Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 12086/2023)

Kvartað var yfir málsmeðferð og starfsháttum lögreglustjórans á Norðurlandi vestra við rannsókn á ætluðum brotum viðkomandi gegn þágildandi reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. 

Þar sem lög um meðferð sakamála gera ráð fyrir því að dómstólar leysi endanlega úr málum þar sem ágreiningur er um réttmæti sektargerðar lögreglustjóra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. mars 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 6. mars sl. þar sem þér kvartið yfir málsmeðferð og starfsháttum lögreglustjórans á Norðurlandi vestra við rannsókn á ætluðum brotum yðar gegn þágildandi reglugerð nr. 321/2021, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Samkvæmt kvörtuninni og þeim gögnum sem henni fylgdu var yður boðið að gangast undir sektargerð með bréfi lögreglustjóra 10. nóvember sl. með vísan til 1. mgr. 149. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Af kvörtuninni og samskiptum yðar við lögreglustjóra verður ekki annað ráðið en að þér hafið ekki gengið að því boði en í kvörtuninni kemur m.a. fram að það „[stefni] mögulega í útgáfu ákæru“.

  

II

Í 1. mgr. 149. gr. laga nr. 88/2008 segir að berist lögreglustjóra kæra um brot sem heyrir undir ákæruvald hans eða lögregla stendur mann að slíku broti og lögreglustjóri telur viðurlög við brotinu ekki fara fram úr sekt að tiltekinni fjárhæð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur samkvæmt 1. mgr. 151. gr. laganna, sviptingu réttinda eða upptöku eigna, geti lögreglustjóri þá bréflega, innan mánaðar frá því að honum barst kæran, gefið sakborningi kost á að ljúka málinu með því að gangast undir hæfileg viðurlög ásamt greiðslu sakarkostnaðar. Gangist sakborningur undir ákvörðun viðurlaga hafa þau málalok sama gildi um ítrekunaráhrif og dómur, ef því er að skipta. Hafni sakborningur þessum málalokum eða sinni ekki boði lögreglustjóra skal tekin ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum.

Í 1. mgr. 150. gr. laga nr. 88/2008 segir að séu skilyrði til að ljúka máli samkvæmt því sem segi í 1. mgr. 149. gr. laganna og lög­reglu­­stjóri telji að hæfileg viðurlög við brotinu séu einvörðungu sekt sem fari ekki fram úr að tiltekinni fjárhæð samkvæmt reglugerð sem ráð­­herra setji samkvæmt 1. mgr. 151. gr. laganna, geti lögreglustjóri gefið sakborningi kost á að ljúka málinu með greiðslu tiltekinnar sektar. Sinni sakborningur ekki sektarboði samkvæmt 1. mgr. innan 30 daga eftir að það hefur verið birt samkvæmt 156. gr. laganna getur lögreglustjóri sent málið héraðsdómara til ákvörðunar sektar og vararefsingar. Dómari tekur ákvörðun um viðurlög með áritun á sektarboð lögreglustjóra. Slík áritun hefur sömu áhrif og dómur. Ekki er þörf á að kveðja sakborning fyrir dóm áður en máli verður lokið á þennan hátt, sbr. 3. mgr. 150. gr. laga nr. 88/2008. Telji dómari hæfileg viðurlög við broti fara fram úr því sem greinir í 1. mgr. 150. gr. eða fyrirliggjandi gögn ekki nægileg til að sýnt sé fram á sök sakbornings hafnar hann málalokum samkvæmt 3. mgr. með áritun sektarboðs. Er dómari ekki bundinn af slíkri ákvörðun ef til máls­höfðunar kemur vegna brotsins, sbr. 4. mgr. sömu greinar.

  

III

Samkvæmt því sem að framan er rakið fenguð þér heimsent sektarboð vegna málsins, dags. 10. nóvember 2022, með vísan til 1. mgr. 149. gr. laga nr. 88/2008. Af erindi yðar til mín verður ekki séð þér hafið að lokum fallist á að greiða sektina. Málið virðist því enn til meðferðar hjá lögreglunni en samkvæmt því sem fram kemur m.a. í bréfi hennar til lögmanns yðar 16. desember sl. fer nú um málið „eftir almennum reglum um saksókn“.

Eins og áður segir gerir 150. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, ráð fyrir því að hafni viðkomandi að greiða sekt samkvæmt sektar­boði sé tekin ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum og sinni við­komandi ekki sektarboði sé mál sent héraðsdómara til ákvörðunar sektar og vararefsingar.

Sam­­­kvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, nær starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra at­hafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þar sem lög nr. 88/2008, um meðferð sakamála, gera samkvæmt framangreindu ráð fyrir því að dómstólar leysi endanlega úr málum þar sem ágreiningur er um réttmæti sektargerðar lögreglustjóra eru ekki upp­fyllt skilyrði laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, til að ég taki kvörtun yðar til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.