Málsmeðferð og starfshætti stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 12091/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun forsætis-, utanríkis- og mennta- og barnamálaráðherra um að helga tilteknum degi ár hvert minningu fórnarlamba helfararinnar.  

Þar sem kvörtunin laut ekki að stjórnvaldsákvörðun eða athöfn sem beindist sérstaklega að viðkomandi voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 15. mars 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 10. mars sl. þar sem þér komið á framfæri athugasemdum, sem lúta að ákvörðun forsætis-, utanríkis- og mennta- og barnamálaráðherra um að helga tilteknum degi ár hvert minningu fórnarlamba helfararinnar.

Um störf umboðsmanns Alþingis gilda samnefnd lög nr. 85/1997. Samkvæmt 2. gr. laganna er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalds kvartað af því tilefni til umboðsmanns Alþingis. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir tiltekin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún beinist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem beinist sérstaklega að yður eða varði beinlínis hagsmuni yðar umfram aðra. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.