Heilbrigðismál.

(Mál nr. F114/2022)

Í kjölfar ábendingar um vinnureglu á deild 33A á Landspítala þess efnis að sjúklingar sem væru nauðungarvistaðir þar í allt að þrjár vikur án möguleika á útivist óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum og skýringum frá spítalanum.

Í svari spítalans kom m.a. fram að ákveðið hefði verið að skoða verklagið. ljósi þess og þeirrar vinnu sem áformuð var taldi umboðsmaður ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu. Áfram yrði þó fylgst með og þess óskað að Landspítali upplýsti umboðsmann þegar þeirri vinnu sem lýst var í svörum spítalans yrði lokið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. maí 2022.

  

  

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur lokið athugun sinni á framkvæmd og fyrirkomulagi útivistar nauðungarvistaðra sjúklinga á deild 33A á Landspítala.

Tilefni athugunarinnar var ábending sem embættinu barst þess efnis að á téðri deild væri þeirri vinnureglu fylgt að sjúklingar sem þar væru nauðungarvistaðir í allt að 21 sólarhring á grundvelli 29. gr. lög­ræðislaga nr. 71/1997 hefðu ekki möguleika á útivist á meðan á vistuninni stæði. Hins vegar væri breyting gerð á að liðnum 21 sólarhring ef til framlengingar á vistuninni kæmi með úrskurði dómara samkvæmt 29. gr. a. laga nr. 71/1997. Af þessu tilefni var Landspítala ritað bréf 5. maí sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort og þá með hvaða hætti væri tryggt að boðið væri upp á útiveru á meðan á nauðungarvistun í 21 sólarhring, skv. 29. gr. laga nr. 71/1997 stæði. Ef fyrir lægju verk­lags­reglur varðandi framkvæmd útiveru nauðungarvistaðra var óskað eftir afriti af þeim.

Í svari Landspítala 20. maí sl. kemur fram að sjúklingar í geðþjónustu Landspítala, þar á meðal á meðferðargeðdeild geðrofssjúkdóma 33A, sem eru nauðungarvistaðir í allt að 72 klst. eða í 21 dag samkvæmt úrskurði sýslumanns hafi aðgang að innangengnum en lokuðum garði innan geðþjónustunnar á daginn og á kvöldin en þó ekki að næturlagi. Sjúklingar fari í garðinn í fylgd starfsmanns. Í svarinu kemur einnig fram að ekki liggi fyrir gæðaskjöl varðandi framkvæmd nauðungarvistaðra. Loks segir í svarinu að í kjölfar yfirlæknafundar sem fram fór 11. maí sl. hafi verið ákveðið að skoða verklag frekar varðandi útiveru nauðungarvistaðra einstaklinga í geðþjónustunni og sé sú vinna í gangi.

Í ljósi þess sem fram kemur um í svari Landspítala um þá vinnu sem áformuð er tel ég ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu. Áfram verður þó fylgst með málinu af hálfu embættisins. Loks er þess óskað að Landspítali upplýsi umboðsmann þegar þeirri vinnu sem lýst er í svörum spítalans er lokið.