Lífeyrismál.

(Mál nr. 11881/2022)

Kvartað var yfir umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna beiðni um flutning á iðgjöldum úr öðrum lífeyrissjóði. 

Eins og málið lá fyrir taldi umboðsmaður sig ekki geta slegið því föstu að ráðuneytið hefði ekki gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti þegar það veitti umsögn um beiðnina. Hafði hann þá m.a. í huga að jafnræðisreglur veita mönnum almennt ekki tilkall til neins sem ekki samræmist lögum en, líkt og fram kom í umfjöllun umboðsmanns um málið, fer stjórn lífeyrissjóðsins með ákvörðunarvald um það hvort verða eigi við beiðni sem þessari en ekki ráðuneytið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 10. mars 2023.

   

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 3. október sl. þar sem þér kvartið yfir umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna beiðni yðar um flutning á iðgjöldum úr X. Lýtur kvörtun yðar að því að ráðuneytið hafi með beinum hætti hlutast til um flutning á iðgjöldum nafngreinds starfsfélaga yðar. Hins vegar hafi ekki verið farið með mál yðar með sambærilegum hætti og ráðuneytið þar með brotið gegn jafnræðisreglu.

Í tilefni af kvörtun yðar var fjármála- og efnahagsráðuneytinu ritað bréf 14. október sl. þar sem þess var óskað að ráðuneytið lýsti afstöðu sinni til kvörtunar yðar og afhenti jafnframt þau gögn og upplýsingar sem lægju fyrir í ráðuneytinu um umsögn þess um áðurnefnda beiðni starfsfélaga yðar. Umbeðin svör og gögn bárust með bréfi ráðuneytisins 26. október sl. en athugasemdir yðar bárust með tölvubréfi 28. nóvember sl.

   

II

1

Þér hafið áður leitað til umboðsmanns Alþingis vegna beiðni yðar um flutning lífeyrisréttinda yðar til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Með bréfi setts umboðsmanns Alþingis til yðar 26. mars 2021 í máli nr. 10999/2021 lauk hann athugun sinni á kvörtun yðar með vísan til þess að ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðsins um að synja beiðni yðar félli utan starfssviðs umboðsmanns.  Var sú niðurstaða áréttuð með bréfum umboðsmanns Alþingis til yðar 22. nóvember 2021 og 20. janúar 2022 í máli nr. 11206/2021 sem og sú afstaða umboðsmanns að ekki væri nægilegt tilefni til að taka þátt fjármála- og efnahagsráðuneytisins sérstaklega til athugunar. Í síðast nefnda bréfinu var athygli yðar vakin á því að væri afstaða yðar sú að þáttur ráðuneytisins í afgreiðslum stjórnar lífeyrissjóðsins á beiðnum yðar eða eftir atvikum starfsfélaga yðar hefði verið meiri en kvartanir yðar og fyrirliggjandi gögn gæfu til kynna gætuð þér lagt fram nýja kvörtun sem beindist að ráðuneytinu, væri aðkoma þess nánar rökstudd og eftir atvikum studd gögnum. Í kvörtun yðar 3. október sl. vísið þér til þess að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi heimilað flutning lífeyrisréttinda starfsfélaga yðar úr X í kjölfar þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið beitti sér fyrir því, en það komi skýrt fram í bréfi stjórnarinnar til hans. Þannig hafi ráðuneytið veitt starfsfélaga yðar liðsinni við flutning lífeyrisréttinda hans en hafnað beiðni yðar um hið sama.

Á meðal gagna málsins sem bárust frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er afrit af bréfi stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til starfsfélaga yðar. Í bréfinu kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu hafi hans átt að hafa í för með sér skylduaðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Var beiðni hans samþykkt á grundvelli þeirrar skylduaðildar. Í svarbréfi ráðuneytisins 26. október sl. til umboðsmanns kemur fram að þessar upplýsingar hafi verið veittar símleiðis af hálfu starfsmanns kjara- og mannauðssýslu ríkisins áður en málið var afgreitt af hálfu stjórnarinnar, en öðrum gögnum um aðkomu ráðuneytisins sé ekki fyrir að fara.

  

2

Líkt og rakið var í bréfi umboðsmanns til yðar 20. janúar 2022 verður ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi tekið ákvörðun um að synja beiðni yðar um flutning lífeyrisréttinda yðar. Í samræmi við lög og samþykktir sem gilda um sjóðinn er jafnframt ekkert sem gefur til kynna annað en að ákvörðunarvald um það málefni sem beiðni yðar laut að sem og beiðni starfsfélaga yðar sé í höndum stjórnar sjóðsins, en ekki fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þannig er mælt fyrir um það í 1. málslið 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, að stjórn sjóðsins fari með yfirstjórn hans og ákveði hvernig haga skuli afgreiðslu sjóðsins. Verður því ekki annað ráðið en að aðkoma ráðuneytisins hafi falist í því að veita stjórn sjóðsins umsagnir í samræmi við beiðnir hennar hverju sinni.

Umsagnir fjármála- og efnahagsráðuneytisins eru ekki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna er gildissvið þeirra að meginstefnu bundið við slíkar ákvarðanir. Við undirbúning umsagnanna bar ráðuneytinu þó að gæta að grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins þó óskráðar séu, þ. á m. jafnræðisreglu. Bar ráðuneytinu því að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við veitingu slíkra umsagna.

Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins í tilefni af beiðni yðar kom fram að það teldi yður hafa átt skylduaðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins samkvæmt þágildandi lögum um sjóðinn og það væri mat ráðuneytisins að þér hefðuð átt hana frá ársbyrjun 1985. Þá vék ráðuneytið jafnframt að þeim atvikum sem leiddu til þess að þér greidduð í X. Kom þar fram að það væri mat þess að ekki hefðu verið gerð mistök við skráningu yðar í X þar sem þér hefðuð sjálfir óskað eftir að gerast félagi í þeim lífeyrissjóði og ítrekað staðfest það með undirritun ráðningarsamnings. Þá verður ekki annað ráðið en að umsögn ráðuneytisins í tilefni af beiðni starfsfélaga yðar hafi verið bundin við að veita upplýsingar um hvort hann hefði átt skylduaðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og að þar hafi ráðuneytið, líkt og í tilviki yðar, lýst þeirri afstöðu að svo hefði verið.

Að virtum þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu hef ég ekki forsendur til að líta svo á að ráðuneytið hafi beitt sér sérstaklega fyrir því að orðið yrði við beiðni starfsfélaga yðar eða að umsögn þess hafi verið annars eðlis en að veita upplýsingar um hvort hann hefði átt skylduaðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Eins og málið liggur fyrir tel ég mig ekki þar af leiðandi ekki geta slegið því föstu að ráðuneytið hafi ekki gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti er það veitti umsögn um beiðni yðar. Hef ég þá einnig í huga að jafnræðisreglur veita mönnum almennt ekki tilkall til neins sem ekki samræmist lögum, en líkt og áður greinir fer stjórn lífeyrissjóðsins með ákvörðunarvald um það hvort orðið skuli við beiðni yðar en ekki ráðuneytið.

Teljið þér að í málinu hafi ekki allar upplýsingar um aðkomu ráðuneytisins að máli starfsfélaga yðar komið fram og þær kunni að hafa þýðingu um réttindi yðar bendi ég á að umboðsmaður er almennt ekki í sömu stöðu og dómstólar til að upplýsa og skera úr um málsatvik. Ég tek fram að með þessu hefur engin afstaða verið tekin til þess hvort tilefni sé til þess leggja málið fyrir dómstóla eða hver væri líkleg niðurstaða dómsmáls þar um.  

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.