Sjávarútvegsmál. Mæling á vinnslunýtingu fiskiskips. Refsikennd viðurlög. Lögmætisreglan. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 3232/2001)

A kvartaði yfir úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun Fiskistofu um breytingu á nýtingarstuðlum fiskiskips í eigu A. Beindist kvörtunin meðal annars að því að ákvæði 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998, um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð, fælu í sér refsikennd viðurlög sem ættu sér ekki lagastoð.

Umboðsmaður rakti ákvæði reglugerðar nr. 511/1998, einkum 9. og 10. gr., og ákvæði laga nr. 54/1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum. Tók hann fram að af orðalagi 9. gr. reglugerðar nr. 511/1998 yrði ekki annað ráðið en að meginreglan væri sú að Fiskistofa skyldi ákvarða nýtingarstuðla hlutaðeigandi skips í viðkomandi afurð meðal annars með hliðsjón af niðurstöðu samanburðar eftirlitsmanna á nýtingarsýnum og vinnslusýnum. Leiddi niðurstaðan til þess að mælingar á nýtingu við vinnslu afurðar hefðu verið framkvæmdar þannig að þær gæfu ekki rétta mynd af raunverulegri nýtingu um borð í veiðiskipi skyldi Fiskistofa ákvarða nýtingarstuðla hlutaðeigandi skips á ný í viðkomandi afurð með hliðsjón af niðurstöðu slíks samanburðar. Taldi umboðsmaður ekki fært að fullyrða annað en að í ljósi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1992 ætti slíkt fyrirkomulag sér fullnægjandi stoð í lögum.

Það var á hinn bóginn niðurstaða umboðsmanns að ekki væri hægt að draga sömu ályktanir um beitingu 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998. Benti hann á að af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins hefði ekki verið sýnt fram á að beiting Fiskistofu á þessu ákvæði í máli A hefði byggt á sömu sjónarmiðum um að nauðsynlegt hefði verið í samræmi við raunverulega nýtingu skipsins að leiðrétta nýtingarstuðla skips A. Taldi umboðsmaður samkvæmt þessu að leggja yrði til grundvallar að með ákvæðinu væri mælt fyrir um skyldu Fiskistofu til að lækka nýtingarstuðla hlutaðeigandi skips í refsiskyni. Í ljósi þessa og með vísan til lögmætisreglunnar hefði ákvæðið ekki fullnægjandi stoð í lögum. Var það því niðurstaða umboðsmanns að úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins í máli A, að því er varðaði beitingu 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998, hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til sjávarútvegsráðuneytisins að það tæki mál A til endurskoðunar, kæmi fram ósk þess efnis frá félaginu, og tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu og leitaði eftir atvikum leiða til að rétta hlut A. Þá beindi hann meðal annars þeim tilmælum til ráðuneytisins að það endurskoðaði 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998 í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

I.

Hinn 8. maí 2001 leitaði A, hrl., fyrir hönd B, til mín. Beindist kvörtun félagsins að úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 10. maí 2000, þar sem staðfest var ákvörðun Fiskistofu, dags. 29. febrúar s.á., „um breytingu á nýtingarstuðlum m/s [X]“.

Í kvörtun málsins er því borið við að ákvörðun Fiskistofu, sem staðfest var í úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins, hafi ekki verið í samræmi við lög. Er því haldið fram í kvörtuninni að ákvæði 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998, um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð, feli í sér refsikennd viðurlög sem eigi sér ekki lagastoð. Í annan stað er því haldið fram í kvörtuninni að sú aðferð sem beitt var við samanburð á sýnum af hálfu eftirlitsmanna Fiskistofu hafi ekki verið tæk. Þá eru gerðar athugasemdir við það að A hafi ekki verið kynnt öll gögn málsins, þ.m.t. skýrsla eftirlitsmanna Fiskistofu sem framkvæmdu nefnda úttekt á nýtingarsýnum um borð í m/s X og starfsmenn hans átt að hafa undirritað. Loks eru gerðar athugasemdir við rökstuðning í úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins frá 10. maí 2000 og þá niðurstöðu þess að það geti ekki tekið til endurskoðunar mat eftirlitsmanna Fiskistofu um hvort nýtingarsýni hafi verið í samræmi við vinnslusýni að öðru leyti en því sem lýtur að „framkvæmd samanburðarins“.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 6. maí 2002.

II.

Atvik málsins eru þau að 22. desember 1999 framkvæmdu eftirlitsmenn Fiskistofu úttekt á nýtingarsýnum úr afla m/s X í veiðiferð skipsins dagana 10. nóvember 1999 til og með 20. desember s.á. Í þessari úttekt voru borin saman vinnslusýni annars vegar og hins vegar nýtingarsýni og skýrslur skipstjóra um vinnslunýtingu í veiðiferðinni. Hinn 28. janúar 2000 sendi Fiskistofa bréf til A þar sem röng dagsetning veiðiferðar kom fram. Af hálfu A var bréfi Fiskistofu svarað með bréfi, dags. 4. febrúar 2000, þar sem gerðar voru athugasemdir við dagsetningu veiðiferðar í bréfi Fiskistofu og mótmælt öllum breytingum á nýtingarstuðlum m/s X. Hinn 8. febrúar 2000 sendi Fiskistofa fyrirtækinu bréf sem hljóðaði m.a. svo:

„[...]

Í umræddri úttekt þann 22. desember 1999 voru borin saman, annars vegar, vinnslusýni og hins vegar nýtingarsýni og skýrslur skipstjóra um vinnslunýtingu í veiðiferð m/s [X] dagana 10.11.1999-20.12.1999.

Samanburður leiddi í ljós að verulegur mismunur var milli nýtingarsýnis nr. 75, sem var gullkarfi, hausskorinn og vinnslusýnis úr sömu afurð.

Í 9. gr. reglugerðar nr. 511/1998, um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð, segir: „Komi í ljós, svo sem við samanburð eftirlitsmanna á nýtingarsýnum og vinnslusýnum eða við samanburð á nýtingarskýrslum og sýnum úr afla að mælingar á nýtingu við vinnslu einhverrar afurða hafi verið framkvæmdar þannig að þær gefi ekki rétta mynd af raunverulegri nýtingu um borð í veiðiskipi skal Fiskistofa ákvarða nýtingarstuðla hlutaðeigandi skips í viðkomandi afurð með hliðsjón af niðurstöðu samanburðarins, þannig að þeir verði a.m.k. 3 prósentustigum lægri en meðaltal nýtingarstuðla síðustu þriggja veiðiferða í viðkomandi afurðum.“

Þá segir í 10. gr. fyrrnefndrar reglugerðar að næst þegar nýtingarstuðull í viðkomandi afurð er ákvarðaður samkvæmt 5. gr. „skal sá stuðull lækkaður sem nemur helmingi þeirrar lækkunar, sem síðast var beitt í viðkomandi afurð, sbr. 7.-9. gr.“

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu úttektar eftirlitsmanna Fiskistofu á nýtingarsýnum m/s [X] úr umræddri veiðiferð og með vísan til framangreindra reglugerðarákvæða áformar Fiskistofa að lækka nýtingarstuðul í gullkarfa, hausskornum, í veiðiferð skipsins dagana 10.11.1999-20.12.1999 um 3%, sbr. 9. gr. tilvitnaðrar reglugerðar. Þá áformar Fiskistofa að lækka nýtingarstuðul skipsins í næstu veiðiferð þar á eftir um 1,5% sbr. 2. mgr. 10. gr. sömu reglugerðar.

Fiskistofa hefur mál þetta til meðferðar. Áður en boðuðum viðurlögum verður hrint í framkvæmd gefst yður kostur á að koma að athugasemdum og andmælum samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

A svaraði bréfi Fiskistofu með bréfi, dags. 17. febrúar 2000, þar sem á ný var mótmælt öllum breytingum á nýtingarstuðlum m/s X. Voru gerðar athugasemdir við framkvæmd samanburðarins á umræddum sýnum auk þess sem því var haldið fram að fyrirtækinu hefði ekki verið kynnt „nein þau gögn af Fiskistofu, sem styðja þá fullyrðingu sem [kæmi] fram í téðu bréfi, þ.e. að verulegur mismunur [hefði] verið á milli nýtingarsýnis og vinnslusýnis úr sömu afurð.“

Með bréfi Fiskistofu, dags. 29. febrúar 2000, var A tilkynnt um þá ákvörðun stofnunarinnar, sbr. 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998, að lækka nýtingarstuðul m/s X í hausskornum gullkarfa um 3% í veiðiferð skipsins dagana 10. nóvember 1999 til og með 20. desember s.á. Var tekið fram að samkvæmt þessu yrði nýtingarstuðull skipsins í hausskornum gullkarfa 56,7% í umræddri veiðiferð skipsins. Loks var rakið að næst þegar nýtingarstuðull í viðkomandi afurð væri ákvarðaður, sbr. 5. gr., skyldi lækka þann stuðul um 1,5%, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998. Í umræddu bréfi Fiskistofu sagði m.a. svo:

„[...]

Samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Fiskistofu sem framkvæmdu umrædda úttekt, undirritaðri af fulltrúum [A] og mæliblaði vegna nýtingarmælingar nr. 75 var heildarþungi umrædds nýtingarsýnis 9,33 kg og alls var um að ræða 20 fiska. Þá vó vinnslusýnið sem tekið var til samanburðar 7,66 kg og innihélt 21 fisk. Er því ljóst að meðalfiskurinn í umræddu nýtingarsýni var 467 gr að þyngd en meðalfiskur í vinnslusýninu var 365 gr að þyngd. Þá voru bæði sýnin merkt kassanúmeri T-362, sem er gullkarfi, hausskorinn 300-500 gr. Liggur því fyrir að bæði sýnin hafa innihaldið fisk innan marka viðkomandi kassanúmers.

Með vísan til framanritaðs hafnar Fiskistofa framangreindum rökum yðar. Jafnframt vill Fiskistofa benda yður á að umræddur samanburður á nýtingarsýni og vinnslusýni byggir á sjónmati tveggja eftirlitsmanna og því liggja ekki fyrir neinar sérstakar mælingar eða úttektir vísindamanna á umræddum afurðum.“

A kærði framangreinda ákvörðun Fiskistofu til sjávarútvegsráðuneytisins með bréfi, dags. 16. mars 2000. Ráðuneytið kvað upp svohljóðandi úrskurð í málinu 10. maí 2000:

„Um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna eigin afla um borð gilda ákvæði reglugerðar nr. 511, 18. ágúst 1998, sbr. reglugerð nr. 448, 5. júlí 1999. Reglugerð þessi er m.a. sett með stoð í lögum nr. 54, 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, sbr. lög nr. 58/1996 en í 1. mgr. 2. gr. segir að um útreikning á nýtingu aflaheimilda skuli farið að reglugerð um nýtingarstuðla fyrir fullvinnsluskip sem ráðherra setji. Ráðuneytið getur því ekki fallist á að ákvæði 9. gr. um lækkun nýtingarstuðla reglugerðar nr. 511/1998 skorti lagastoð.

Í 1. og 2. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um skyldu til þess að mæla vinnslunýtingu um borð í veiðiskipum, sem vinna eigin afla um borð. Nýtingarstuðlar eru grundvöllur fyrir útreikningi á afla veiðiskips en þeir eru fundnir með töku sérstakra nýtingarsýna og í 3. gr. er kveðið á um að nýtingarsýni skuli geymd aðskilin þannig að þau séu aðgengileg veiðieftirlitsmönnum. Í 7. gr. reglugerðarinnar segir að Fiskistofa hafi eftirlit með framkvæmd mælinga á nýtingu samkvæmt reglugerð þessari. Í 9. gr. segir síðan að komi í ljós við samanburð eftirlitsmanna á nýtingarsýnum og sýnum úr afurð eða við samanburð á nýtingarskýrslum og sýnum úr afurð, að mælingar á nýtingu við vinnslu einhverrar afurðar hafi verið framkvæmdar þannig að þær gefi ekki rétta mynd af raunverulegri nýtingu um borð í veiðiskipi skuli Fiskistofa ákvarða nýtingarstuðla hlutaðeigandi skips í viðkomandi afurð með hliðsjón af niðurstöðu samanburðarins þannig að þeir verði a.m.k. 3% prósentustigum lægri en meðaltal nýtingarstuðla síðustu þriggja veiðiferða í viðkomandi afurðum. Í 10. gr. segir að Fiskistofa skuli tilkynna hlutaðeigandi útgerð ákvörðun sína um breytingar á nýtingarstuðlum og að sú ákvörðun gildi fyrir þá afurð sem athugunin beindist að. Í 2. mgr. 10. gr. er síðan tekið á hvaða áhrif breytingarnar hafa á nýtingarstuðla næstu veiðiferðar.

Vinnslusýni eru tekin af handahófi í sömu afurð og nýtingarsýni. Hver afurð miðast við vinnsluaðferðina eingöngu en tekur ekki mið af öðrum þáttum eins og t.d. stærð fisksins, sbr. auglýsingu nr. 766/1998. Í reglugerðinni er kveðið á um að ef ekki sé samræmi milli nýtingarsýna og vinnslusýna þá sé það á valdi Fiskistofu að ákvarða nýja nýtingarstuðla í viðkomandi afurð, þó þannig að þeir lækki aldrei minna en um 3%. Samanburður á nýtingarsýnum og vinnslusýnum verður að fara fram mjög fljótlega eftir löndun og mat Fiskistofu í því efni er endanlegt. Ráðuneytið telur að réttur til andmæla og athugasemda hljóti fyrst og fremst að miðast við framkvæmd samanburðarins en úrskurður Fiskistofu hljóti ávallt að vera endanlegur um það hvort nýtingarsýni voru í samræmi við vinnslusýni. Ráðuneytið telur að ekkert hafi komið fram sem leiði til þess að ákvörðun Fiskistofu verði ógild.“

III.

Hinn 19. júní 2001 ritaði ég sjávarútvegsráðuneytinu bréf í tilefni af kvörtun A þar sem ég rakti efni hennar. Síðan sagði svo í bréfi mínu:

„Í tilefni af framangreindu óska ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið láti mér í té gögn málsins og skýri viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Sérstaklega óska ég eftir því að ráðuneytið skýri hvort og þá með hvaða hætti það telji að ákvæði 9. gr. og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998 eigi sér fullnægjandi stoð í lögum. Beini ég jafnframt þeirri fyrirspurn til ráðuneytisins hvort það álíti að umrædd ákvæði reglugerðarinnar feli að einhverju leyti í sér refsikennd viðurlög gagnvart þeim sem gerist brotlegur við ákvæði reglugerðarinnar.

Í úrskurði ráðuneytisins, dags. 10. maí 2000, kemur fram að „samanburður á nýtingarsýnum og vinnslusýnum [verði] að fara fram fljótlega eftir löndun og mat Fiskistofu í því efni endanlegt.“ Þá segir meðal annars svo í úrskurðinum:

„Ráðuneytið telur að réttur til andmæla og athugasemda hljóti fyrst og fremst að miðast við framkvæmd samanburðarins en úrskurður Fiskistofu hljóti alltaf að vera endanlegur um það hvort nýtingarsýni voru í samræmi við vinnslusýni.“

Af þessu tilefni óska ég sérstaklega eftir því að sjávarútvegsráðuneytið upplýsi nánar af hvaða sökum það telji sig ekki geta endurskoðað mat Fiskistofu um hvort nýtingarsýni séu í samræmi við vinnslusýni. Þá óska ég einnig eftir viðhorfi ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það telji að sú niðurstaða samrýmist lagasjónarmiðum um stöðu æðra stjórnvalds gagnvart lægra settu stjórnvaldi með tilliti til kæruréttar aðila stjórnsýslumáls.

Mér barst svarbréf ráðuneytisins 31. ágúst 2001 ásamt tilgreindum gögnum, m.a. bréfi Fiskistofu til ráðuneytisins, dags. 16. ágúst 2001, sem ritað var í tilefni af bréfi mínu til ráðuneytisins. Í svarbréfi ráðuneytisins til mín sagði m.a. svo:

„[...]

1. Á heimild til lækkunar nýtingarstuðuls í 9. gr. rgl. nr 511/1998 lagastoð?

Í 9. gr. reglugerðarinnar segir að Fiskistofa skuli ákveða að nýtingarstuðlar skuli lækka um a.m.k. 3% frá fyrri nýtingarstuðlum komi í ljós við samanburð á vinnslusýnum og sýnum úr afurðum eða samanburð á nýtingarskýrslum og sýnum úr afurðum að nýtingarsýnin gefi ekki rétta mynd af raunverulegri nýtingu um borð í skipinu. Ákvæði svipaðs efnis hafa verið í gildi frá upphafi þess að komið var á því kerfi að heimila nýtingarmælingar um borð í veiðiskipum, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 481/1990. Tilgangur þess að koma slíku kerfi á var fyrst og fremst sá að stuðla að því að útgerðir vinnsluskipa myndu með því móti reyna að ná sem mestri nýtingu úr veiðiheimildum sínum.

Fyrir tilkomu þessa kerfis höfðu verið fastir nýtingarstuðlar og reynslan hafði sýnt að slíkt gaf slæma raun og hvatti ekki til bættrar nýtingar og umgengni um afla. Hins vegar er ljóst að með því að fela áhöfnum sjálfum að stunda þessar nýtingarmælingar þurfti að setja um þær mjög strangar reglur sem tryggðu að reglurnar væru ekki misnotaðar þannig að skipin fengju í raun auknar veiðiheimildir. Eftirlit með þessum hætti verður aldrei nákvæm vísindi og við þetta samanburðarmat hefur verið greint milli fjögurra flokka: l. Mismunur enginn, 2. Mismunur óverulegur, 3. Mismunur verulegur og 4. Mismunur mjög mikill. Sé það mat Fiskistofu að mismunurinn sé verulegur eða mjög mikill leiðir það til lækkunar nýtingarstuðuls eins og kveðið er á um í 9. gr. reglugerðarinnar.

Við umfjöllun á sínum tíma var það niðurstaðan að þetta væri eðlilegasta og heppilegasta leiðin. Eina önnur leiðin sem kom til greina í slíkum tilvikum var sú að láta skipið fá þá nýtingu sem tilgreind reglugerð nr. 481/1990 og síðar í auglýsingu um upphafsstuðla nr. 766/1998. Slíkt hefði aftur á móti verið skipum miklu óhagkvæmara og má geta þess hér að 31 mæling á nýtingarstuðlum sem fram fór á árinu 2000 leiddi til lækkunar nýtingarstuðla í 9 tilvikum, en þó fóru skipin aldrei niður í upphafsstuðla. Hér má skjóta því inn að upphafsstuðlarnir eru þeir sömu og voru notaðir sem fastir nýtingarstuðlar fyrir tilkomu núverandi kerfis.

Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu sem sérstaka þjálfun hafa á þessu sviði framkvæma matið og mat þeirra leiðir eingöngu til lækkunar þegar mismunurinn er orðinn verulegur. Ráðuneytið fullyrðir að þegar munurinn á sýnunum er orðinn verulegur þá eru yfirgnæfandi líkur fyrir því að hann sé í raun meiri en 3%. Ráðuneytið telur því að lækkun nýtingarstuðla með þeim hætti sem gert var í þessu tilviki geti ekki talist refsikennd viðurlög heldur sé hér um að ræða leiðréttingu á mælingum sem að öðrum kosti sýni mun meiri nýtingu en raunverulega sé um borð í viðkomandi skip. Rangar mælingar, þ.e.a.s. of há nýtingartala, leiðir til þess að skipið veiðir meira magn en aflamark þess leyfir. Þess skal getið hér að aldrei hefur athugun eftirlitsmanna leitt til hækkunar á nýtingu skips.

2. Aðferðin við samanburð hafi ekki verið tæk.

Ráðuneytinu er ekki ljóst hvað lögmaðurinn á hér við. Aðferðin sem beitt var í fullu samræmi við framkvæmdina eins og hún hefur ávallt verið og í samræmi við þær reglur sem um framkvæmdina gilda. Einhver misskilningur virðist vera á ferðinni varðandi það, að eftirlitsmenn Fiskistofu hafi ekki borið saman fisk, sem hvað stærð snerti var sambærilegur. Það skiptir ekki máli því eftirlitsmenn Fiskistofu bera saman nýtingarsýni sem eru eins merkt og vinnslusýnin þ.m.t. með tilliti til stærðar fisks í pakkningum (seld sem sama framleiðsla). Ef veiðieftirlitsmenn ættu að finna vinnslusýni þar sem fiskur væri allur jafnstór og í nýtingarsýni gætu þeir vafalaust rifið upp alla framleiðslu skipsins án árangurs. Vísar ráðuneytið í þessu efni til skýrslu Fiskistofu dags. 16. ágúst 2001.

3. Aðila ekki kynnt öll gögn málsins.

Gögn máls eru eingöngu niðurstaða veiðieftirlitsmannanna dags. 22. desember 1999. Sú niðurstaða var undirrituð af vinnslustjóra skipins, sbr. meðfylgjandi. Jafnframt voru fleiri fulltrúar útgerðar viðstaddir og sáu niðurstöðuna. Athugasemdir þeirra á staðnum beindust að því að fiskur í nýtingarsýni og vinnslusýni væri ekki jafnstór, sbr. það sem segir í lið 3. Ekkert var því til fyrirstöðu að þeir fengju afrit af skýrslunni.

4. Mat eftirlitsmanna verði ekki endurskoðað.

Frá upphafi hefur sú framkvæmd viðgengist að mat eftirlitsmanna Fiskistofu hefur verið endanlegt í þessu efni. Raunar hefur aldrei fyrr komið fram krafa um endurmat frá útgerðum vegna starfa veiðieftirlitsmanna Fiskistofu svo vitað sé. Eins og áður er rakið er hér ekki um nákvæm vísindi að ræða. Við framkvæmd matsins er fiskur þíddur upp og verður matið að fara fram strax að því loknu. Ráðuneytið telur að slíku endurmati verði ekki við komið á sömu sýnum. Kemur það til af því að skoðun sýna fer fram í flestum höfnum landsins á öllum tímum árs og sólarhrings. Sýni sem hafa verið þídd upp og meðhöndluð til mats falla verulega í verði því þau verða ekki endurfryst til sölu sem sama vara. Vandséð er hvernig endurmat ætti að fara fram á sömu sýnum og gildir einu í því efni, hvort sýnin yrðu geymd þídd eða endurfryst til endurmats því slíkt endurmat yrði vísast til marklaust. Ef endurmat ætti að fara fram á vinnslunýtingu skips þá yrði það í flestum tilvikum að byggjast á samanburði á öðrum sýnum. Slíkt myndi leiða til mjög aukins kostnaðar fyrir útgerðina vegna skemmda á sýnum auk þess sem sömu spurningar vöknuðu upp um endurmatið.

Ráðuneytið getur fallist á að kæruréttur til æðra stjórnvalds sé rýrður með núgildandi framkvæmd en bendir hins vegar á að ekki verður séð með hvað úr verði bætt. Ráðuneytið áréttar að við samningu reglnanna á sínum tíma var þetta tekið til sérstakrar athugunar og var það niðurstaðan að skipa málinu með þeim hætti sem gert er í dag. Að því starfi komu fulltrúar útgerðarinnar ásamt sérfræðingum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Að lokum áréttar ráðuneytið að þessi skipan hefur reynst vel og á þeim árum sem hún hefur gilt er alger undantekning að komið hafi til ágreinings vegna hennar.“

Með bréfi, dags. 5. september 2001, til lögmanns A gaf ég honum kost á því að gera þær athugasemdir við svarbréf ráðuneytisins sem hann teldi ástæðu til að gera. Ítrekaði ég beiðni mína þess efnis við lögmanninn með bréfi, dags. 15. nóvember 2001. Hinn 30. nóvember 2001 bárust mér athugasemdir lögmannsins fyrir hönd A.

IV.

1.

Með úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 10. maí 2000, var staðfest ákvörðun Fiskistofu, dags. 29. febrúar s.á., „um breytingu á nýtingarstuðlum m/s [X]“. Af gögnum málsins verður ráðið að aðdragandinn að ofangreindri ákvörðun Fiskistofu, dags. 29. febrúar 2000, var sá að 22. desember 1999 framkvæmdu veiðieftirlitsmenn úttekt á nýtingarsýnum úr afla m/s X sem fengist hafði í veiðiferð skipsins á tímabilinu 10. nóvember 1999 – 20. desember 1999. Í úttekt eftirlitsmannana voru borin saman vinnslusýni og hins vegar nýtingarsýni og skýrslur skipstjóra um vinnslunýtingu skipsins á umræddu tímabili. Af skýrslu þeirra, dags. 22. desember 1999, sem einnig var undirrituð af fulltrúa útgerðar skipsins, A, kemur fram að til skoðunar hafi verið „prufa-75“, fisktegund gullkarfi með kassanúmeri T-362. Niðurstaða samanburðarins hafi verið sú að nýtingarsýnið hafi haft að geyma 20 fiska og vegið samtals 9.44 kg. Vinnslusýni hafi haft að geyma 21 fiska en hafi hins vegar vigtað 7.66 kg. Í þeim dálk skýrslunnar, sem nefndur er „samanburðarmat“, er m.a. merkt X við reit 3 þar sem fram kemur að mismunur sýnanna hafi verið „verulegur“.

Í bréfi Fiskistofu til A, dags. 29. febrúar 2000, er rakin sú niðurstaða stofnunarinnar að „samanburður [hafi leitt] í ljós að verulegur mismunur [hafi verið] milli nýtingarsýnis nr. 75, sem var gullkarfi, hausskorinn og vinnslusýnis úr sömu afurð“. Í bréfi stofnunarinnar er síðan vísað til ákvæða 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998, um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð, og komist að eftirgreindri niðurstöðu:

„Í ljósi þess sem að framan er rakið og með vísan til 9. gr. reglugerðar nr. 511/1998, hefur Fiskistofa ákveðið að lækka nýtingarstuðul m/s [X] í gullkarfa, hausskornum um 3% í veiðiferð skipsins dagana 10.11.1999-20.12.1999. Samkvæmt framangreindu verður nýtingarstuðull skipsins í gullkarfa, hausskornum 56.7% í umræddri veiðiferð skipsins. Næst þegar nýtingarstuðull í viðkomandi afurð er ákvarðaður, sbr. 5. gr. skal lækka þann stuðul um 1,5%, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998.“

Af hálfu A var ofangreind ákvörðun Fiskistofu kærð til sjávarútvegsráðuneytisins sem staðfesti umrædda ákvörðun með úrskurði, dags. 10. maí 2000, eins og fyrr greinir.

2.

Af hálfu A er því haldið fram að umrædd ákvörðun Fiskistofu hafi verið ólögmæt. Í því sambandi er vísað til þess að ákvörðunin um lækkun nýtingarstuðla m/s X í hausskornum gullkarfa í veiðiferð skipsins dagana 10. nóvember 1999 til og með 20. desember 1999 hafi í eðli sínu falið í sér refsikennd viðurlög, sbr. 9. og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998, um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð. Þessi ákvæði reglugerðarinnar eigi sér hins vegar ekki viðhlítandi stoð í lögum.

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 511/1998 skulu mælingar á vinnslunýtingu framkvæmdar um borð í öllum fiskiskipum, stærri en 20 brúttótonn, er vinna eigin fiskafla um borð. Taka þessar mælingar til allra fisktegunda sem heildarafli er takmarkaður á, sbr. lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og lög nr. 151/1996, um fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nema kveðið sé á um annað í reglugerð um viðkomandi veiðar. Í 4. gr. kemur fram að við útreikning á afla veiðiskipa skal byggja á nýtingarstuðlum sem reiknaðir eru á grundvelli mælinga. Hafi skip ekki áunnið sér ákveðna nýtingarstuðla skuli leggja til grundvallar upphafsstuðla ákveðna af sjávarútvegsráðuneytinu, sbr. nú auglýsing nr. 766/1998, um upphafsstuðla við mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð.

Ákvæði 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998 eru orðuð með eftirfarandi hætti:

9. gr.

„Komi í ljós, svo sem við samanburð eftirlitsmanna á nýtingarsýnum og vinnslusýnum eða við samanburð á nýtingarskýrslum og sýnum úr afla að mælingar á nýtingu við vinnslu einhverrar afurðar hafi verið framkvæmdar þannig að þær gefi ekki rétta mynd af raunverulegri nýtingu um borð í veiðiskipi skal Fiskistofa ákvarða nýtingarstuðla hlutaðeigandi skips í viðkomandi afurð með hliðsjón af niðurstöðu samanburðarins, þannig að þeir verði a.m.k. 3 prósentustigum lægri en meðaltal nýtingarstuðla síðustu þriggja veiðiferða í viðkomandi afurðum.

10. gr.

„Fiskistofa skal tilkynna hlutaðeigandi útgerð um ákvörðun sína og gildir sá nýtingarstuðull fyrir þá afurð sem athugun beindist að.

Næst þegar nýtingarstuðull í viðkomandi afurð er ákvarðaður, sbr. 5. gr. skal sá stuðull lækkaður sem nemur helmingi þeirrar lækkunar, sem síðast var beitt í viðkomandi afurð sbr. 7.-9. gr.“

Samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 511/1998 er hún sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, laga nr. 54/1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, með síðari breytingum, og ákvæðum laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1992, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1996, segir að um útreikning á nýtingu aflaheimilda skuli farið að reglugerð um nýtingarstuðla fyrir fullvinnsluskip sem ráðherra setur. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 58/1996, sem færði ofangreinda 2. mgr. 2. gr. inn í lög nr. 54/1992, kemur fram að þar sé kveðið á um að ráðherra skuli gefa út reglugerð um nýtingarstuðla um borð í fullvinnsluskipum. Þá kemur fram að ráðherra hafi gefið út slíka reglugerð með stoð í lögum nr. 38/1990 en rétt þyki að heimildin sé hér. (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3897.)

Af þessu má ráða að með 1. gr. laga nr. 58/1996, sem lögfesti núverandi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1992, var af hálfu löggjafans ákveðið að færa lagaheimild fyrir setningu reglugerðar um nýtingarstuðla um borð í fullvinnsluskipum, þ.e. vegna útreiknings á nýtingu aflaheimilda, í lög nr. 54/1992 og er í framangreindum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 58/1996 rakið að ráðherra hafi áður sett reglugerð þessa efnis með stoð í lögum nr. 38/1990, sjá hér reglugerð nr. 481/1990, um mælingar á vinnslunýtingu um borð í vinnsluskipum. Ég tel rétt að taka fram að ekki verður séð að reglugerð nr. 481/1990 hafi verið formlega afnumin þrátt fyrir setningu reglugerðar nr. 511/1998, sem fjallar um sama efni, eða auglýsingar nr. 766/1998, um upphafsstuðla við mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð.

Í 13. gr. reglugerðar nr. 481/1990 segir að komi í ljós við samanburð á skýrslum um nýtingu og sýnum teknum úr afla veiðiskips að nýtingarstuðlar séu ekki í samræmi við framleiðslu skuli sjávarútvegsráðuneytið ákveða veiðiskipinu nýtingarstuðla með hliðsjón af niðurstöðu samanburðarins. Ég bendi hins vegar á að í 12. gr. sömu reglugerðar segir að séu nýtingarmælingar vísvitandi framkvæmdar með þeim hætti að þær gefi ranga mynd af raunverulegri nýtingu um borð í veiðiskipi skuli allir nýtingarstuðlar hlutaðeigandi skips lækka um 3% miðað við fyrri nýtingarstuðla skipsins, eða stuðla samkvæmt 3. gr., sbr. nú auglýsingu nr. 766/1998, enda verði raunverulegir nýtingarstuðlar ekki sannreyndir samkvæmt 13. gr.

Ég minni á að í bréfi til sjávarútvegsráðherra, dags. 19. júní 2001, óskaði ég þess, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans skýrði sérstaklega hvort og þá með hvaða hætti það teldi að ákvæði 9. gr. og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998 ættu sér fullnægjandi stoð í lögum. Beindi ég jafnframt þeirri fyrirspurn til ráðuneytisins hvort það áliti að þessi reglugerðarákvæði fælu að einhverju leyti í sér refsikennd viðurlög gagnvart þeim sem gerist brotlegur við ákvæði reglugerðarinnar. Ég minni hér á svör ráðuneytisins, dags. 30. ágúst 2001, um þetta atriði sem tekin eru orðrétt upp í kafla III hér að framan.

Með ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 511/1998, sem úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins 10. maí 2000 um staðfestingu á ákvörðun Fiskistofu byggði á, voru tekin saman í eina grein framangreind ákvæði 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 481/1990 með þeim hætti sem fram kemur í tilvitnuðu ákvæði fyrrnefndu reglugerðarinnar. Af orðalagi 9. gr. reglugerðar nr. 511/1998 verður ekki annað ráðið en að meginreglan sé sú að Fiskistofa skuli ákvarða nýtingarstuðla hlutaðeigandi skips í viðkomandi afurð með „hliðsjón af niðurstöðu samanburðarins“. Virðist þá átt við að þegar samanburður eftirlitsmanna á nýtingarsýnum og vinnslusýnum, eða samanburður á nýtingarskýrslum og sýnum úr afla, leiðir til þess að mælingar á nýtingu við vinnslu einhverrar afurðar hafi verið framkvæmdar þannig að þær gefi ekki rétta mynd af raunverulegri nýtingu um borð í veiðiskipi skuli Fiskistofa ákvarða nýtingarstuðla hlutaðeigandi skips á ný í viðkomandi afurð með hliðsjón af niðurstöðu slíks samanburðar. Ég tel ekki fært að fullyrða annað en að í ljósi heimildar 2. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1992, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1996, eigi slíkt fyrirkomulag sér fullnægjandi stoð í lögum, enda verður vart séð hvernig umrætt fyrirkomulag um nýtingu fullvinnsluskipa á aflaheimildum sínum og tenging þess við ákveðna nýtingarstuðla myndi ná tilgangi sínum ef stjórnvöldum væri ekki játuð heimild til að gera eðlilegar og málefnalegar ráðstafanir til að ákvarða nýtingarstuðla í sem bestu samræmi við raunverulega nýtingu viðkomandi veiðiskips.

Í ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 511/1998 er farin sú leið að setja ákveðið lágmark. Komi til þess að nýtingarstuðlar séu ákvarðaðir að nýju með tilliti til niðurstöðu úr samanburði milli sýna skulu þeir vera a.m.k. 3 prósentustigum lægri en meðaltal nýtingarstuðla síðustu þriggja veiðiferða í viðkomandi afurðum. Ég skil skýringar ráðuneytisins svo að með tilliti til þess að breyting á nýtingarstuðlum komi ekki til nema munurinn á sýnum sé orðinn verulegur sé þá þegar um það mikinn mun að ræða að yfirgnæfandi líkur séu á því að hann sé í raun meiri en 3%. Samkvæmt þessu feli lækkun nýtingarstuðuls í viðkomandi afurð um lágmarkið, þ.e. 3%, ekki í sér meiri skerðingu á hagsmunum þess skips sem í hlut á en leiðir beinlínis af raunverulegri nýtingu aflaheimilda. Ég tel ekki hægt að útiloka að af þeirri aðferðafræði sem ákveðið er að beita á grundvelli lagaheimildar eins og er í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1992, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1996, leiði að það teljist málefnalegt og eðlilegt að kveða á um slíkt lágmark. Hef ég þá í huga að með því kann að vera ætlunin að mæta einhverri almennt þekktri óvissu sem leiðir af því mati sem notast er við. Í þessu máli verður einnig að hafa í huga þá erfiðleika sem almennt fylgja því að staðreyna raunverulega nýtingu fiskiskips sem stundar veiðar og vinnslu með þeim hætti sem hér um ræðir.

Eins og áður sagði er meginreglan sú að ákveða skuli breytingu á nýtingarstuðlum þannig að þeir séu leiðréttir í samræmi við það frávik sem stjórnvöld telja sig geta sýnt fram á að raunverulega hafi verið á milli afla og nýtingu við vinnslu. Þegar þessa er gætt tel ég að með hliðsjón af þeim skýringum sem sjávarútvegsráðuneytið hefur látið mér í té, og því sem lýst var hér að framan, séu ekki forsendur til að leggja til grundvallar að umrætt ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 511/1998 um 3% lágmark feli í sér refsikennd viðurlög og eigi sér því ekki stoð í lögum. Í samræmi við þetta tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemd við lagastoð 9. gr. reglugerðar nr. 511/1998 og beitingu þess af hálfu stjórnvalda í þessu máli.

3.

Áður er rakið að í ákvörðun Fiskistofu, sem staðfest var af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins í úrskurði 10. maí 2000, var einnig lagt til grundvallar að næst þegar nýtingarstuðull m/s X í hausskornum gullkarfa yrði ákvarðaður, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 511/1998, skyldi lækka þann stuðul um 1,5%, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. Í bréfi mínu, dags. 19. júní 2001, til sjávarútvegsráðuneytisins óskaði ég þess einnig að ráðuneytið útskýrði hvort og þá hvernig það teldi að 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998, sem ofangreind ákvörðun Fiskistofu var byggð á, ætti sér fullnægjandi stoð í lögum. Í skýringum sjávarútvegsráðuneytisins til mín, dags. 30. ágúst 2001, er hins vegar ekkert vikið að lagastoð þessa ákvæðis.

Ég hef hér að framan rakið niðurstöðu mína um að mér sé ekki fært að fullyrða að á skorti að 9. gr. reglugerðar nr. 511/1998 eigi sér stoð í lögum. Ég legg á það áherslu að þau sjónarmið sem liggja til grundvallar þeirri niðurstöðu verða ekki talin styðja sömu ályktun að því er varðar 2. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt fyrri málsgrein ákvæðisins skal Fiskistofa tilkynna hlutaðeigandi útgerð um ákvörðun um lækkun nýtingarstuðuls og gildir sá stuðull fyrir þá afurð sem athugun beindist að. Í 2. mgr. 10. gr. segir hins vegar að næst þegar nýtingarstuðull í viðkomandi afurð er ákvarðaður, sbr. 5. gr., skuli sá stuðull lækkaður sem nemur helmingi þeirrar lækkunar sem síðast var beitt í viðkomandi afurð, sbr. 7.-9. gr.

Ekki hefur verið sýnt fram á það af hálfu ráðuneytisins að sú ákvörðun Fiskistofu frá 29. febrúar 2000 að beita þessu ákvæði í máli A hafi byggt á sjónarmiðum um að nauðsynlegt hafi verið í samræmi við raunverulega nýtingu skipsins að leiðrétta nýtingarstuðla m/s X í hausskornum gullkarfa um 1,5% umfram þá 3% lækkun sem leiddi af beitingu 9. gr. reglugerðar nr. 511/1998 eða að slíkt ákvæði sé eðlileg afleiðing af því fyrirkomulagi um ákvörðun nýtingarstuðla sem reglugerðin mælir fyrir um. Ég bendi auk þess á að í bréfum Fiskistofu til A, dags. 28. janúar 2000 og 8. febrúar 2000, í tilefni af úttekt veiðieftirlitsmanna á afla skipsins var fyrirtækinu veittur kostur á því að tjá sig um málið áður en boðuðum „viðurlögum“ yrði hrundið í framkvæmd. Í ljósi þessa og þegar litið er til orðalags og efnis ákvæðis 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998, að teknu tilliti til þess hvernig því var beitt í þessu máli, tel ég að leggja verði til grundvallar að með ákvæðinu sé mælt fyrir um skyldu Fiskistofu til að lækka nýtingarstuðla hlutaðeigandi skips í refsiskyni, þ.e. án þess að sú lækkun sé í málefnalegum og eðlilegum tengslum við sjónarmið um nauðsynlega leiðréttingu á nýtingarstuðlum skips í viðkomandi afurð þannig að uppfyllt sé markmið laga nr. 54/1992 og laga nr. 57/1996 um hagkvæma nýtingu aflaheimilda, sbr. einkum 1. gr. síðarnefndu laganna.

Í ljósi þessa tek ég fram að það er meginregla í íslenskum rétti að stjórnsýslan sé lögbundin. Ákvarðanir stjórnvalda verða að eiga sér stoð í lögum auk þess sem þær mega ekki ganga lengra en heimilt er samkvæmt lögum. Almennt hefur verið gengið út frá því að stjórnvaldi sé óheimilt að taka íþyngjandi ákvörðun um réttindi og skyldur einstaklings eða lögaðila, s.s. ákvörðun þar sem beitt er refsikenndum viðurlögum, án þess að slík ákvörðun eigi sér stoð í skýrri lagaheimild, sjá hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 15. janúar 1998 í máli nr. 286/1997 (H 1998:137). Hér má hafa til hliðsjónar þau sjónarmið sem leidd verða af meginreglunni um lögbundnar refsiheimildir, sbr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvörðun nýtingarstuðla er mikilvægur þáttur við útreikning á afla veiðiskipa, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 511/1998. Hafa slíkar ákvarðanir því að jafnaði verulega fjárhagslega þýðingu fyrir þá útgerð sem að baki skipi stendur. Að framan er rakið að reglugerð nr. 511/1998 á sér fyrst og fremst stoð í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1992. Enda þótt einnig sé í 13. gr. reglugerðarinnar vísað um lagastoð til laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, er ekki í þessum lögum að finna sérstakar heimildir stjórnvalda til lækkunar nýtingarstuðla fullvinnsluskipa í refsiskyni. Ég minni á að með 2. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1992 er aðeins mælt fyrir um það að um útreikning á nýtingu aflaheimilda skuli farið að reglugerð um nýtingarstuðla fyrir fullvinnsluskip sem ráðherra setji. Af þessu ákvæði eða lögskýringargögnum verður ekki sú ályktun dregin að með því sé stjórnvöldum fengin heimild til þess að taka ákvarðanir sem í eðli sínu fela í sér refsikennd viðurlög ef ósamræmi reynist til staðar við samanburð á nýtingarsýni og vinnslusýni af hálfu eftirlitsmanna Fiskistofu og þá þannig að slík lækkun nýtingarstuðuls sé ekki beinlínis þáttur í þeirri viðleitni stjórnvalda að leiðrétta þær forsendur sem mælingar á nýtingu skips eru bundnar við.

Ég tek í þessu sambandi fram að enda þótt lög nr. 54/1992 og lög nr. 57/1996, og raunar einnig reglugerð nr. 511/1998, sbr. 12. gr., hafi að geyma refsiákvæði sem mæli fyrir um að brot gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim varði sektum eða að ráðherra sé heimilt að svipta skip leyfi af þeim sökum til fullvinnslu botnfiskafla eða veiðileyfi fela slík ákvæði ekki í sér heimildir fyrir stjórnvöld til þess að taka ákvarðanir um önnur viðurlagaform en þar koma fram eða útfæra slíkar heimildir í almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Auk þess bendi ég á að í slíkum tilvikum verður að fara með slík mál að hætti opinberra mála en það var ekki gert í þessu máli.

Samkvæmt framangreindu tel ég að ekki verði hjá því komist að leggja til grundvallar að sú ákvörðun Fiskistofu, dags. 29. febrúar 2000, sem sjávarútvegsráðuneytið staðfesti í úrskurði sínum, dags. 10. maí 2000, að beita ákvæði 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998 í máli A hafi ekki átt sér stoð í lögum. Ég minni á að ákvörðun nýtingarstuðla er mikilvægur þáttur við útreikning á afla veiðiskipa, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 511/1998. Hafa slíkar ákvarðanir því mikla þýðingu fyrir fjárhagslega hagsmuni þeirrar útgerðar sem að baki skipi stendur. Sú ákvörðun Fiskistofu að beita ákvæði 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998 við næstu ákvörðun um nýtingarstuðul m/s X í hausskornum gullkarfa fól það í sér að sá stuðull var með sjálfvirkum hætti lækkaður um 1,5%. Með vísan til niðurstöðu minnar um að þessi ákvörðun hafi ekki verið í samræmi við lög hef ég ákveðið að beina þeim tilmælum til sjávarútvegsráðuneytisins að það taki mál A til endurskoðunar, komi fram beiðni þess efni frá félaginu, og taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið hér að framan.

4.

Í kvörtun málsins eru gerðar tilteknar athugasemdir við þær forsendur í úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 10. maí 2000, að ráðuneytið geti ekki tekið til endurskoðunar mat eftirlitsmanna Fiskistofu um hvort nýtingarsýni hafi verið í samræmi við vinnslusýni að öðru leyti en því sem lýtur að „framkvæmd samanburðarins“. Með tilliti til framangreindrar niðurstöðu minnar í þessu máli tel ég ekki tilefni til þess að taka hér sérstaka afstöðu til þessa atriðis. Á hinn bóginn tel ég rétt að leggja á það áherslu að réttur aðila máls til að óska eftir endurskoðun æðra stjórnvalds í tilefni af ákvörðun lægra setts stjórnvalds er mikilvægur og ein af meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna.

Ljóst er að eðli þess málefnis sem stjórnsýslumál varðar kann að vera með þeim hætti að erfitt sé fyrir æðra stjórnvald að taka með raunhæfum hætti ákvörðun lægra setts stjórnvalds til heildarendurskoðunar, þ.e. bæði að því er varðar form og efni, og þá einkum tiltekið mat sem fram hefur farið á lægra stjórnsýslustigi. Í slíkum tilvikum tel ég á hinn bóginn að gera verði ríkar kröfur til þess að vel sé gætt að formi slíkrar ákvörðunar á lægra stjórnsýslustigi, m.a. að því er varðar rannsókn atvika og aðkomu aðila máls að slíkri upplýsingaöflun, m.a. með andmælum. Þá tel ég að gera verði þá kröfu undir kringumstæðum sem þessum að lægra sett stjórnvald vandi vel til skráningar á atvikum og aðstæðum í máli og þá einkum á aðferðafræði og niðurstöðum þess mats sem það hefur framkvæmt og óskað er endurskoðunar á.

Að virtri þeirri afstöðu sjávarútvegsráðuneytisins í þessu máli að það geti ekki endurmetið niðurstöður eftirlitsmanna Fiskistofu við mælingar á vinnslunýtingu að öðru leyti en lýtur að „framkvæmd samanburðarins“ tel ég að ráðuneytið verði samkvæmt framangreindu a.m.k. að gæta þess að nákvæm skráning eftirlitsmanna á því hvernig umrædd mæling var framkvæmd og á niðurstöðum hennar liggi fyrir. Það er vandséð að slíku hafi verið til að dreifa í þessu máli.

V.

Niðurstaða.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 10. maí 2000, að því er varðar beitingu 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998, um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð, hafi ekki verið í samræmi við lög. Í ljósi þessa beini ég þeim tilmælum til ráðuneytisins að það taki mál A til endurskoðunar, komi fram ósk þess efnis frá félaginu, og taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í þessu áliti og leiti eftir atvikum leiða til að rétta hlut A.

Þá beini ég þeim tilmælum til sjávarútvegsráðuneytisins, sbr. ákvæði 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að það endurskoði 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 511/1998 í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í þessu áliti. Ákveði ráðuneytið að láta slíka endurskoðun fara fram vek ég athygli á því að það kann að vera rétt að gera henni samfara reka að því að meta hvort og þá með hvaða hætti huga þurfi að athugun á öðrum ákvæðum reglugerðar nr. 511/1998, s.s. lokamálsl. 2. mgr. 7. gr. og 8. gr., með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Loks tek ég fram að með tilliti til þeirrar meginreglu að breyting á nýtingarhlutfalli skuli ákveðin í samræmi við mat á raunverulegu fráviki milli afla og nýtingu við vinnslu kann einnig að vera tilefni til þess við slíka endurskoðun reglugerðar nr. 511/1998 að ráðuneytið taki afstöðu til þess hvort og þá hvaða nauðsyn er á því að mæla fyrir um umrætt 3% lágmark, sbr. 9. gr. reglugerðarinnar.

VI.

Með bréfi til sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 11. febrúar 2003, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort af hálfu A hefði verið leitað til sjávarútvegsráðuneytisins á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða hvort málið væri enn til meðferðar. Í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins til mín, dags. 13. febrúar 2003, kemur fram að A hafi ekki óskað eftir endurskoðun á nýtingarstuðlum fiskiskips síns í tilefni af áliti mínu. Þá segir í bréfinu m.a.:

„Þá vill ráðuneytið láta fram koma, að í gildi er nú reglugerð nr. 55, 23. janúar 2003, um leyfi til vinnslu afla um borð í skipum. [Hér mun væntanlega átt við reglugerð nr. 54, 23. janúar 2003, um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð.] Í þeirri reglugerð eru breytt ákvæði, sbr. 8.-9. gr., um viðbrögð við því, ef framkvæmd nýtingarmælinga er ekki í samræmi við reglur eða nýtingarmælingasýni eru ekki talin gefa rétta mynd af nýtingu um borð í skipinu.

Loks vill ráðuneytið í þessu sambandi nefna, að með lögum 154, 19. desember 2002, voru nokkrar breytingar gerðar á lögum nr. 54, 16. maí 1992, um fullvinnslu um borð í veiðiskipum, með síðari breytingum.“