Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 12081/2023)

Kvartað var yfir reglum sveitarfélags um starfslok starfsmanna þess, nánar tiltekið að þeir þurfi að hætta störfum á 70 ára afmælisári.  

Þar sem málið hafði ekki verið borið undir önnur þar til bær stjórnvöld voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. mars 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 7. mars sl. yfir reglum [sveitarfélagsins] X um starfslok starfsmanna sveitarfélagsins. Kvörtun yðar lýtur nánar tiltekið að því skilyrði að starfsmenn sveitarfélagsins sem fylli 70 ár hætti störfum á afmælisári. Fyrir liggur að þér starfið sem skólabílstjóri fyrir sveitarfélagið sem verktaki og samningi við fyrirtæki yðar hafi verið sagt upp frá 1. júní nk.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að æðra stjórnvaldi sé gefið færi á að fjalla um mál og taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum sem það hefur áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar. Það á einnig við í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Í ljósi framan­greinds bendi ég á að eftirlit af hálfu ríkisins með fram­kvæmd sveitarfélaga á málefnum grunnskóla og námi í grunnskólum er annars vegar á hendi innviðaráðuneytisins sem ráðuneytis sveitar­stjórnar­mála og hins vegar á hendi mennta- og barnamálaráðuneytisins sem ráðuneytis menntamála.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, sbr. b-lið 2. tölulið 10. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fer mennta- og barnamálaráðherra með yfirstjórn mála er varða grunnskóla og þeirra mála sem lög nr. 91/2008 taka til. Um skólaakstur er fjallað í 22. gr. þeirra laga. Þar segir í 1. og 2. málslið að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi skólaaksturs þar sem hann á við og standi straum af kostnaðinum. Ráðherra setji nánari reglur um tilhögun skólaaksturs í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Mennta- og barnamálaráðherra hefur m.a. eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um, sbr. 2. málslið 4. gr. laganna.

Þá er í XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 fjallað um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum. Þar segir í 1. málslið 1. mgr. 109. gr. laganna að innviðaráðherra hafi eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum. Í 111. gr. laganna er gert ráð fyrir að unnt sé að kæra svo­kallaðar stjórnvaldsákvarðanir til ráðuneytisins. Þá hefur ráðu­neytið einnig frumkvæðisheimildir vegna ákvarðana og athafna sveitar­félags þegar mál eru ekki tæk til sérstakrar kærumeðferðar en í fyrri málslið 1. mgr. 112. gr. laganna kemur fram að ráðuneytið ákveði sjálft hvort tilefni sé til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórn­sýslu sveitarfélags sem lýtur eftirliti þess samkvæmt 109. gr. laganna.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið leitað til framangreindra stjórnvalda með erindi. Með hliðsjón af því tel ég rétt að þér leitið fyrst til mennta- og barnamálaráðuneytisins í ljósi þess að það fer með yfirstjórn á málefnasviðinu þannig að ráðuneytið, eftir atvikum í samráði við innviðaráðuneytið, fái tækifæri til að taka afstöðu til máls yðar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar þér teljið yður enn beitta rangsleitni er yður fært að leita til mín á ný innan árs frá því er lyktir máls liggja fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.