Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. F130/2023)

Í kjölfar ábendingar um að yfirstjórn lögreglunnar sinnti ekki lögboðnum skyldum sínum í tengslum við símahlustanir og skyld úrræði, einkum varðandi tilkynningar til sakborningar, eyðingu hlustunargagna og skráagerð, og tómlæti gagnvart eftirlitshlutverki ríkissaksóknara, óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um þetta frá dómsmálaráðuneytinu.

Í svari ráðuneytisins kom fram að það hefði óskað eftir upplýsingum og skýringum frá öllum lögreglustjórum og héraðssaksóknurum á ofangreindum atriðum. Svörin væru nú til skoðunar í ráðuneytinu. Í ljósi þess taldi umboðsmaður ekki tilefni til að halda athugun sinni áfram að svo stöddu en óskaði eftir að ráðuneytið upplýsti hann um niðurstöðu málsins eða framvindu þess eigi síðar en í byrjun maí 2023.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. febrúar 2023.

  

   

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur lokið athugun sinni á eftirliti með símahlustunum og skyldum úrræðum. Tilefni athugunarinnar var að umboðsmanni barst ábending frá X, dags. 31. janúar sl., er laut að því að yfirstjórn lögreglunnar sinni ekki lögbundnum skyldum sínum í tengslum við símahlustanir og skyld úrræði, einkum varðandi tilkynningar til sakborninga, eyðingu hlustunargagna og skráargerð, og sýni tómlæti gagnvart eftirlitshlutverki ríkissaksóknara á grundvelli 3. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Í svari dómsmálaráðuneytisins sem barst með tölvupósti 8. febrúar sl. við munnlegri fyrirspurn umboðsmanns í tilefni af ofangreindri ábendingu er staðfest að ráðuneytið hafi í desembermánuði síðastliðnum óskað eftir upplýsingum og skýringum frá öllum lögreglustjórum og héraðssaksóknurum á þeim atriðum sem um ræðir. Þá hafi málið jafnframt verið rætt við lögreglustjórana á vettvangi lögregluráðs. Svör lögreglustjóranna hafi borist og séu nú til skoðunar í ráðuneytinu.

Í ljósi þess að málið er nú til umfjöllunar á vettvangi dómsmálaráðuneytisins tel ég ekki tilefni til að halda athugun þess áfram að svo stöddu. Áfram verður þó fylgst með málinu af hálfu embættisins og hver niðurstaða athugunar ráðuneytisins verður. Er þess því óskað að dómsmálaráðuneytið upplýsi umboðsmann um hana þegar hún liggur fyrir. Dragist athugun ráðuneytisins er þess óskað að umboðsmaður verði upplýstur um framvindu málsins eigi síðar en 2. maí nk.

Með vísan til alls ofangreinds er athugun umboðsmanns á málinu lokið að svo stöddu.