Sektir.

(Mál nr. 12089/2023)

Kvartað var yfir tilmælum stöðuvarðar Reykjavíkurborgar, um að sendibifreið skyldi færð úr bifreiðastæði við Laugaveg, sem hefðu bakað viðkomandi fjárhagstjón. 

Ekki varð ráðið að leyfi hefði verið aflað til að leggja bifreiðinni eins og gert var. Þegar litið væri til þess hlutverks sem stöðuverðir gegni samkvæmt lögum taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um athugasemdir viðkomandi.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 21. mars 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 9. mars sl. en af henni verður ráðið að hún beinist að tilmælum stöðuvarðar Reykjavíkurborgar 7. júlí sl. um að sendibifreið, sem þér höfðuð pantað til að flytjast búferlaflutningum, skyldi færð úr bifreiðastæði við Laugaveg. Teljið þér að tilmæli stöðuvarðarins hafi bakað yður fjárhagslegt tjón þar sem þér fenguð ekki nýtt yður bifreiðina til flutninganna en þurftuð allt að einu að greiða að hluta gjald fyrir þjónustuna.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu.

Af kvörtun yðar og þeim gögnum sem henni fylgdu er ljóst að þér hafið leitað til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og Bílastæðasjóðs með athugasemdir yðar og farið fram á að yður verði bætt það fjárhagslega tjón sem þér tölduð yður hafa orðið fyrir. Þeim umleitunum mun hafa verið hafnað, nú síðast með bréfi Reykjavíkurborgar til yðar 24. nóvember sl.

Í umferðarlögum nr. 77/2019 er fjallað um lagningu og stöðvun ökutækja, þar með talið á göngugötum. Í 10. gr. laganna er fjallað um göngugötur og meðal annars almennt bann við umferð vélknúinna ökutækja um þær með tilgreindum undantekningum, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 17. gr. laganna. Í 2. mgr. 10. gr. segir að veghaldara sé heimilt að veita íbúum og rekstraraðilum við göngugötu leyfi til aksturs vélknúinna ökutækja um göngugötuna, til og frá lóð heimilis þeirra eða eftir atvikum lóð fyrirtækis þeirra, hvort heldur almennt eða í einstökum tilvikum. Sama á við um íbúa og rekstraraðila nærliggjandi gatna þegar aðgengi að bifreiðastæðum þeirra er frá göngugötu og önnur leið að þeim er ekki fær. Sams konar bann við stöðvun og lagningu skráningarskyldra ökutækja getur að líta í 3. mgr. 28. gr. laganna en þar eru göngugötur tilgreindar sem eitt þeirra svæða þar sem almennt má eigi stöðva skráningarskylt ökutæki eða leggja því. Af kvörtun yðar og þeim gögnum, sem henni fylgdu, verður ráðið að ökumaður sendibifreiðarinnar hafi lagt henni fyrir framan hús nr. [...] við Laugaveg en sá vegarkafli telst göngugata, sbr. auglýsingu nr. 871/2021, um umferð í Reykjavík.

Í 109. gr. umferðarlaga er gert ráð fyrir því að stöðuverðir geti annast álagningu gjalds fyrir tilgreind brot á umferðarlögum, t.d. brot gegn 3. mgr. 28. gr. laganna. Er stöðuvörðum þannig falið það hlutverk með lögum að hafa, á tilteknum svæðum, eftirlit með lagningu og stöðvun ökutækja, sem ekki samrýmist tilgreindum ákvæðum umferðarlaga.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið aflað leyfis veghaldara umrætt sinn, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 77/2019. Þegar litið er til þess hlutverks sem stöðuverðir gegna lögum samkvæmt tel ég þar af leiðandi ekki tilefni til að fjalla frekar um athugasemdir yðar við tilmæli stöðuvarðar Reykjavíkurborgar eins og þeim var lýst í kvörtun yðar.     Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.