Almannatryggingar.

(Mál nr. 12049/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum.  

Eftir að hafa kynnt sér gögn málsins og forsendur nefndarinnar taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. mars 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 9. febrúar sl. yfir úrskurði úrskurðar­nefndar velferðarmála 19. október sl. í máli nr. 400/2022 þar sem ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör á tekju­tengdum bótum á árinu 2021 var staðfest. Í kvörtun yðar eru m.a. gerðar athugasemdir við að greiðsla vegna orlofsuppgjörs og desemberuppbótar sem þér fenguð frá fyrrum vinnuveitanda yðar í kjölfar starfsloka yðar  hafi komið til skerðingar greiðslna.

Um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega og upplýsingar um tekjur er fjallað í V. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Í 1. mgr. 39. gr. segir að umsækjendum og greiðsluþegum sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð máls, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá er jafn­framt skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Í III. kafla sömu laga er mælt fyrir um lífeyristryggingar, þ. á m. greiðslur örorku- og ellilífeyris svo og fyrirkomulag þeirra. Í 16. gr. laganna er fjallað um tekjutryggingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skuli standa að útreikningi þeirra greiðslna sem þar um ræðir. Í 2. mgr. greinarinnar segir að til tekna samkvæmt III. kafla teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Meginreglan er því sú að hvers kyns skattskyldar tekjur hafi áhrif á fjárhæð þeirra bóta sem Tryggingastofnun greiðir. Samkvæmt 5 mgr. greinarinnar skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bóta­útreikningi hvers mánaðar og byggist útreikningur bóta í upphafi á upplýsingum um tekjur bótaþega sem m.a. stafa frá honum sjálfum, sbr. einnig fyrrgreind 1. mgr. 39. gr. laganna. Þá kemur einnig fram að ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skuli tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 39. og 40. gr. og bóta­réttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist.

Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, er Tryggingastofnun ríkisins heimilt, þegar einstaklingur leggur inn nýja umsókn um bætur, að miða útreikning bóta eingöngu við þær tekjur sem áætlað er að aflað verði eftir að bótaréttur stofnast. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. sömu reglugerðar, skal Tryggingastofnun við endur­reikning bóta til þeirra, sem fengu greiðslur hluta úr bótagreiðslu­ári, byggja á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfir­valda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá ber eingöngu að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi í.

Líkt og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli yðar er mælt svo fyrir um í 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Trygginga­stofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Komi í ljós við þann endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar skal Trygginga­stofnun draga hinar ofgreiddu bætur frá bótum sem bótaþegi kann síðar að öðlast rétt til en stofnunin öðlast þó einnig endurkröfu­rétt á hendur viðkomandi bótaþega, sbr. 8. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 55. gr. laganna. Er sú meginregla einnig áréttuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Af gögnum málsins verður ráðið að við endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar fyrir árið 2021 hafi komið í ljós að þér hefðuð verið með hærri tekjur á tímabilinu 1. október til 31. desember 2021 en áætlað var í upphafi og sem greiðslu­áætlun miðaðist við. Nánar tiltekið er endurgreiðslukrafan til komin vegna orlofsuppgjörs og desemberuppbótar sem þér fenguð greiddar á þessu tímabili frá fyrrverandi vinnuveitanda yðar vegna starfsloka yðar. Niðurstaða stofnunarinnar hafi verið sú að þér hefðuð fengið 116.526 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til endur­greiddrar staðgreiðslu. Í úrskurði nefndarinnar eru forsendur endur­reiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar að öðru leyti ítarlega raktar. 

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og forsendur nefndarinnar tel ég ekki efni til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar eða það mat hennar að umræddar greiðslur frá fyrrverandi vinnuveitanda yðar hafi haft áhrif á rétt yðar til greiðslna enda liggur fyrir að þær féllu til á umræddu tímabili sem þér þáðuð greiðslur. Í þeim efnum hef ég einkum í huga að óumdeilt er í málinu að Trygginga­stofnun greiddi yður samkvæmt greiðsluáætlun sem miðaði við að þér hefðuð lægri tekjur á árinu en raunin varð og að þér fenguð þar af leiðandi greiddar hærri bætur en lög gera ráð fyrir.

Í samræmi við framagreint lýk ég meðferð minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.