsýslunöfn fengið einkarjett á þeim á vissu svæði, og er það þýðingarmikið fyrir þá.“ (Alþt. 1903, C-deild, bls. 166.)“

3. Einnig óska ég þess að Hagstofa Íslands geri nánar grein fyrir þeirri forsendu í synjun stofnunarinnar að nafnið pósthús sé tengt tiltekinni starfsemi sem ríkið hafi að meginstefnu til einkarétt á samkvæmt lögum nr. 142/1996. Telji stofnunin að þetta skilyrði verði leitt af skýringu á 10. gr. laga nr. 42/1903 að virtri 6. gr. laga nr. 142/1996, sem stofnunin vísar til, óska ég þess að stofnunin skýri það viðhorf nánar og þá einkum með tilliti til þess hvort og þá með hvaða hætti íslenska ríkið hefur einkarétt á því að stofna og reka pósthús. Ég fer í þessu sambandi fram á að hagstofan geri grein fyrir þessu sjónarmiði sínu að teknu tilliti til þess að hugtakið pósthús er ekki skilgreint í 2. gr. laga nr. 142/1996 þar sem fram koma orðskýringar samkvæmt lögunum. Þá óska ég þess að stofnunin hafi í svari sínu meðal annars hliðsjón af ákvæðum 3. mgr. 2. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, 1. mgr. 3. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, 7. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, en ég tek fram að sambærilegt ákvæði er ekki í lögum að því er varðar fyrirtæki sem annast póstþjónustu.“

Ég kynnti ráðherra Hagstofu Íslands framangreint erindi með bréfi, dags. 27. desember 2001.

Svar Hagstofu Íslands barst mér með bréfi, dags. 19. mars 2002. Í bréfinu sagði m.a. svo:

„Eins og kom fram í bréfi Hagstofunnar 4. desember 2001 fer hlutafélagaskrá við skráningu nafna eftir ákvæðum laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903 auk þess sem höfð er hliðsjón af 25. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 með síðari breytingum og 14. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997.

Firmalögin nr. 42/1903 eru mjög gömul og atvinnuhættir hafa tekið verulegum breytingum frá setningu þeirra. Hagstofan hefur því lagt drög að leiðbeinandi reglum um beitingu framangreindra lagaákvæða og haft þá til hliðsjónar dómvenjur í þessu efni. Í þessum regludrögum hefur einnig verið tekið mið af grein Sigurgeirs Sigurjónssonar hrl. um firmu og firmavernd. Jafnframt hefur verið litið til bókar Niels Thomsens (4. útgáfa endurskoðuð) með athugasemdum og skýringum við 123. gr. dönsku hlutafélagalaganna. Loks hefur að nokkru verið stuðst við vangaveltur í dönskum og norskum fræðiritum, þar eð löggjöf þessara landa hefur að því er firmaskráningu varðar verið mjög áþekk íslenskri löggjöf lengst af á síðustu öld. Þetta hefur verið talið nauðsynlegt til þess að laga framkvæmd hér á landi að reglum EES-samningsins.

Hvað varðar einstakar spurningar yðar skal eftirfarandi tekið fram:

1. Firmalögin sjálf setja ekki nein lagaskilyrði fyrir því að firmanafnið hafi í sér fólginn eiginleika til að veita firmaeigenda einkarétt til nafnsins, sem felst í því að öðrum sé þá óheimilt að nota það eða annað nafn, sem líkist því á þann hátt, að um ruglingshættu geti verið að ræða. Engu að síður hafa dómstólar sett það sem skilyrði fyrir lagavernd firmanafns að það sé ekki almennt heiti og má í því sambandi nefna Hæstaréttardóm frá 1947, bls. 227, en þar var um að ræða nafn á almennu vöruheiti, sem ekki var talið njóta lagaverndar. Skilyrðið er því ekki leitt beint af 10. gr. laga nr. 42/1903, heldur þeirri dómvenju sem sýnist með þessu vera sprottin af lögunum og umfjöllun fræðimanna síðan.

2. Þessari spurningu hefur að hluta verið svarað undir 1. lið. Hlutafélagaskrá lítur svo á að það hljóti að vera forsenda skráningar, að nafn veiti firmaeiganda einkarétt yfir því, en hafa ber í huga að skráning er nánast undantekningarlaust byggð á lagaskyldu. Því hvílir sú skylda á skrásetjara, ef nafnið telst ekki þess eðlis að það veiti beiðanda einkarétt yfir því, að hafna því að skrá nafnið eða krefjast þess að það verði sérkennt frekar. Varðandi þær athugasemdir við frumvarpið er varð að lögum nr. 42/1903, sem þér óskið eftir að Hagstofan fjalli um, má upplýsa að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 42/1903, hefur hlutafélagaskrá frá fyrstu tíð litið á Ísland sem eitt skráningarsvæði. Hæstiréttur hefur staðfest þann skilning í dómum sínum frá 1988, bls. 1341 og 1344.

3. Einkaréttur ríkisins til póstmeðferðar er allvíðtækur, sbr. 6. gr. laga nr. 142/1996 og 4. gr. sömu laga, þar sem fjallað er um skyldur ríkisins í þessum efnum. Íslenska ríkið hefur samkvæmt þessum ákvæðum bæði rétt og skyldu til að reka ákveðna póststarfsemi. Pósthús hafa verið og eru enn vettvangur þessarar lögbundnu starfsemi ríkisins. Því virðist eðlilegt að líta svo á að orðið pósthús sé órjúfanlega tengt þessari starfsemi ríkisins þótt það orð sé ekki skilgreint sérstaklega í lögunum. Ástæðan gæti einfaldlega hafa verið sú að ekki hafi verið talin ástæða til þess, þar sem þetta væri hugtak sem allir þekktu, þ.e.a.s. staður þar sem hægt væri að senda og sækja póst. Ljóst er að ýmiss konar póstdreifing er ekki í höndum ríkisins, eins og t.d. margar sendingar innanlands með áætlunarbifreiðum og flugvélum. Afgreiðslur slíkra sendinga eru ekki nefndar pósthús þótt væntanlega sé ekkert, sem mælir gegn því að talað væri um pósthús Flugfélags Íslands eða pósthús Landleiða svo eitthvað sé nefnt. Þetta er einmitt það sjónarmið sem hlutafélagaskrá hefur lagt áherslu á. Samkvæmt því yrði skráningu á nafninu „Pósthús Guðmundar“ eða „Pósthús Tryggva“ ekki synjað, enda var [A] bent á slíka skráningu á sínum tíma.

Hlutafélagaskrá skráir ekki almenn heiti ein sér svo sem hraðfrystihús, fiskvinnsla, ráðgjöf, rakarastofa eða pósthús. Skiptir þá ekki máli hvort beðið er um skráningu á nafni með eða án greinis. Þetta er sú almenna regla sem reynt hefur verið að framfylgja í hvívetna eftir að farið var að samræma skráningu nafna í hlutafélagaskrá, eins og fram hefur komið í fyrri bréfaskiptum við yður. Lögmaður [A] hefur réttilega bent á að ýmis dæmi eru um ósamræmi í skráningu nafna í hlutafélagskrá frá eldri tímum. Þessi dæmi eru fyrst og fremst um ónákvæmni eða mistök við skráningu og ættu því ekki að verða fordæmi fyrir frekari skráningu af þessum toga.

Að lokum vill Hagstofan taka fram að þótt einstök lög banni skráningu tiltekinna nafna (orða), sbr. lög nr. 13/1996 og lög nr. 113/1996, en ekki lög nr. 142/1996, er engan veginn sjálfgefið að gagnálykta í þá veru, að öll nöfn, sem ekki eru beinlínis bönnuð, skuli vera öllum frjáls til notkunar.“

Ég sendi lögmanni A ljósrit af bréfi Hagstofu Íslands, dags. 19. mars 2002, með bréfi, dags. 20. mars 2002, og gaf honum kost á að koma að athugasemdum. Bárust þær athugasemdir 22. apríl 2002.

IV.

1.

Í máli þessu var af hálfu A farið fram á það við fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands 8. febrúar 2001 að skráð yrði nýtt nafn á félagið, þ.e. Pósthúsið ehf. Erindi félagsins var synjað af hálfu stofnunarinnar og í bréfi hagstofunnar til lögmanns A, dags. 16. mars 2001, sem ritað var í tilefni af beiðni hans um að stofnunin rökstyddi synjunina, kom fram að ákvörðunin hefði einkum byggst á 1. mgr. 10. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.

Í bréfinu kom fram að ástæður nefndrar synjunar hefðu nánar tiltekið verið tvær. Annars vegar væri nafnið Pósthúsið ehf. almennt heiti að mati stofnunarinnar og því „ekki fallið til þess eitt og sér að aðgreina starfsemi“ félagsins frá starfsemi annarra aðila á sama starfssviði enda gæti félagið ekki eignast einkarétt til nafnsins umfram aðra sem hefðu svipaða starfsemi með höndum. Hins vegar væri nafnið samkvæmt almennum málskilningi tengt við tiltekna starfsemi. Af hálfu hagstofunnar var rakið að samkvæmt 6. gr. laga nr. 142/1996, um póstþjónustu, hefði íslenska ríkið einkarétt á að veita nánast alla þjónustu sem almennt væri veitt á „pósthúsum“ en samkvæmt 12. gr. sömu laga væri íslenska ríkinu heimilt að fela öðrum meðferð þessa einkaréttar síns. Hafi það verið gert með því að fela Íslandspósti hf. meðferð þessa einkaréttar. Þá sagði í bréfi hagstofunnar að því yrði ekki séð „að þrátt fyrir það að [félagið hygðist] starfa við einhverskonar póstdreifingu gæti [það] boðið þjónustu sem almennt [væri] veitt á pósthúsum“. Nafnið Pósthúsið ehf. myndi því gefa „villandi“ mynd af þeirri starfsemi sem A hygðist stunda.

2.

Að því er varðar fyrri ástæðu framangreindrar synjunar Hagstofu Íslands á beiðni A kemur nánar fram í bréfi Hagstofu Íslands til mín, dags. 19. mars 2002, sem ritað var í tilefni af fyrirspurnarbréfi mínu, dags. 27. desember 2001, að lög nr. 42/1903 setji ekki sjálf „nein lagaskilyrði fyrir því að firmanafnið hafi í sér fólginn eiginleika til að veita firmaeiganda einkarétt til nafnsins, sem felst í því að öðrum sé þá óheimilt að nota það eða annað nafn, sem líkist því á þann hátt, að um ruglingshættu geti verið að ræða“. Engu að síður hafi dómstólar sett það sem skilyrði fyrir lagavernd firmanafnsins að það sé ekki almennt heiti. Það skilyrði, sem stofnunin hefði sett fyrir skráningu, þ.e. að firmanafn yrði að veita viðkomandi fyrirtæki einkarétt til nafnsins umfram aðra sem hefðu svipaða starfsemi með höndum, væri því ekki leitt „beint af 10. gr. laga nr. 42/1903, heldur þeirri dómvenju sem [sýndist] með þessu vera sprottin af lögunum og umfjöllun fræðimanna síðan“. Í bréfinu er síðan bent á að Hagstofa Íslands líti svo á að það „hljóti að vera forsenda skráningar, að nafn veiti firmaeiganda einkarétt yfir því, en hafa [beri] í huga að skráning er nánast undantekningarlaust byggð á lagaskyldu. Því [hvíli] sú skylda á skrásetjara, ef nafnið telst ekki þess eðlis að það veiti beiðanda einkarétt yfir því, að hafna því að skrá nafnið eða krefjast þess að það verði sérkennt frekar“.

Samkvæmt framangreindu verður ráðið af gögnum málsins og skýringum Hagstofu Íslands að það sé afstaða stofnunarinnar að beiðni A hafi í fyrsta lagi ekki uppfyllt það skilyrði laga nr. 42/1903, eins og skýra beri lögin með hliðsjón af dómaframkvæmd og viðhorfum fræðimanna, að hið umbeðna nafn, Pósthúsið ehf., hefði getað veitt félaginu einkarétt yfir því og þá með þeim hætti „að öðrum [væri] þá óheimilt að nota það eða annað nafn, sem [líktist] því á þann hátt, að um ruglingshættu [gæti] verið að ræða.“ Á stofnuninni sem lögbundnum skráningaraðila firmanafna hvíli þannig sú skylda að hafna skráningu umbeðins firmanafns teljist það ekki þess eðlis að það veiti beiðanda einkarétt yfir eða krefjast þess að það verði sérkennt frekar.

Samkvæmt ákvæði fyrri málsl. 8. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, skal hver sá er rekur verslun, handiðnað eða verksmiðjuiðnað hlýða ákvæðum annars kafla laganna um nafn það er hann notar við atvinnuna og um undirskrift fyrir hana (firma) enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara. Í 9. gr. laganna er síðan að finna ákvæði er taka til mismunandi félagsforma. Ákvæði 10. gr. laganna er svohljóðandi:

„Enginn má í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Í firma má eigi nefna fyrirtæki, er ekki standa í sambandi við atvinnuna; eigi má heldur halda firma því óbreyttu, er tilgreinir ákveðna atvinnugrein, ef veruleg breyting hefir verið gerð á henni.

Firmu þau, er sett eru á skrá fyrir sama kaupstað eða hrepp, skal greina glöggt hvert frá öðru. Sá, sem tilkynnir firma með nafni sínu, skal því ef samnefnt firma er þegar sett á skrá fyrir einhvern annan í sama kaupstað eða hrepp, greina firma sitt glöggt frá hinu eldra firma með viðauka við nafn sitt eða á annan hátt. Sá, sem eigi tilkynnir firma, en ætlar að reka atvinnu með nafni sjálfs sín (sbr. 16. gr.), má ekki stæla skrásett firma, sem hefir sama nafn, með því að bæta við nafn sitt, fella úr því eða breyta.“

Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 42/1903 segir m.a. svo:

„Með því að ákvæðinu um réttnefni firma eru sett vegna viðskiptanna manna á milli, er það samkvæmt 10. gr. embættiskylda skrásetjara að gæta ákvæðanna þar um, [...] að ekki sjeu sett á skrá fyrir sama kaupstað eða hrepp fleiri samhljóða firmu, og leiðir líka af þessu síðara ákvæði, að umsýsluhafendur geta með því að tilkynna umsýslunöfn fengið einkarjett á þeim á vissu svæði, og er það þýðingarmikið fyrir þá.“ (Alþt. 1903, C-deild, bls. 166.)

Af orðalagi tilvitnaðra ákvæða 10. gr. laga nr. 42/1903 og lögskýringargögnum verður ekki ráðið að það sé skilyrði fyrir skráningu firmanafns að umbeðið nafn hafi þá eiginleika að það veiti viðkomandi fyrirtæki einkarétt til nafnsins umfram aðra sem hafa svipaða starfsemi með höndum. Í skýringarbréfi Hagstofu Íslands, dags. 19. mars 2002, er raunar viðurkennt að slíkt skilyrði verði ekki ráðið af lögunum sjálfum. Það er hins vegar afstaða stofnunarinnar, eins og áður greinir, að slíkt skilyrði verði leitt af dómaframkvæmd og viðhorfum fræðimanna. Henni sem skrásetjara firmanafna sé þannig óheimilt að skrá nöfn ef þau hafa ekki til að bera slíka eiginleika.

Þegar litið er til réttarframkvæmdar dómstóla hér á landi, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar H 1947:227, H 1950:416, H 1964:695, H 1983:1458, H 1986:770, H 1988:1341 og H 1988:1349, verður hins vegar ekki heldur ráðið að dómstólar hafi byggt á því að skýra verði lög nr. 42/1903 með þeim hætti að skrásetjara sé óheimilt að skrá firmanafn nema það hafi þá eiginleika að veita umsækjanda einkarétt til nafnsins. Það er rétt, eins og ráðið verður af tilvitnuðum lögskýringargögnum að baki lögum nr. 42/1903, að með skráningu firmanafns kann firmaeigandinn að öðlast einkarétt til nafnsins sem þá felst í því að öðrum sé óheimilt að nota firmanafnið eða annað nafn sem líkist því á þann hátt að um ruglingshættu getið verið að ræða. Lagavernd firmanafnsins er þannig háð því að nafnið hafi þá eiginleika, þ.e. sérkenni, að fallist verði á að félag hafi með skráningu firmanafns öðlast einkarétt á því gagnvart öðrum. Ofangreindir dómar Hæstaréttar lúta einmitt að þeirri aðstöðu þegar félag, sem skráð hefur firmanafn, telur að síðar til komin skráning firmanafns brjóti gegn slíkum einkarétti hins fyrrnefnda. Af þessum dómum verður hins vegar engin ályktun dregin um það að lög nr. 42/1903 verði túlkuð með þeim hætti að það sé lagaskilyrði fyrir skráningu firmanafns að umbeðið nafn hafi til að bera þá eiginleika að það veiti viðkomandi fyrirtæki einkarétt til nafnsins. Fari fyrirtæki þá leið að velja nafn sem felur í sér almennt heiti kann það hins vegar að eiga á hættu að nafnið veiti því ekki einkarétt til þess ef ágreiningur rís á milli félagsins og annars félags, sem síðar hefur skráð sama eða sambærilegt firmanafn, um hvort sú síðar tilkomna skráning gangi gegn betri rétti hins fyrrnefnda félags.

Ég tel rétt til nánari skýringar að vekja hér athygli á ritgerð Sigurgeirs Sigurjónssonar: Firma og firmavernd, Úlfljótur 3. tbl. 1969, bls. 213-227, en Hagstofa Íslands vísar raunar til þessarar ritgerðar í bréfi sínu til mín, dags. 19. mars 2002, og tekur fram að höfð hafi verið hliðsjón af henni við gerð draga að verklagsreglum stofnunarinnar um beitingu skráningarreglna laga nr. 42/1903. Í framangreindri ritgerð segir m.a. svo á bls. 226-227:

„Að endingu vil ég þó enn ítreka það, sem ég áður minntist á, að einn helzti tilgangur firmans er að sérgreina firmanafnið í viðskiptum. Einkaréttur firmaeigandans til firmans byggist því að miklu leyti á hæfileika nafnsins í þessu skyni. Það er því mjög þýðingarmikið við stofnun hvers firma, að því sé í upphafi valið nafn, sem til þess er fallið að aðgreina firmað í viðskiptum manna á milli. Þetta er atriði, sem margir ekki athuga nógu vel og velja því firmum sínum nöfn, sem geta valdið örðugleikum síðar meir. Sé farið í gegnum þau firmanöfn, sem árlega birtast í Stjórnartíðindum kemur í ljós, að mikill fjöldi firma eru skráð hér á hverju ári víðsvegar um land allt, sem innifela í nöfnum sínum annað hvort almenn vöruheiti, eða tegund atvinnunnar eingöngu. Má hér t.d. nefna firmanöfn sem þessi: Gluggar hf., Teppi hf., Stál, Lýsi, Síld, Vélar, Rafgeymar, Rafvélar o.s. frv. Þá má nefna firmaheiti, eins og t.d. Sandflutningar, Malbikun, Matvælageymslan, Prentmyndir, Prjónles o.s. frv. Allt eru þetta nöfn, sem, skv. því er ég hefi áður rakið, eru ekki talin hafa í sér fólgin nægileg sérkenni til þess að öðlast megi einkarétt til þessara firmanafna gagnvart öðrum, sem samskonar vörur vilja selja eða samskonar þjónustu vilja bjóða.

Þrátt fyrir það, að slík firmanöfn sem þessi munu ekki njóta lagaverndar á einkarétti til þessara nafna, þá hefur mér verið tjáð af skráningarstjórum, að ótrúlega margir sækist einmitt eftir að skrá firmu sín með slíkum nöfnum. Þar sem firmalögin sjálf banna ekki skráningu þessara eða þvílíkra nafna, þá hefur því reyndin orðið sú, að árlega eru skráð slík firmanöfn hér, sem svo ekki duga, þegar á reynir. [...] Þetta er og fullkomlega löglegt, en þess ber þá að gæta, að til þess að geta öðlast einkarétt til nafnsins, verður að bæta við einhverju orði, sem hefur þann hæfileika að sérgreina firmað á einhvern hátt, auk þess sem það kann að geta þjónað hinum tilganginum líka.“

Ég legg á það áherslu að lög nr. 42/1903 hafa ekki sætt neinum breytingum, sem hér skipta máli, eftir að framangreind ritgerð Sigurgeirs Sigurjónssonar var rituð á árinu 1969. Þá verður heldur ekki séð að gengið hafi dómar sem benda til þess að skrásetjara sé nú heimilt að hafna skráningu firmanafns á þeirri forsendu að um sé að ræða almennt heiti sem ekki hafi þá eiginleika til að bera að veita firmaeiganda einkarétt til nafnsins. Ég tek fram að af kvörtun málsins til mín er ljóst að A gera sér grein fyrir því að hið umbeðna nafn kunni að skorta slíka eiginleika en fyrirtækið hefur þrátt fyrir það valið umrætt nafn á grundvelli heildarmats á hagsmunum fyrirtækisins á viðskiptalegum grundvelli. Ekkert í lögum nr. 42/1903 veitir að mínu áliti stjórnvöldum heimild til þess að hafna skráningu slíkra almennra heita ef þau verða ekki talin brjóta gegn betri rétti annars firmaeiganda á grundvelli eldri skráningar en ég legg á það áherslu að Hagstofa Íslands hefur ekki haldið því fram í þessu máli að um slíkt sé að ræða í tilviki A.

Ég tek fram að í skýringarbréfi Hagstofu Íslands, dags. 19. mars 2001, kemur fram að hlutafélagaskrá skrái ekki almenn heiti ein og sér, s.s. hraðfrystihús, fiskvinnsla, ráðgjöf, rakarastofa eða pósthús. Skipti þá ekki máli hvort beðið er um skráningu á nafni með eða án greinis. Þetta sé sú almenna regla sem reynt hafi verið að framfylgja í hvívetna eftir að farið var að samræma skráningu nafna í hlutafélagaskrá. Þá er rakið að dæmi um skráningu slíkra almennra heita frá eldri tímum séu fyrst og fremst dæmi um ónákvæmni eða mistök við skráningu og ættu því ekki að verða fordæmi fyrir frekari skráningu af þessum toga.

Áður er rakið að ég fæ ekki séð að orðalag 10. gr. laga nr. 42/1903, eða önnur ákvæði laganna, og lögskýringargögn veiti tilefni til þess að skýra lögin með þeim hætti að það sé skilyrði skráningar firmanafns að ekki sé um að ræða almenn heiti sem skorti þá eiginleika að veita firmaeigandanum einkarétt til nafnsins. Sé það rétt að Hagstofa Íslands hafi á undanförnum árum farið að byggja á því sem almennri reglu, eins og fram kemur í skýringarbréfi stofnunarinnar til mín, að hafna því að skrá almenn heiti vörutegunda eða starfsemi rekstrar, tel ég að þessi framkvæmd stofnunarinnar eigi sér ekki stoð í lögum. Fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands, sbr. lög nr. 62/1969, um fyrirtækjaskrá, hefur það verkefni með höndum að skrá firmanöfn á grundvelli þeirra skilyrða sem lög nr. 42/1903 setja slíkri skráningu. Það leiðir að mínu áliti af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar að stofnuninni er óheimilt að ganga lengra eða gera frekari skilyrði fyrir slíkri skráningu en fram koma í lögum nr. 42/1903 eða í öðrum ákvæðum laga sem á hverjum tíma kunna að eiga hér við. Þá bendi ég á að ganga verður út frá því að aðilum sem áhuga hafa á því að stunda tiltekinn atvinnurekstur sé að jafnaði frjálst að nota það nafn sem þeir kjósa nema lög mæli fyrir um annað og þá m.a. hugsanlegur betri réttur annars aðila til nafnsins sem nýtur lagaverndar. Hafa verður hér í huga þá réttindavernd sem leiðir af meginreglu 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um atvinnufrelsi. Ef nauðsynlegt þykir vegna almannahagsmuna eða sérgreindra hagsmuna á ákveðnu sviði að banna notkun tiltekins firmanafns tel ég samkvæmt þessu að gera verði að jafnaði þá kröfu að slíkt bann eigi sér stoð í lögum.

Samkvæmt framangreindu fellst ég ekki á það með Hagstofu Íslands að það leiði af lögum nr. 42/1903, eins og túlka beri þau í ljósi dómaframkvæmdar og viðhorfa fræðimanna, að það sé „forsenda skráningar, að nafn veiti firmaeiganda einkarétt yfir því“, og því hvíli sú skylda á stofnuninni sem lögbundnum skrásetjara firmanafna að hafna ósk um skráningu firmanafns „ef nafnið telst ekki þess eðlis að það veiti beiðanda einkarétt yfir því“. Það er því niðurstaða mín að þetta sjónarmið, sem synjun Hagstofu Íslands í máli A byggði einkum á, hafi ekki verið í samræmi við lög. Ég tel rétt að taka fram að tilvísun Hagstofu Íslands til 25. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og 14. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, breytir ekki þessari niðurstöðu enda eru þessi ákvæði ekki þess eðlis að þau þrengi þau skilyrði fyrir skráningu firmanafna sem mælt er fyrir um í lögum nr. 42/1903.

3.

Áður er rakið að synjun Hagstofu Íslands á beiðni A um skráningu firmanafnsins Pósthúsið ehf. var einnig byggð á því að hið umbeðna nafn væri samkvæmt almennum málskilningi tengt við ákveðna starfsemi sem væri nánast að öllu leyti háð einkarétti íslenska ríkisins samkvæmt 6. gr. laga nr. 142/1996, um póstþjónustu. Byggði hagstofan á því að ekki yrði séð að „þrátt fyrir það að [félagið hygðist] starfa við einhverskonar póstdreifingu [gæti það] boðið þjónustu sem almennt [væri] veitt á pósthúsum“. Nafnið Pósthúsið ehf. myndi því gefa „villandi“ mynd af þeirri starfsemi sem A hygðist stunda.

Í skýringarbréfi Hagstofu Íslands til mín, dags. 19. mars 2002, kemur fram að einkaréttur ríkisins til póstmeðferðar sé „allvíðtækur“, sbr. 6. gr. laga nr. 142/1996 og 4. gr. sömu laga. Íslenska ríkið hafi samkvæmt þessum ákvæðum bæði rétt og skyldu til að reka ákveðna póststarfsemi. Pósthús hafi verið og séu enn vettvangur þessarar lögbundnu starfsemi ríkisins. Því virðist eðlilegt að líta svo á að orðið pósthús sé órjúfanlega tengt þessari starfsemi ríkisins þótt það orð sé ekki skilgreint sérstaklega í lögunum. Er rakið í bréfinu að ástæðan gæti einfaldlega hafa verið sú að ekki hafi verið talin ástæða til þess þar sem þetta væri hugtak sem allir þekktu, þ.e.a.s. staður þar sem hægt væri að senda og sækja póst. Ljóst væri að ýmiss konar póstdreifing væri ekki í höndum ríkisins, eins og t.d. margar sendingar innanlands með áætlunarbifreiðum og flugvélum. Afgreiðslur slíkra sendinga væru ekki nefndar pósthús þótt væntanlega væri ekkert sem mælti gegn því að talað væri um pósthús Flugfélags Íslands eða pósthús Landleiða svo eitthvað væri nefnt. Þetta væri einmitt það sjónarmið sem hlutafélagaskrá hefði lagt áherslu á. Samkvæmt því yrði skráningu á nafninu „Pósthús Guðmundar“ eða „Pósthús Tryggva“ ekki synjað enda hafi A verið bent á slíka skráningu á sínum tíma. Að lokum var af hálfu hagstofunnar bent á að enda þótt einstök lög banni skráningu tiltekinna nafna (orða), sbr. lög nr. 13/1996 og lög nr. 113/1996, en ekki lög nr. 142/1996, væri engan veginn sjálfgefið að gagnálykta í þá veru að öll nöfn, sem ekki eru beinlínis bönnuð, skyldu vera öllum frjáls til notkunar.

Af lögum nr. 42/1903 og lögskýringargögnum verður ráðið að einn megintilgangur laganna var sá að tryggja menn gegn því að höfð væru heiti í firmanöfnum er gæfu rangar hugmyndir um starfssvið eða ábyrgð á rekstri og bæri skráningarstjóra að gæta þeirra atriða að eigin frumkvæði við skráninguna, sjá Sigurgeir Sigurjónsson: Firma og firmavernd, Úlfljótur 3. tbl. 1969, bls. 214. Ekki verður í ljósi þessa fullyrt annað en að það kunni að vera málefnalegt og í samræmi við II. kafla laga nr. 42/1903 að hafna skráningu firmanafns á þeim forsendum að umbeðið nafn kunni að gefa ranga hugmynd um starfssvið eða fyrirkomulag ábyrgðar, sjá hér einkum fyrirmæli 1. mgr. 10. gr. laga nr. 42/1903.

Í kvörtun A. til mín kemur fram að ástæða þess að fyrirtækið óskaði eftir breytingu á nafni fyrirtækisins hjá fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands hafi verið sú að fyrirtækið hygðist „stunda alla þá póststarfsemi sem [því væri] heimil lögum samkvæmt“. Væri mikil samkeppni á þessu sviði og væri það fyrirtækinu mikilvægt að fá nafni þess breytt. Af þessu fæ ég í fyrsta lagi ekki ráðið að umbeðið nafn, Pósthúsið ehf., hafi eitt og sér verið þess eðlis að það gæfi villandi mynd af fyrirhuguðu starfssviði félagsins. Þá hefur því ekki verið haldið fram af hálfu hagstofunnar að fyrirkomulag ábyrgðar fyrirtækisins hafi verið með öðrum hætti en leiðir af lagareglum um einkahlutafélög, sbr. lög nr. 138/1994.

Ég tek hins vegar fram að ekki er loku fyrir það skotið að lög kunni að mæla fyrir um að tiltekin afmörkuð starfsemi sé undirorpin einkarétti tiltekins aðila, s.s. ríkis eða ákveðins lögaðila, sbr. t.d. 1. gr. laga nr. 25/1921, um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks, 2. gr. laga nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Ekki verður þannig fullyrt að óheimilt sé í öllum tilvikum að hafna skráningu firmanafns sem eindregið gefur til kynna að viðkomandi fyrirtæki muni stunda slíka starfsemi sem háð er einkarétti annars aðila. Þó tel ég að gera verði þá kröfu í slíkum tilvikum að þær lagaheimildir sem veita slíkan einkarétt vegna ákveðinnar starfsemi, sem annars væri öllum frjáls, séu skýrar og glöggar.

Í annan stað tek ég fram að samkvæmt lögum nr. 142/1996, um póstþjónustu, sbr. nú lög nr. 19/2002, sem birt voru í Stjórnartíðindum 3. apríl 2002, hefur íslenska ríkið aðeins einkarétt á póstþjónustu vegna tiltekinna póstsendinga, sbr. 6. gr. laga nr. 142/1996, sbr. nú 7. gr. laga nr. 19/2002. Öðrum er hins vegar heimilt að annast grunnpóstþjónustu, sem nú er nefnd alþjónusta, sbr. 6. gr. laga nr. 19/2002, eða hvers kyns aðra póstþjónustu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sem fram koma í lögunum. Ég get því ekki fallist á að umfang og eðli þess einkaréttar sem ríkinu var veittur með þágildandi lögum nr. 142/1996, sbr. nú lög nr. 19/2002, hafi verið með þeim hætti að Hagstofu Íslands hafi verið rétt að hafna skráningu firmanafnsins Pósthúsið ehf. á þessum forsendum.

Ég tel rétt að ítreka það sem rakið var hér að framan um að almennt verði að ganga út frá því að aðilum sem áhuga hafa á því að stunda tiltekinn atvinnurekstur sé frjálst að nota það nafn sem þeir kjósa nema lög mæli fyrir um annað og þá m.a. hugsanlegur betri réttur annars aðila til nafnsins sem nýtur verndar að lögum, sbr. til hliðsjónar þá réttindavernd sem leiðir af atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar. Ef nauðsynlegt þykir vegna almannahagsmuna eða sérgreindra hagsmuna á ákveðnu sviði að banna notkun tiltekins firmanafns og þá einkum af hálfu aðila utan ákveðins starfsvettvangs, eða jafnvel alfarið, tel ég samkvæmt þessu að gera verði þá kröfu að slíkt bann eigi sér stoð í lögum. Bendi ég í þessu sambandi á að sú leið hefur í nokkrum tilvikum verið farin í löggjöf síðari ára að mæla sérstaklega fyrir um það að óheimilt sé öðrum en tilteknum afmörkuðum hópi að nota ákveðið orð, nafn eða hugtak í firmanafni, sbr. t.d. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, 7. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, 1. mgr. 3. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði og ákvæði 8. gr. laga nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Ég bendi í ljósi þessa á að hvorki í 2. gr. laga nr. 142/1996 né 4. gr. laga nr. 19/2002 eða öðrum lögum er að finna bann við því að þeir aðilar sem annast tiltekna þætti póstþjónustu geti fengið nafnið pósthús skráð sem firmanafn sitt að virtum betri rétti annars aðila.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að synjun fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands, dags. 9. febrúar 2001, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 16. mars s.á., á því að breyta nafni fyrirtækisins A í Pósthúsið ehf. hafi ekki verið í samræmi við lög.

4.

Í skýrslu minni til Alþingis fyrir árið 2000 kom fram að ég hefði sett það markmið að stytta afgreiðslutíma mála nokkuð þannig að niðurstaða í þeim málum sem sættu nánari athugun af minni hálfu, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lægi að jafnaði fyrir eigi síðar en 6 mánuðum eftir að kvörtun hefði borist skrifstofu minni. Ég lagði á það áherslu í að hafa yrði í huga að afgreiðslutími mála hjá umboðsmanni Alþingis markaðist að verulegu leyti af því hvernig stjórnvöld sem í hlut ættu hverju sinni svöruðu fyrirspurnum mínum og beiðnum um skýringar í tilefni af tilteknum málum, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997. Myndi ég því í samræmi við markmið um styttingu afgreiðslutíma leggja á það aukna áherslu í störfum mínum að hlutaðeigandi stjórnvöld svöruðu fyrirspurnarbréfum mínum og beiðnum um afhendingu gagna eins fljótt og kostur væri.

Áður er rakið að með bréfi til Hagstofu Íslands, dags. 22. maí 2001, óskaði ég eftir því að hagstofan léti mér í té tilteknar upplýsingar í tilefni af kvörtun þessa máls. Þar sem svör bárust ekki frá stofnuninni ítrekaði ég bréf mitt með þremur bréfum til hagstofunnar, dags. 24. ágúst, 8. október og 15. nóvember 2001. Hagstofan svaraði mér loks með bréfi, dags. 4. desember 2001, þ.e. rúmlega hálfu ári síðar. Í ljósi þessa tel ég rétt ítreka framangreind sjónarmið um nauðsyn þess að stjórnvöld bregðist skjótt og vel við beiðnum mínum um svör við tilteknum fyrirspurnum og um afhendingu upplýsinga í tilefni af kvörtunum sem mér berast þannig að mér sé fært að sinna því hlutverki sem umboðsmanni Alþingis er falið í lögum. Tel ég að á það hafi skort af hálfu Hagstofu Íslands í þessu máli.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða mín að synjun fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands, dags. 9. febrúar 2001, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 16. mars 2001, á því að breyta nafni fyrirtækisins A í Pósthúsið ehf. hafi ekki verið í samræmi við lög. Beini ég í ljósi þessa þeim tilmælum til Hagstofu Íslands að það taki mál A til endurskoðunar, komi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í þessu áliti.

VI.

Með bréfi til hagstofustjóra, dags. 11. febrúar 2003, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort af hálfu A hefði verið leitað til Hagstofu Íslands á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða hvort málið væri enn til meðferðar. Í svari hagstofustjóra, dags. 19. sama mánaðar, kemur fram að með bréfi, dags. 2. maí 2002, hafi A óskað á ný eftir breytingu á heiti félagsins í Pósthúsið ehf. Fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands hafi orðið við þessari beiðni og hafi breytingin verið færð í skrána 27. maí 2002.