Heilbrigðismál.

(Mál nr. F107/2021)

Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðherra vegna breytinga sem gerðar voru á reglugerð um sóttkví, einangrun og sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands vegna COVID-19.  

Breytingarnar fólu í sér rýmkun á skilyrðum sóttkvíar þeirra sem bólusettir voru gegn COVID-19 með þremur skömmtum af bóluefni sem gefnir voru a.m.k. 14 dögum fyrir útsetningu smits.  Tilefni athugunarinnar var að þeir sem upphaflega voru bólusettir með bóluefni Janssen, sem gefið er með einum skammti í stað tveggja, og þegið höfðu einn örvunarskammt, virtust ekki falla undir rýmkunina. Með grunnreglur íslensks réttar um jafnræði og meðalhóf í huga og þær kröfur sem gera verður á þeim grundvelli til setningar stjórnvaldsfyrirmæla með heimild í sóttvarnalögum, var óskað eftir upplýsingum um hvort til hefði staðið að gera greinarmun eftir bóluefnum. Eins og málið lá fyrir í kjölfar skýringa ráðuneytisins og í ljósi þess að það er takmörkunum háð að hvaða marki umboðsmaður getur tekið efnislega afstöðu til sérfræðilegs mat stjórnvalda þóttu ekki forsendur fyrir frekari athugun hans. 

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar 2022.

  

   

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns hefur lokið athugun sinni á breytingum sem gerðar voru á reglugerð nr. 1240/2021, um sóttkví og einangrun og sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands vegna COVID-19, með reglugerð nr. 3/2022, og fela í sér í rýmkun á skilyrðum sóttkvíar þeirra sem bólusettir eru gegn Covid-19 með þremur skömmtum af bóluefni sem gefnir voru a.m.k. 14 dögum fyrir útsetningu smits.

Tilefni athugunarinnar var að þeir sem upphaflega voru bólusettir með bóluefni Janssen, sem gefið er með einum skammti í stað tveggja, og þegið höfðu einn örvunarskammt, virtust ekki falla undir framangreinda rýmkun. Af þessu tilefni var heilbrigðisráðherra ritað bréf 10. janúar sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort til hefði staðið að gera greinar­mun á framkvæmd sóttkvíar bólusettra eftir bóluefnum og þá hvaða gögn eða aðrar upplýsingar hefðu legið til grundvallar slíku mati ráð­herra. Voru þá einkum hafðar í huga grunnreglur íslensks réttar um jafn­ræði og meðalhóf og þær kröfur sem gera verður á þeim grundvelli til setningar stjórnvaldsfyrirmæla með heimild í sóttvarnarlögum nr. 19/1997, eins og þeim lögum hefur síðar verið breytt.

Í svari heilbrigðisráðuneytisins 12. janúar sl. eru tekin af tvímæli um að til hafi staðið að miða rýmkaðar reglur um sóttkví við fjölda skammta, þ.e. þrjá, en ekki við svonefndan örvunarskammt, þ.e. einn skammt umfram grunnbólusetningu. Vísar ráðuneytið til afstöðu sótt­varna­læknis þess efnis að með tilkomu afbrigða veirunnar með mun meiri smithæfni, svo sem delta og ómíkron, hafi komið í ljós að bóluefni Janssen standi ekki jafnfætis tveggja skammta bóluefnum til að draga úr smitum eða alvarlegum veikindum. Þannig hafi smittíðni einstaklinga sem bólusettir voru með bóluefni Janssen verið um þreföld í júlí sl. miðað við smittíðni einstaklinga með tvær bólusetningar. Er þannig vísað til þess að ákvörðun um að miða rýmkaða sóttkví við fjölda skammta hafi byggst á nýjustu læknisfræðilegu þekkingu á Covid-19 og þeim bóluefnum sem notuð hafi verið gegn sjúkdómnum. Ákvæði 5. gr. a. reglugerðarinnar taki því að þessu leyti mið af því hversu vel ætla megi að menn séu varðir gegn Covid-19 í reynd en ekki endilega hvort markaðsleyfi bóluefnis miði grunnbólusetningu við einn eða tvo skammta.

Það er takmörkunum háð að hvaða marki umboðsmaður Alþingis getur tekið efnislega afstöðu til sérfræðilegs mat stjórnvalda, svo sem það sem vísað er til í fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins. Eins og málið liggur fyrir eru þar af leiðandi ekki forsendur fyrir embættið til frekari athugunar á téðum ákvæðum reglugerðar nr. 1240/2021 um rýmkaða sóttkví þríbólusettra. Umboðsmaður mun þó áfram fylgjast með þessum málum, þ.á m. með hliðsjón af þeim kvörtunum og ábendingum sem kunna að berast, og taka til athugunar ef ástæðu er til.

Svar heilbrigðisráðuneytis við fyrirspurn umboðsmanns