Landbúnaður.

(Mál nr. 12088/2023)

Kvartað var gjaldtöku sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna söfnunar og förgunar dýrahræja. 

Þar sem málið hafði ekki verið borið undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála voru ekki skilyrði til þess að umboðsmaður fjallaði frekar um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 15. mars 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 8. mars sl. yfir gjaldtöku sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna söfnunar og förgunar dýrahræja. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við fyrirkomulag gjaldtökunnar en þér teljið með henni sé yður gert að greiða fyrir þjónustu sem þér nýtið yður ekki. Með kvörtuninni fylgdi reikningur sveitarfélagsins frá 15. febrúar sl. til yðar.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, geta sveitarfélög sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en koma fram í þeim, enda falli þau undir lögin. Þá segir í 2. og 3. tölulið 1. mgr. 59. gr. að heimilt sé, auk annars, að setja í slíkar samþykktir ákvæði um meðferð úrgangs og skólps og ákvæði um gjaldtöku fyrir leyfi, leigu eða veitta þjónustu. Í 5. mgr. 59. gr. laganna er sveitarfélögum jafnframt veitt heimild til að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. greinarinnar. Mega gjöld aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Þá er í 1. og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að innheimta gjald fyrir förgun og meðhöndlun úrgangs. Í 4. mgr. greinarinnar er mælt fyrir um að sveitarfélög skuli láta birta gjaldskrá í B-deild stjórnartíðinda.

 Í samræmi við framangreint hefur sveitarfélagið Skagafjörður sett gjaldskrá nr. 1626/2022 16. desember 2022 fyrir sorpurðun og sorphirðu í sveitarfélaginu. Þar er m.a. í 2. mgr. 1. gr. mælt fyrir um að gjald fyrir eyðingu á dýrahræjum sé innheimt af bújörðum, hesthúsum og öðrum aðilum sem séu með skráðan bústofn. Miðað sé við búfjárskýrslur Búnaðarstofu og verði það innheimt með fasteignagjöldum. Þá segir að gjaldtaka fyrir söfnun og förgun á árinu 2023 fari þannig fram að lagt sé á grunngjald að fjárhæð 25.000 kr. en því til viðbótar leggist á tiltekið gjald fyrir hvern grip.

Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Efnislega samhljóða heimild um málskotsrétt til úrskurðarnefndarinnar er einnig að finna í 1. mgr. 67. gr. laga nr. 55/2003. Í þessu samhengi skal bent á að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.

Ástæða þess að framan­greint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta skjóta máli til æðra stjórnvalds, sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en kvartað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Þar sem ekki liggur fyrir að þér hafið leitað til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna umræddrar gjaldtöku sveitarfélagsins og athugasemda yðar við hana eru ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður enn rangsleitni beittan að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.