Fjármála- og tryggingastarfsemi.

(Mál nr. 12107/2023)

Kvartað var yfir ákvörðunum Seðlabanka Íslands um hækkun stýrivaxta sem hefði í för með sér afturvirka hækkun vaxta á þegar umsamin lán. Athafnir bankans kynnu að brjóta gegn stjórnarskrá, meginreglum íslensks réttarfars og ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.  

Þar sem ákvörðun bankans snerti ekki beinlínis hagsmuni viðkomandi umfram aðra og líta varð á kvörtunina sem almenna fyrirspurn um tiltekið málefni voru ekki skilyrði til að taka hana til frekari meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. mars 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 21. mars sl. þar sem þér komið á framfæri athugasemdum við ákvarðanir Seðlabanka Íslands um hækkun stýrivaxta sem hafi í för með sér afturvirka hækkun vaxta á þegar umsamin lán. Teljið þér athafnir Seðlabankans að þessu leyti kunna að brjóta gegn stjórnarskrá, meginreglum íslensks réttarfars og ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.

Um störf umboðsmanns Alþingis gilda samnefnd lög nr. 85/1997. Samkvæmt 2. gr. laganna er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalds kvartað af því tilefni til umboðsmanns Alþingis. Í þessu ákvæði felst að almennt verður ekki kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin snerti tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds, sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum um tiltekin málefni eða réttarsvið án þess að um tiltekna athöfn sé að ræða.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún beinist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds er snertir hagsmuni yðar umfram aðra. Verður að líta á kvörtun yðar sem almenna fyrirspurn um tiltekið málefni og eru þar af leiðandi ekki uppfyllt skilyrði til að hún verði tekin til frekari meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.