Fjármála- og tryggingastarfsemi.

(Mál nr. 12111/2023)

Kvartað var yfir fyrirhugaðri sameiningu Íslandsbanka hf. og Kviku banka hf.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til einkaaðila af þessum toga voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. mars 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 23. mars sl. yfir fyrirhugaðri sameiningu Íslandsbanka hf. og Kviku banka hf.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Íslandsbanki hf. er einkaaðili sem komið er á fót með stofnsamningi samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Starfsemi félagsins á fjármálamarkaði felur ekki í sér beitingu opinbers valds í framangreindri merkingu. Af þeim sökum og þar sem annað á ekki við um kvörtunarefni yðar fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar. Eignarhald ríkisins á hlutabréfum í bankanum hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu.

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er umfjöllun minni um erindi yðar lokið.