Skattar og gjöld.

(Mál nr. 12082/2023)

Óskað var eftir áliti umboðsmanns á því hvort álagning svonefnds úrvinnslugjalds á nýjar bifreiðar stæðist 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.  

Í samtali við starfsmann umboðsmanns kom fram að kvörtunin lyti í grunninn að því að viðkomandi hefði verið gert að greiða gjaldið vegna nýskráðrar bifreiðar. Þar sem ekki hafði verið leitað til ríkisskattstjóra og eftir atvikum yfirskattanefndar vegna álagningarinnar voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður tæki málið til nánari skoðunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. mars 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 7. mars sl., þar sem óskað er eftir áliti umboðsmanns Alþingis á því hvort álagning svonefnds úrvinnslugjalds á nýjar bifreiðar standist 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Engin gögn fylgdu kvörtun yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar hafði starfsmaður umboðsmanns samband við yður símleiðis 17. mars sl. þar sem fram kom að kvörtun yðar lyti í grunninn að því að yður hafi verið gert að greiða téð gjald vegna nýskráðrar bifreiðar í yðar eigu.

Af því tilefni tek ég fram álagning úrvinnslugjalds ræðst af lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, en í 6. gr. laganna er kveðið á um að við nýskráningu ökutækis skuli úrvinnslugjald að fjárhæð 15.000 kr. lagt á hvert gjaldskylt ökutæki skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Þá er í 2. mgr. 3. gr. sömu laga fjallað um til hvaða verkefna úrvinnslugjald skuli renna. Í 13. gr. laganna er fjallað um kæruheimild og kærufrest en þar segir að heimilt sé að kæra álagningu gjalds til ríkisskattstjóra innan 60 daga frá gjalddaga gjaldsins vegna innlendrar framleiðslu en tollafgreiðsludegi ef um innflutning sé að ræða. Þá segir að kæru skuli fylgja skriflegur rökstuðningur. Innsend fullnægjandi skýrsla vegna innlendrar framleiðslu skuli tekin sem kæra þegar um sé að ræða áætlanir skv. 12. gr. Ríkisskattstjóri skuli kveða upp skriflegan rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hana í ábyrgðarbréfi innan 30 daga frá lokum gagnaöflunar. Í 3. mgr. 13. gr. er kveðið á um heimild gjaldsskylds aðila til að skjóta úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar.

Ástæða þess að þetta er rakið hér er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Þar sem fyrir liggur að þér hafið ekki leitað til ríkisskattstjóra og eftir atvikum yfirskattanefndar vegna framangreindrar álagningar eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég taki hana til nánari skoðunar að svo stöddu.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér leitið til framangreindra stjórnvalda og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þeirra, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.