Útlendingar.

(Mál nr. F123/2022)

Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum frá ríkislögreglustjóra vegna tiltekinna atriða í tengslum við brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd. 

Athugunin hófst í kjölfar frétta af því hvernig staðið var að brottflutningi manns í hjólastól. Ríkislögreglustjóri greindi frá því í svörum sínum til umboðsmanns að verið væri að endurskoða verklag og skýrsla yrði send til dómsmálaráðuneytisins. Meðal annars væri til skoðunar að útvega lögreglunni bifreið sem nota mætti ef flytja þyrfti fólk í hjólastól. Vonir stæðu til að slíkur bíll yrði kominn í notkun fyrri hluta þessa árs.

Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að halda athuguninni áfram að svo stöddu en óskaði eftir að vera upplýstur um framvindu málsins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. janúar 2023.

  

  

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur lokið athugun sinni á viðbrögðum ríkislögreglustjóra í tilefni af flutningi manns með fötlun í hjólastól við framkvæmd brottvísunar umsækjenda um alþjóðlega vernd sem fram fór aðfaranótt 3. nóvember 2022.

Svo sem rakið er í bréfi umboðsmanns til ríkislögreglustjóra 10. sama mánaðar var tilefni athugunarinnar fréttaflutningur af því hvernig framkvæmd brottvísunar var háttað í tilviki fyrrgreinds manns. Í bréfinu var vísað til þess að komið hefði fram í fjölmiðlum af hálfu ríkislögreglustjóra að nauðsynlegt væri að farið yrði yfir verklag lögreglu við framkvæmd umræddrar brottvísunar. Var þess óskað að umboðsmaður yrði upplýstur um hvort og þá til hvaða ráðstafana ríkislögreglustjóri hygðist grípa.  

Svar ríkislögreglustjóra barst 15. desember sl. Í svarbréfi hans er tekið fram að nú sé yfirstandandi skoðun embættisins á því verklagi sem viðhaft var við ofangreinda brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd. Við skoðun embættisins verði rituð skýrsla sem send verði dómsmálaráðuneytinu. Í svari ríkislögreglustjóra kemur og fram að meðal þeirra atriða sem sæta skoðun embættisins sé sá möguleiki að lögreglan festi kaup á bifreið sem nota megi ef flytja þarf einstaklinga í hjólastól en þó einnig til annarra verka. Standi vonir embættisins til þess að bifreiðin verði keypt eða leigð á fyrri hluta ársins 2023.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í svari ríkislögreglustjóra tel ég ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu. Áfram verður þó fylgst með málinu af hálfu embættisins og þeirri vinnu sem ríkislögreglustjóri áformar að ljúki á næstu misserum. Er þess því óskað að ríkislögreglustjóri upplýsi umboðsmann um framvindu málsins eigi síðar en 1. ágúst nk. og sendi þá jafnframt afrit af téðri skýrslu, verði vinnslu hennar lokið.

Að endingu telur umboðsmaður rétt að ítreka nauðsyn þess að við skipulagningu og undirbúning ákvarðana um framkvæmd brottvísana umsækjenda um alþjóðlega vernd fari, af hálfu lögreglu, fram einstaklingsbundið mat á þörfum þeirra einstaklinga sem um ræðir þar sem tekið er sérstakt tillit til manna í viðkvæmri stöðu, svo sem vegna fötlunar, og þess hvernig framkvæmd starfa hennar horfir við þeirri stöðu. Í þessu efni er sérstaklega vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks auk almennra sjónarmiða um að ekki skuli farið strangar í sakirnar við meðferð opinbers valds en nauðsynlegt er.

Með vísan til alls ofangreinds er athugun umboðsmanns á málinu lokið að svo stöddu.

      

Bréf ríkislögreglustjóra við umboðsmanns

Fyrirspurnarbréf umboðsmanns til ríkislögreglustjóra

  

  

Viðbrögð stjórnvalda

Ríkislögreglustjóri greindi frá því að eftir vandlega skoðun og athugun á fjölda tilvika þar sem slík sérútbúin bifreið kæmi að notum væri ljóst að kaup á henni væri ekki fýsilegur kostur út frá tilhlýðilegri meðferð og ráðstöfun opinbers fjár. Því hefði verið gengið til samninga við einkafyrirtæki sem sérhæfir sig í rekstri bifreiða sem útbúnar eru fyrir hjólastóla. Markmiðið væri að lögreglan gæti fengið slíka bifreið til afnota með skömmum fyrirvara. Þá hafi embættið lokið við gerð skýrslu um framkvæmd fylgdar til Grikklands 3. nóvember 2022 sem ætlað sé að varpa ljósi á aðgerðina og atriði sem komu upp bæði í aðgerðinni sjálfri og að henni lokinni. Fékk umboðsmaður sent afrit af henni.