Neytendamál.

(Mál nr. 12073/2023)

Kvartað var yfir því að Neytendastofa hefði ekki tilkynnt þar til bærum yfirvöldum um ætluð lögbrot tiltekins fyrirtækis á áfengislögum.  

Þar sem málið hafði hvorki verið borið stofnunina sjálfa né menningar- og viðskiptaráðuneytið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. mars 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 27. febrúar sl. fyrir hönd A sem ég ræð að lúti að því að Neytendastofa hafi ekki tilkynnt þar til bærum yfirvöldum um ætluð lögbrot tiltekins fyrirtækis á áfengislögum nr. 75/1988, m.a. ákvæði 20. gr. laganna um bann við áfengisauglýsingum, þegar því barst vitneskja um þau í tengslum við meðferð þess á máli sem lauk með ákvörðun stofunnar nr. 1/2023, 3. febrúar sl. Með ákvörðuninni var téðu fyrirtæki bannað að viðhafa tiltekna viðskiptahætti sem varða einkum auglýsingu áfengis. Í kvörtuninni er vísað til þess að þegar opinberri stofnun berist upplýsingar um slík lögbrot beri henni að tilkynna það til þar til bærra yfirvalda.

Í tilefni af kvörtun yðar hafði starfsmaður umboðsmanns samband við yður símleiðis 6. mars sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum um tengsl A við ákvörðun Neytendastofu. Þar kom fram að samtökin hefðu ekki verið meðal þeirra sem sent höfðu stofnuninni ábendingar vegna málsins og hefðu ekki átt aðild að málinu. Svo sem vikið er að hér að framan verður helst ráðið af kvörtun yðar að hún lúti að því að Neytendastofa hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna ætluð lögbrot umrædds fyrirtækis til lögreglu en ekki efnislegri niðurstöðu í umræddu máli.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að æðra stjórnvaldi sé gefið færi á að fjalla um mál og taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum sem það hefur áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar. Það á einnig við í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Ástæða þess að ég rek framangreint er sú að samkvæmt 1. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu, heyrir stofnunin undir menningar- og viðskiptaráðherra, sbr. yfirstjórn hans með stofnuninni samkvæmt k-lið 7. töluliðar 9. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið athugasemdir yðar vegna starfshátta stofnunarinnar undir stofnunina sjálfa eða eftir atvikum menningar- og viðskiptaráðuneyti að fengnum viðbrögðum stofnunarinnar. Að þessu gættu, og eins og kvörtunin liggur fyrir núna, tel ég rétt að þér leitið fyrst með athugasemdir yðar til framangreindra aðila áður en ég fjalla um hana.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.