Dómstólar og réttarfar.

(Mál nr. 12103/2023)

Óskað var eftir að umboðsmaður tæki mál til skoðunar þar sem Endurupptökudómur hefði ekki fallist á beiðni um endurupptöku. 

Þar sem starfssvið  umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um erindið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. mars 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 21. mars sl. þar sem þér óskið eftir því að umboðsmaður Alþingis taki mál yðar til skoðunar, en þér afplánið nú refsivist samkvæmt dómi. Í kvörtuninni kemur m.a. fram að Endurupptökudómur hafi ekki fallist á beiðni um endurupptöku máls yðar og fylgdi afrit af úrskurði dómstólsins kvörtuninni.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.

Í lögum nr. 85/1997 er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svara almennum lögspurningum.  Líkt og yður var greint frá í bréfi umboðsmanns Alþingis 29. september sl. í máli nr. 11860/2022 tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla, sbr. b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Það fellur því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um niðurstöðu dómstóla í einstökum málum sem fyrir þá hafa verið lögð. Þar sem ráðið verður af kvörtun yðar að hún lúti fyrst og fremst að mati dómstóla á atvikum sem fyrir þá hafa verið lögð en ekki athöfnum stjórnvalda sem beint hefur verið að yður eru samkvæmt framangreindu ekki uppfyllt skilyrði að lögum til að taka kvörtun yðar til frekari umfjöllunar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.