Sveitarfélög.

(Mál nr. 12098/20233)

Kvartað var annars vegar yfir því að Hvalfjarðarsveit hefði hætt við ráðningu í starf og þess í stað ráðið tímabundið í það. Hins vegarvar kvartað yfir viðbrögðum innviðaráðuneytisins í tilefni af stjórnsýslukæru vegna málsins. 

Þar sem kvörtunin vegna ráðningarinnar barst umboðsmanni ekki innan þess ársfrests sem áskilinn er í lögum voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um hana. Þá taldi hann ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að vísa málinu frá á þeim forsendum að ákvörðun sveitarfélagsins hefði ekki verið kæranleg til þess.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 21. mars 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 15. mars sl. sem beinist að sveitarfélaginu Hvalfjarðarsveit og innviðaráðuneytinu. Lýtur kvörtunin að þeirri ákvörðun sveitarfélagsins 24. ágúst 2021 að falla frá ráðningu í starf félagsmálastjóra og ráða í stað þess tímabundið í sama starf og viðbrögðum innviðaráðuneytisins í tilefni af stjórnsýslukæru yðar vegna ákvörðunarinnar.

Áður en lengra er haldið tel ég rétt að taka fram að athugun mín í tilefni af kvörtun yðar hefur afmarkast við þær athafnir stjórn­valda sem falla innan þess ársfrests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Athugun mín á málinu hefur því ekki beinst sjálfstætt að ákvörðun sveitarfélagsins um að falla frá ráðningu í starf félagsmálastjóra 24. ágúst 2021 enda barst kvörtun yðar til umboðsmanns  15. mars sl. og þar með nokkuð utan téðs ársfrests.  Í samræmi við þetta hefur athugun mín beinst að úrskurði innviðaráðuneytisins 22. mars 2022.

Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni kærðuð þér ákvörðun sveitarfélagsins til innviðaráðuneytisins 20. desember 2021. Ráðuneytið vísaði málinu frá 22. mars 2022 með vísan til þess að það félli utan eftirlitshlutverks þess að fjalla um ákvarðanir sveitarfélaga í starfsmannamálum, sbr. 2. málslið 2. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. 

Um eftirlit með starfsemi sveitarfélaga er fjallað í XI. kafla sveitar­stjórnarlaga. Fram kemur í 1. mgr. 109. gr. að innviðaráðherra hafi eftirlit með því að sveitar­­félög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Í 2. mgr. 109. gr. er tekið fram að til­teknir þættir í stjórnsýslu sveitarfélaga séu undanskildir stjórn­sýslu­­eftirliti ráðherra. Eru ákvarðanir sveitarfélaga í starfsmanna­málum þar á meðal. Kæra yðar til ráðuneytisins beindist sem fyrr segir að ákvörðun sveitarfélagsins um að falla frá ráðningu í auglýst starf og laut því að málefnum starfsmanna sveitarfélagsins.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að ákvörðun sveitarfélagsins hafi ekki verið kæranleg til þess samkvæmt ákvæðum XI. kafla sveitarstjórnarlaga. Af því leiðir að ég geri ekki athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að vísa frá stjórnsýslukæru yðar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég hér með athugun minni vegna kvörtunar yðar.