Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 12047/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu erinda hjá byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa og bæjarstjóra Garðabæjar vegna ætlaðra óleyfisframkvæmda á landi viðkomandi. 

Í kjölfar eftirgrennslan umboðsmanns hafði skipulagsstjórinn samband og í framhaldinu var ákveðið að boða fljótlega til fundar. Ekki var því ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. mars 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 7. febrúar sl. yfir töfum á afgreiðslu erinda yðar til byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa og bæjarstjóra Garðabæjar vegna ætlaðra óleyfisframkvæmda á landi yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar var Garðabæ ritað bréf 13. febrúar sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort erindi yðar hefðu borist sveitarfélaginu og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra.

Svar Garðabæjar barst 6. mars sl. en þar var greint frá því að skipulagsstjóri sveitarfélagsins hefði degi fyrr haft samband við yður símleiðis vegna málsins. Í símtalinu hefðuð þér m.a. óskað eftir fundi með fulltrúum sveitarfélagsins og stæði til að boða til hans fljótlega af hálfu sveitarfélagsins. Í símtali við starfsmann skrifstofu umboðsmanns 8. mars sl. staðfestuð þér framangreint.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu framangreindra erinda og nú liggur fyrir að sveitarfélagið hefur brugðist við þeim tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.