Sektir.

(Mál nr. 12011/2023)

Kvartað var yfir ákvörðunum Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalda. Lutu brotin annars vegar að því að bifreið hefði verið lagt á gangstétt og hins vegar í merkt stæði fyrir ökutæki fólks með fötlun án sýnilegs stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða. Í kvörtuninni voru m.a. gerðar athugasemdir við að ekki væri litið til sérstakra aðstæðna viðkomandi burt séð frá þrengsta skilningi umferðarlaga. 

Af gögnum málsins varð ekki séð að tilefni væri til að gera athugasemdir við lögmæti ákvarðana Bílastæðasjóðs.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. mars 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 13. janúar sl. sem lýtur að ákvörðunum Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 5. október og 21. nóvember sl. um álagningu stöðubrotsgjalda fyrir brot gegn 3. mgr. 28. gr. og a-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Lutu brotin annars vegar að því að bifreið yðar hefði verið lagt á gangstétt og hins vegar að henni hefði verið lagt á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks án þess að stæðiskort fyrir hreyfihamlaða væri sýnilegt í bifreiðinni. Í kvörtun yðar eru m.a. gerðar athugasemdir við að ekki sé litið til sérstakra aðstæðna yðar í þessu tilviki burt séð frá þrengsta skilningi umferðalaga. Gögn málsins bárust umboðsmanni 20. febrúar sl. samkvæmt beiðni þar um.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélag á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og nánar greindar siðareglur.

Samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga má eigi stöðva skráningarskylt ökutæki eða leggja því á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjólarein eða hjólastíg nema annað sé ákveðið, sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga er að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð bannað stöðva eða leggja ökuræki á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks. Þá segir í 1. mgr. 87. gr. laganna að eingöngu handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða sé heimilt að leggja ökutæki í bifreiðastæði sem ætlað sé fyrir fatlaða og auðkennt með þar til gerðu umferðarmerki eða þar sem á annan hátt sé sannanlega gefið til kynna að um stæði fyrir ökutæki hreyfihamlaðs einstaklings sé að ræða. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er mælt fyrir um að þegar ökutæki sé lagt í bifreiðastæði skuli stæðiskorti komið fyrir innan við framrúðu þannig að framhlið þess sé vel sýnileg að utan. Leggja má gjald á vegna brota á ákvæðum 3. mgr. 28. gr. og 29. gr., sbr. a- og b-lið 1. mgr. 109. gr. umferðarlaga.

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar sem og gögn málsins, þar á meðal ljósmyndir af vettvangi, verður ekki annað séð en að bifreið yðar hafi verið lagt á gangstétt 5. október sl. og að þér séuð hvorki handhafi stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða né hafi slíku korti verið komið fyrir innan við framrúðu bifreiðar yðar 21. nóvember sl. er henni var lagt í merktu stæði fyrir ökutæki hreyfihamlaðs einstaklings. Tel ég því ekki efni til að gera athugasemdir við lögmæti ákvarðana Bílastæðasjóðs.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. A-liður 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.