Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 12096/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að samþykkja nýtt aðalskipulag og úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem kæru tiltekinna landeigenda vegna ákvörðunarinnar var vísað frá. 

Fyrir lá að Skipulagsstofnun hafði staðfest aðalskipulag sveitarfélagsins og það birt í B-deild Stjórnartíðinda. Að þessu gættu og m.t.t. gagna málsins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar að vísa kæru eigendanna frá. Þá lá einnig fyrir að gerðar voru athugasemdir við hverfisvernd á kynningartíma skipulagsins sem voru gerð skil í samantekt sem var unnin á umsögnum og athugasemdum sem bárust. Sveitarfélagið veitti jafnframt nánari skýringar í kjölfar beiðni landeigenda þar um. Í ljósi þess svigrúms sem umboðsmaður taldi að játa yrði sveitarfélögum við mat á þörf á því að mæla fyrir um hverfisvernd í skipulagi taldi hann ekki tilefni til að taka kvörtunina að þessu leyti til nánari athugunar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. mars 2023.

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 14. mars sl. sem beinist annars vegar að ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 15. júní 2022 um að samþykkja nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið og hins vegar úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 23. febrúar sl. í máli nr. 17/2023 þar sem kæru eigenda landareignarinnar X vegna ákvörðunarinnar vísað frá með vísan til 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kvörtuninni eru m.a. gerðar athugasemdir við frávísun nefndarinnar og túlkun svo og beitingu sveitarfélagsins á ákvæðum skipulagslaga um hverfisvernd.

   

II

Í stjórnsýslukæru eigenda X var þess krafist að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti ákvörðun sveitarfélagsins um að samþykkja nýtt aðalskipulag að því leyti sem mælt væri fyrir um hverfisvernd sem næði inn í land X.

Um aðalskipulag og gerð þess er fjallað í VII. kafla skipulagslaga. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laganna er í aðalskipulagi sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Í 2. mgr. sömu greinar segir að í aðalskipulagi sé lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi m.a. landnotkun og takmarkanir á henni. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í 2. málslið málsgreinarinnar segir þó að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber samkvæmt lögunum að staðfesta sæti ekki kæru til nefndarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laganna skal sveitarstjórn, þegar hún hefur samþykkt tillögu að aðalskipulagi, senda Skipulags-stofnun tillöguna, ásamt athugasemdum og umsögn sveitarfélagsins um þær. Skipulagsstofnun skal innan fjögurra vikna staðfesta tillöguna og auglýsa hana í B-deild Stjórnartíðinda og tekur aðalskipulag við það gildi, s.s. greinir í 4. mgr. 32. gr.

Fyrir liggur að Skipulagsstofnun staðfesti aðalskipulag sveitarfélagsins 13. desember 2022 og var það birt í B-deild Stjórnar-tíðinda 29. sama mánaðar. Að þessu gættu, og eftir að hafa kynnt mér úrskurð nefndarinnar og þau gögn sem fylgdu kvörtun yðar, tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að vísa frá kæru eigenda X.

  

III

Hvað snertir athugasemdir yðar við stjórnsýslu sveitarfélagsins við gerð téðs aðalskipulags tek ég fram að í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu.

Í IV. kafla skipulagslaga er fjallað um gerð og framkvæmd skipulagsáætlana. Í 12. gr. er mælt fyrir um skipulagsskyldu sveitarfélaga sem nær til lands og hafs innan marka þeirra líkt og greinir í 1. mgr. greinarinnar. Í skipulagsáætlunum er mörkuð stefna um landnotkun og byggðaþróun, sbr. 2. mgr. 12. gr. Þá segir í 6. mgr. greinarinnar að sé talin þörf á að vernda m.a. náttúruminjar, náttúrufar eða gróður vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis við gerð skipulagsáætlunar, án þess að um friðun sé að ræða samkvæmt öðrum lögum, skuli setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um hverfisvernd.

Samkvæmt 10. tölulið 2. gr. skipulagslaga er með hverfisvernd átt við ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar, annarra menningarsögulegra minja eða náttúruminja. Er ljóst að með þessu hefur löggjafinn fengið sveitarfélögum heimild til að mæla fyrir um slíka vernd í skipulagsáætlun. Verður að telja að nauðsyn slíkrar verndar sé háð mati sveitarstjórnar á þörf á því að vernda m.a. náttúrufar og gróður á viðkomandi svæði og hafi sveitarstjórn við það mat nokkurt svigrúm.

Í málinu liggur fyrir að gerðar voru athugasemdir við hverfisverndina á kynningartíma skipulagsins sem voru gerð skil í samantekt sem var unnin á umsögnum og athugasemdum sem bárust. Þá veitti sveitarfélagið jafnframt nánari skýringar í kjölfar beiðni landeigenda X þar um. Í ljósi þess svigrúms sem ég tel að verði að játa sveitarfélögum við mat á þörf á því að mæla fyrir um hverfisvernd í skipulagi tel ég ekki tilefni til að taka kvörtunina að þessu leyti til nánari athugunar.

    

IV

Lýk ég því umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.