Almannavarnir. Ferðafrelsi. Stjórnarskrá. Lagaheimild. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. F117/2022)

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun viðvíkjandi banni lögreglustjórans á Suðurnesjum við för barna yngri en 12 ára að gosstöðvunum í Meradölum í ágúst 2022. Tildrög athugunarinnar voru fréttaflutningur í ágúst 2022 um bannið og viðtal við lögreglustjórann sem birtist í fjölmiðlum. Í viðtalinu kom m.a. fram að ákvörðuninni yrði framfylgt af lögreglu með beitingu sekta á grundvelli lögreglulaga. Í svörum lögreglustjórans í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns kom jafnframt fram að fyrirmælum hans hefði ekki verið markaður sérstakur gildistími. Málið varð umboðsmanni tilefni til að fjalla um þau sjónarmið sem hann taldi að líta yrði til við beitingu þeirra valdheimilda sem fælust í viðkomandi ákvæði laga um almannavarnir við þær aðstæður sem uppi voru.

Umboðsmaður gerði grein fyrir almennum reglum um ferðafrelsi og heimild laga um almannavarnir til takmörkunar á því. Hann lagði til grundvallar að með ákvæðum þeirra væru lögreglustjóra fengnar víðtækar heimildir til að takmarka ferðafrelsi borgaranna frá því að hættustigi eða neyðarstigi almannavarna væri lýst yfir þar til því hefði verið aflýst. Þeim yrði þó að beita af varfærni og ekki ganga lengra en þörf væri hverju sinni til að afstýra hættu. Ekki væri hægt að útiloka að brot gegn fyrirmælum lögreglustjóra samkvæmt lögunum eða nánari fyrirmælum lögreglumanna á þeim grunni gæti varðað refsingu sem mælt væri fyrir um í lögreglulögum.

Umboðsmaður taldi að því ákvæði laga um almannavarnir, sem fjallar um heimildir lögreglustjóra til að gefa almenn fyrirmæli á hættustundu, væri ætlað að vera heimild til að bregðast fumlaust við hættuástandi sem samkvæmt lögunum og eðli málsins væri tímabundið. Hann tók einnig fram að ráðstafanir stjórnvalda, sem ætlað væri að bregðast við yfirvofandi hættu, gætu að jafnaði ekki verið til ótiltekins tíma. Það varð því niðurstaða hans að ótímabundin fyrirmæli lögreglustjóra á þá leið að banna för barna undir 12 ára aldri að gosstöðvunum í Meradölum hefðu, í ljósi þess tíma sem leið frá því að tilkynnt var um þau opinberlega þar til þau voru látin niður falla, ekki samrýmst þeim sjónarmiðum sem ættu við um heimild hans á grundvelli laga um almannavarnir. Í því sambandi benti hann á að ekki varð séð að tekið hefði verið til skoðunar hvort aðrar lagaheimildir gætu helgað slíkt bann til lengri tíma.

Að endingu tók umboðsmaður fram að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að leitast við að kynna umrædd fyrirmæli opinberlega með fréttatilkynningum og birtingu upplýsinga á rafrænum miðlum. Hins vegar benti hann á að það myndi einnig teljast til vandaðra stjórnsýsluhátta að leitast við að kynna fyrir almenningi lok banns með jafn ítarlegum hætti og gert hefði verið við upphaflega ákvörðun, svo sem með sambærilegum tilkynningum til fjölmiðla, en ekki lá fyrir hvort það hefði verið gert. Umboðsmaður mæltist til þess að þau sjónarmið sem fram hefðu komið í álitinu yrðu framvegis höfð í huga.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 23. maí 2023.

  

   

I Tildrög og afmörkun athugunar

Í tilefni af fréttaflutningi í ágúst 2022 þar sem greint var frá því að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefði ákveðið að takmarka aðgengi barna yngri en 12 ára að gosstöðvum í Meradölum þegar gossvæðið yrði opnað almenningi að nýju hóf umboðsmaður Alþingis athugun á ákvörðun lögreglustjórans 9. sama mánaðar þar að lútandi.

Í viðtali við lögreglustjórann sem birtist í Morgunblaðinu 10. þess mánaðar kom m.a. fram að ákvörðuninni yrði framfylgt af lögreglu og vísað til ákvæða lögreglulaga, nr. 90/1996, um heimildir lögreglu til að beita sektum færi fólk ekki að fyrirmælum hennar. Í svörum lögreglustjórans við fyrirspurn umboðsmanns, sem síðar er gerð nánari grein fyrir, var ákvörðunin hins vegar sögð styðjast við 1. mgr. 23. gr. laga nr. 82/2008, um almannavarnir. Þá kom þar einnig fram að fyrirmælum lögreglustjórans hefði ekki verið markaður sérstakur gildistími.

Samkvæmt tilkynningu á vef ríkislögreglustjóra 8. september 2022 var hættustigi vegna eldgossins aflýst frá og með þeim degi. Það ástand sem varð tilefni téðrar ákvörðunar lögreglustjórans leið þar með undir lok. Málið hefur þó orðið mér tilefni til að fjalla um þau sjónarmið sem ég tel að líta verði til við beitingu þeirra valdheimilda sem felast í fyrrgreindu ákvæði laga um almannavarnir við aðstæður líkt og þær sem hér voru uppi.

  

II Samskipti umboðsmanns og lögreglustjórans á Suðurnesjum

Í tilefni af umræddri ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum var honum ritað bréf 10. ágúst 2022 þar sem þess var óskað að embættið veitti umboðsmanni upplýsingar um hvort og þá hvenær téð ákvörðun lögreglustjórans hefði tekið gildi og hvort henni hefði verið markaður sérstakur gildistími. Þá var þess óskað að lögreglustjórinn skýrði nánar á hvaða lagagrundvelli umrædd ákvörðun væri reist og veitti jafnframt upplýsingar um hvaða gögn, upplýsingar eða röksemdir hefðu legið til grundvallar því mati að takmarka aðgengi barna yngri en 12 ára að svæðinu. Að endingu var óskað upplýsinga um hvort og þá með hvaða hætti hann hefði kynnt almenningi ákvörðun sína eða hygðist gera slíkt.

Í svarbréfi lögreglustjórans 16. sama mánaðar kom fram að ákvörðunin hefði tekið gildi 10. ágúst 2022 kl. 10 þegar eldgosasvæðið í Meradölum var opnað að nýju eftir lokun dagana þar á undan. Ákvörðuninni hefði ekki verið markaður sérstakur tími. Um lagagrundvöll ákvörðunarinnar sagði að hún væri reist á 23. gr. laga nr. 82/2008, um almannavarnir. Tillaga um takmörkun aðgengis barna yngri en 12 ára að svæðinu hefði verið kynnt á fundi viðbragðsaðila 9. ágúst 2022. Á fundinum hefðu setið fulltrúar aðgerðastjórnar, vettvangsstjórnar og samhæfingar- og stjórnstöðvar og tillagan hlotið fullan stuðning allra fundarmanna. Ákvörðunin hefði verið tekin eftir fundinn og send helstu fréttamiðlum landsins samdægurs. Í bréfi lögreglustjórans sagði því næst eftirfarandi: 

Frá upphafi gossins hafa viðbragðsaðilar haft uppi efasemdir um að rétt væri að hleypa foreldrum með ung börn sín inn að gosstöðvunum þar sem um langa og torsótta leið væri að fara og engan veginn hægt að tryggja loftgæði nær eldstöðvunum og þar með öryggi barna. Gangan upp gönguleið A að gossprungunni er um það bil 7 km löng og 300 metra hækkun er á leiðinni. Gönguleiðin er víða erfið yfirferðar enda mjög grýtt á köflum og þá eru brattar brekkur nálægt eldstöðinni og getur gangan tekið 4 til 5 klukkustundir fram og til baka. Þá skiptir máli hvar bílum er lagt á bílastæðum við Suðurstrandarveg miðað við upphafsstað göngunnar og getur því lengt gönguna eftir atvikum.

Áætla má að um og yfir 90% þeirra sem fara um svæðið velji gönguleið A upp að gosstöðvunum eins og hér hefur verið lýst. Útsýnisstaður við enda gönguleiðar A er í góðri hæð og í ca. 600 metra fjarlægð frá gossprungunni.

Aðstæður á gosslóð eru aðrar en þegar gaus í Geldingadölum í fyrra. Þannig liggur ný gossprunga fjær bílastæðum en í fyrra gosi. Takmarkanir vegna Covid-19 eru ekki lengur til staðar og fjöldi erlendra ferðamanna kemur til landsins á hverjum degi.

Um frekari rök fyrir ákvörðuninni sagði eftirfarandi í bréfi lögreglustjórans: 

Lögreglustjóri horfði til frásagna og reynslu viðbragðsaðila við störf á gossvæðinu á fyrstu dögum gossins. Mikið áhyggjuefni voru tíð afskipti af foreldrum með ung börn sín en foreldrar sýndu kurteisislegum afskiptum viðbragðsaðila oft lítinn skilning og hundsuðu jafnvel leiðbeiningar sem þeim voru gefnar. Vakti athygli að fjölskyldur voru oft engan veginn í stakk búnar til að ganga upp að gosinu. Í flestum tilfellum var um að ræða erlenda ferðamenn. Fréttaflutningur, ljósmyndir, myndskeið og frásagnir reyndra íslenskra leiðsögumanna um erfiðar og lífshættulegar aðstæður barna inn á hættusvæði vakti athygli lögreglustjóra á ástandi sem þurfti tafarlaust að bregðast við. Þá hafa börn minna þol gagnvart loftmengun og eru skilgreind sem viðkvæmur hópur og ekki ráðlegt að börn dvelji lengur en 15 mínútur á stað þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum. Þannig voru sjónarmið landlæknis lögð til grundvallar ákvörðun lögreglustjóra þótt það væri ekki sérstaklega tekið fram í framangreindri tilkynningu. Þá var nauðsynlegt að koma í veg fyrir að björgunarsveitarmenn þyrftu að koma börnum til aðstoðar vegna ofkælingar og þreytu. Taka þurfi tillit til viðbragðstíma viðbragðsaðila og þess mannafla sem til staðar er á svæðinu á hverjum tíma.

Lögreglustjóri hefur það vandasama starf með höndum að tryggja öryggi almennings í almannavarnaástandi. Hafi hann heimild lögum samkvæmt til að vísa á brott eða fjarlægja fólk í hættuástandi þá gerir lögreglustjóri ráð fyrir því að löggjafarvilji standi jafnframt til þess að hann beiti vægara og mildara úrræði á hættustund með þeim hætti sem gert var með hagsmuni barna að leiðarljósi, varnarlausum börnum undir 12 ára aldri, sem geta ekki annað en fylgt ákvörðunum foreldra sinna.

Horft var til líkamlegs og andlegs þroska barna þegar lögreglustjóri ákvað að miða við yngri börn en 12 ára.

Þá kom einnig fram í bréfi lögreglustjórans að valdheimildum hans hefði verið beitt af varfærni og ekki gengið lengra en nauðsyn krafðist. Um kynningu ákvörðunarinnar sagði í bréfinu að fréttatilkynning hefði verið send helstu fjölmiðlum landsins um leið og hún hefði legið fyrir sem og degi síðar, þ.e. 10. ágúst 2022, í kjölfar þess að gossvæðið var opnað að nýju. Ákvörðunin hefði strax fengið mikla umfjöllun og útbreiðslu.

Við skoðun umboðsmanns á málinu kom í ljós að tilkynning um umrædda takmörkun á för barna yngri en 12 ára að gosstöðvunum var birt á vefsíðu lögreglu, www.logreglan.is, hinn 9. ágúst 2022. Takmörkunin var auk þess áréttuð þar nokkrum dögum síðar eða 12. og 16. sama mánaðar. Þá var tilkynnt um það á vef lögreglu 24. sama mánaðar að þar sem aðstæður hefðu breyst og gönguleið A orðið greiðfærari væri ekki lengur bannað að fara með börn upp að gosstöðvunum. Ekki er þó að sjá að sú tilkynning hafi fengið mikla umfjöllun eða útbreiðslu í fjölmiðlum.

   

III Álit umboðsmanns Alþingis

1 Almennar reglur um ferðafrelsi og takmarkanir þess

Í 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir sem dveljast löglega í landinu skuli ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum. Sambærilega reglu er að finna í 1. mgr. 2. gr. 4. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994, og 1. mgr. 12. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi en í þeim er einnig gert ráð fyrir að ferðafrelsi geti sætt takmörkunum með lögum. Hins vegar er sú krafa gerð í fyrrgreindum milliríkjasamningum að takmarkanir séu nauðsynlegar til þess að vernda þjóðaröryggi, allsherjarreglu, heilbrigði almennings eða siðgæði, eða réttindi og frelsi annarra og að þær séu samrýmanlegar öðrum réttindum sem viðurkennd eru í samningunum. Ganga verður út frá því að sambærilegar kröfur til lagasetningar, sem felur í sér takmörkun á ferðafrelsi, leiði af grunnreglum íslenskrar stjórnskipunar. Slík takmörkun þarf því að þjóna lögmætu markmiði og ekki ganga lengra en nauðsynlegt er, hvort heldur eð tilliti til markmiðs síns eða skerðingar á öðrum stjórnskipulega vernduðum grundvallarréttindum, þ. á m. reglunnar um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum.

Í samræmi við þá grunnreglu að stjórnsýslan sé lögbundin verða íþyngjandi ráðstafanir stjórnvalda almennt að eiga sér stoð í settum lögum. Þegar um er að ræða ráðstafanir sem skerða grundvallarréttindi sem sérstaklega eru varin af stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, svo sem hér um ræðir, er almennt viðurkennt að gera beri ríkari kröfur en ella til skýrleika lagaheimildar og þess hvernig henni er beitt með tilliti til þeirra almannahagsmuna sem liggja henni til grundvallar. Í því tilliti verður einnig að líta til þess hvernig ráðstöfun horfir við hugsanlegu inngripi í önnur stjórnskipulega vernduð réttindi, svo sem jafnræði borgaranna. Er þannig ekki nægilegt að ráðstöfun stjórnvalds hafi, út af fyrir sig, það að markmiði að þjóna þeim hagsmunum sem löggjafinn taldi helga takmörkun stjórnarskrárvarinna réttinda heldur verður einnig að liggja fyrir, eftir viðhlítandi rannsókn, að ráðstöfun sé nauðsynleg og lögmætu markmiði verði ekki náð með öðrum og vægari hætti.

    

2 Heimild laga um almannavarnir til takmörkunar á ferðafrelsi

Um almannavarnir er fjallað í samnefndum lögum nr. 82/2008. Lögin taka til samhæfðra almannavarnaviðbragða til þess að takast á við afleiðingar neyðarástands sem kann að ógna lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra. Markmið almannavarna er að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið, sbr. 2. mgr. greinarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. a. laganna, eins og þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 39/2022, lýsir ríkislögreglustjóri yfir almannavarnastigi í samráði við viðkomandi lögreglustjóra ef unnt er og tilkynnir það ráðherra, þegar neyðarástand er líklegt, yfirvofandi eða ríkir, eða sambærilegar aðstæður eru fyrir hendi. Almannavarnastig samkvæmt lögunum eru þrjú: óvissustig, hættustig og neyðarstig, í samræmi við alvarleika þess neyðarástands sem uppi er hverju sinni, umfang viðbúnaðar og þörf á forgangshraða viðbragðsaðila.

Í VIII. kafla laganna er fjallað um valdheimildir á hættustundu en samkvæmt 1. málslið 2. gr. b., eins og honum var breytt með 1. gr. laga nr. 39/2022, hefst hættustund þegar hættustigi eða neyðarstigi almannavarna er lýst yfir og lýkur þegar hættustigi eða neyðarstigi er aflýst. Á hættustundu er lögreglustjóra heimilt að ákveða að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, þ.m.t. tilteknar fasteignir, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk, sbr. 1. mgr. 23. gr. laganna. Öllum er skylt að hlíta slíkum fyrirmælum, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Samkvæmt þessu fer ekki á milli mála að lögreglustjóra eru með lögum nr. 82/2008 fengnar víðtækar heimildir til að takmarka ferðafrelsi borgaranna frá því að hættustigi eða neyðarstigi almannavarna er lýst yfir og þar til því hefur verið aflýst. Í almennum athugasemdum við VIII. kafla í frumvarpi því er varð að lögunum er þó tekið fram að þar sé á því byggt að þessum valdheimildum verði að beita af varfærni og ekki gengið lengra en þörf sé hverju sinni til að afstýra hættu (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1152). Í áliti meiri hluta allsherjarnefndar Alþingis segir jafnframt í þessu sambandi að um sé að ræða heimild til að gefa almenn fyrirmæli á hættustundu til samræmis við lögreglulög (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 5446).

Í 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er fjallað um aðgerðir í þágu almannafriðar, allsherjarreglu o.fl. en ákvæði 2. mgr. greinarinnar svipar að nokkru til áðurnefndrar 1. mgr. 23. gr. laga nr. 82/2008. Í 1. mgr. 15. gr. lögreglulaga segir að lögreglu sé heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er lögreglu í þessu skyni m.a. heimilt að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk, fyrirskipa stöðvun eða breytingu á aðgerðum eða starfsemi, fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim.

Í athugasemdum við 15. gr. frumvarps þess er varð að lögreglulögum kemur m.a. fram að allar þær aðstæður og heimildir, sem nefndar séu í 1. og 2. mgr. greinarinnar, hafi verið taldar rúmast innan allsherjarumboðs lögreglu, en með því sé átt við þá óskráðu reglu að lögreglan hafi almenna venjumyndaða heimild innan vissra marka til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að halda uppi lögum og reglu. Þá segir einnig í athugasemdunum að erfitt sé að setja sundurliðaðar og nákvæmar reglur um öll tilvik sem lögreglan kunni að standa andspænis og þær aðgerðir sem hún þurfi að grípa til. Þess vegna sé 2. mgr. greinarinnar orðuð á almennan hátt þannig að litið verði á hana sem leiðbeinandi um hin ýmsu úrræði sem lögreglan geti gripið til en ekki sem tæmandi talningu (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3793).

Samkvæmt 19. gr. lögreglulaga er almenningi skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri. Í 44. gr. laganna segir að brot gegn 19. til 21. gr. þeirra varði fésektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sambærilegt refsiákvæði er ekki að finna í lögum nr. 82/2008, en líkt og áður er rakið vísaði lögreglustjórinn opinberlega til ákvæða lögreglulaga hlýddi fólk ekki fyrirmælum hans á grundvelli 23. gr. laga nr. 82/2008.

Mér er ekki kunnugt um að fólk hafi verið beitt fésektum fyrir að hlýða ekki umræddum fyrirmælum. Ég tel þó ástæðu til að nefna að hvorki 23. gr. laga nr. 82/2008 né önnur sett lög kveða á um að brot gegn ákvæðinu varði refsingu. Getur það ákvæði, eitt og sér, því ekki orðið grundvöllur refsingar, sbr. grunnreglu 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Hér verður þó að hafa í huga að fyrirmæli lögreglustjóra, sem sett eru á grundvelli ákvæðisins, eða nánari fyrirmæli lögreglumanna á þeim grunni, kunna einnig að verða talin fyrirmæli lögreglu í skilningi 19. gr. lögreglulaga. Er því ekki hægt að útiloka að brot gegn fyrirmælum lögreglustjóra, samkvæmt lögum um almannavarnir, eða nánari fyrirmælum lögreglumanna á þeim grunni, geti varðað þeirri refsingu sem mælt er fyrir um í 44. gr. lögreglulaga.

   

3 Gildistími fyrirmæla lögreglustjóra

Í framkvæmd hefur 15. gr. lögreglulaga verið skýrð með þeim hætti að sá vandi eða hætta sem lögregla hefur heimild til að bregðast við með aðgerðum þurfi að vera svo bráð eða yfirvofandi að önnur úrræði lögreglunnar og annarra hlutaðeigandi stjórnvalda dugi ekki til að tryggja þá verndarhagsmuni sem falla undir ákvæðið. Aðgerðum lögreglu á þessum grunni sé aftur á móti ekki ætlað að vera varanlegar heldur til skamms tíma í þágu þeirra markmiða sem tilgreind eru í 1. mgr. greinarinnar, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 8. febrúar 2012 í máli nr. 6259/2010. Í samræmi við þetta hefur verið litið svo á að beiting lögreglu á þeim valdheimildum sem felast í greininni komi jafnan til álita við erfiðar kringumstæður þar sem skammur tími gefst til ítarlegs mats á aðstæðum og andstæðum hagsmunum, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 23. mars 2001 í málum nr. 2824/1999 og 2836/1999 sem og Ragnar L. Auglend og Henry John Mæland: Politirett, Osló 2019, bls. 736. Telji lögregla þörf á því að ástand, sem tímabundið hefur verið komið á með aðgerðum hennar á þessum lagagrundvelli, verði varanlegt hljóta slíkar ráðstafanir því að byggja á öðrum lagaheimildum sem að jafnaði myndu krefjast frekari rannsóknar og málsmeðferðar, sbr. til hliðsjónar fyrrgreint álit umboðsmanns í máli nr. 6259/2010.

Athugasemdir við frumvarp það er varð að lögum nr. 82/2008 bera með sér að sambærileg sjónarmið og nú hafa verið rakin um eðli athafna lögreglustjóra búi að baki 23. gr. laganna. Verður þannig að leggja til grundvallar að ákvæðinu sé ætlað að vera heimild til að bregðast fumlaust við hættuástandi sem samkvæmt lögunum og eðli málsins er tímabundið. Í samræmi við þetta er í fyrrgreindum lögskýringargögnum að baki lögunum áréttað að við slíkar ráðstafanir megi ekki ganga lengra en þörf er á hverju sinni til að „afstýra hættu“ en slík krafa um meðalhóf leiðir einnig af þeim almennu sjónarmiðum um takmarkanir á grundvallarréttindum sem áður eru rakin.

Umboðsmaður hefur áður vikið að lögbundnum heimildum stjórnvalda til að bregðast við tímabundnu hættuástandi, sbr. t.d. bréf hans til heilbrigðisráðherra 9. febrúar og 14. mars 2022 um samkomutakmarkanir vegna COVID-19 sem birt eru á vefsíðu embættisins. Í þeirri umfjöllun umboðsmanns hefur því verið haldið til haga að slíkar heimildir hvíli almennt á þeim rökum að andspænis yfirvofandi hættu hafi stjórnvöld ekki aðeins heimild til að grípa til viðeigandi ráðstafana heldur hvíli jafnframt á þeim frumkvæðisskylda til að bregðast við með virkum úrræðum. Þá hefur og verið bent á að við slíkar aðstæður verði almennt að játa stjórnvöldum töluvert svigrúm til að meta nauðsyn aðgerða á hverjum tíma, nánar tiltekið þannig að eftir því sem um meiri yfirvofandi hættu eða óvissuástand sé að ræða því rýmra svigrúm hafi stjórnvöld að þessu leyti.

Í þessu sambandi hefur í téðri umfjöllun umboðsmanns einnig verið vísað til þess að mismunandi kröfur eigi við um rannsókn stjórnvalds eftir því hvernig aðstæður eru hverju sinni. Eftir því sem hætta teljist minni, tíminn líði og meiri upplýsingar liggi fyrir verði þannig að gera meiri kröfur en ella til rannsóknar og mats stjórnvalds á því hvort brýn nauðsyn standi til áframhaldandi takmarkana á stjórnarskrárvörðum réttindum. Í þessu ljósi hefur einnig verið á það bent að þegar um sé að ræða ráðstafanir, sem miðist við tímabundnar aðstæður, beri stjórnvaldi að leggja reglubundið mat á hvort skilyrðum sé fullnægt til að viðhalda takmörkunum og þá í ljósi bestu upplýsinga á hverjum tíma. Leiðir af þessu að ráðstafanir stjórnvalda, sem ætlað er að bregðast við yfirvofandi hættu, geta að jafnaði ekki verið til ótiltekins tíma.

Líkt og áður greinir var ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum 9. ágúst 2022 um að takmarka aðgengi barna undir 12 ára aldri að gosstöðvum í Meradölum ekki markaður sérstakur gildistími. Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið tel ég að ótímabundin fyrirmæli lögreglustjóra á þessa leið hafi, í ljósi þess tíma sem leið frá því að tilkynnt var um þau opinberlega þar til þau voru látin niður falla, ekki hafa samrýmst þeim sjónarmiðum sem áttu við um heimild hans samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um almannavarnir. Í því sambandi athugast einnig að ekki verður séð að tekið hafi verið til skoðunar hvort aðrar lagaheimildir gátu helgað slíkt bann til lengri tíma.

Í þessum efnum hef ég einnig í huga að hvorki samkvæmt lögum um almannavarnir né lögreglulögum er gert ráð fyrir því að „fyrirmæli“ lögreglustjóra eða lögreglu séu birt en það er óumdeild grunnregla íslenskrar stjórnskipunar, svo og réttarríkisins, að birting sé skilyrði þess að menn verði bundnir af íþyngjandi reglum, ekki síst ef brot gegn þeim kann að varða refsingu. Verður af þessu enn frekar ráðið að téð heimild laga um almannavarnir miðast við tímabundnar aðstæður en er ekki ætlað að verða grundvöllur að setningu almennra ótímabundinna reglna um háttsemi borgaranna. Telji lögreglustjóri hins vegar nauðsyn á slíkum reglum til ótiltekins tíma, en lagaheimild til viðeigandi ráðstafana skorti, bendi ég á að sá ráðherra sem fer með yfirstjórn viðkomandi málaflokks, í þessu tilviki dómsmálaráðherra, getur á grundvelli frumkvæðisréttar síns lagt það til við Alþingi að gerðar séu viðeigandi breytingar á gildandi lögum að því marki sem samræmist stjórnlögum.

Fyrir liggur að lögreglustjóri leitaðist við að kynna umrædd fyrirmæli sín um bann við för barna undir 12 ára aldri að gosstöðvunum opinberlega með fréttatilkynningum og birtingu upplýsinga á rafrænum miðlum. Var þetta í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Hins vegar fékk ákvörðun lögreglustjórans um að ekki væri lengur bannað að fara með börn að gosstöðvunum ekki sambærilega útbreiðslu í fjölmiðlum en ekki liggur fyrir hvort sams konar fréttatilkynning var send helstu fjölmiðlum um lok bannsins líkt og átti við um upphaf þess.  Í þessu sambandi tek ég fram að það myndi einnig teljast til vandaðra stjórnsýsluhátta að leitast við að kynna fyrir almenningi lok banns, eins og þess sem hér um ræðir, með jafn ítarlegum hætti og gert var við upphaflega ákvörðun, svo sem með sambærilegum tilkynningum til fjölmiðla.

  

IV Niðurstaða

Það er álit mitt að ótímabundin fyrirmæli lögreglustjóra um að takmarka aðgengi barna yngri en 12 ára að gosstöðvunum í Meradölum hafi, í ljósi þess tíma sem leið frá því að tilkynnt var um þau opinberlega þar til þau voru látin niður falla, ekki samrýmst þeim sjónarmiðum sem áttu við um heimild hans samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 82/2008, um almannavarnir. Ég mælist til þess að þau sjónarmið sem fram koma í álitinu verði framvegis höfð í huga. Ég hef jafnframt ákveðið að senda dómsmálaráðuneytinu afrit af áliti þessu til upplýsingar.