Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. F121/2022)

Í tilefni fréttar þar sem greint var frá hnökrum við framkvæmd á nýju rafrænu skotvopnakerfi lögreglu spurðist  umboðsmaður fyrir um málið hjá ríkislögreglustjóra.  

Óskað var eftir upplýsingum hvort rétt væri að ekki væri tekið við umsóknum um skotvopnaleyfi nema á rafrænu formi og þá hvort og hvernig það kerfi hefði verið prófað áður en það var tekið í notkun. Í svari ríkislögreglustjóra kom fram að umsækjendur gætu snúið sér til lögregluembætta í heimabyggð og að unnt væri að fá útgefið bréflegt skírteini á lögreglustöðvum. Upplýsingar sem umboðsmaður vísaði til hefðu verið leiðréttar og beðist velvirðingar á þeim misskilningi sem þær kynnu að hafa valdið. Ekki var því tilefni til að halda athuguninni áfram.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. desember 2022.

  

   

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur lokið athugun sinni á fyrirkomulagi umsókna um skotvopnaleyfi.

Tilefni athugunarinnar var frétt sem birtist í Morgunblaðinu 29. október sl. þar sem greint var frá hnökrum við framkvæmd á nýju rafrænu skotvopnakerfi lögreglu. Í fréttinni var einnig vísað til þess að á vef lögreglunnar kæmi fram að ekki væri tekið við umsóknum um skotvopnaleyfi eða leyfi til að eignast skotvopn nema á rafrænu formi.

Af þessu tilefni var ríkislögreglustjóra ritað bréf 2. nóvember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort rétt væri að ekki væri tekið við umsóknum af framangreindu tagi nema þær væru á rafrænu formi. Jafnframt var óskað upplýsinga um hvort og þá með hvaða hætti hið rafræna umsóknakerfi hefði verið prófað áður en það var tekið í notkun.

Í svarbréfi ríkislögreglustjóra 28. nóvember sl. kemur fram að nýtt skotvopnakerfi, sem tekið var í notkun á síðari hluta þessa árs, geri mönnum kleift að sækja um skotvopnaleyfi með rafrænum hætti ásamt því að fá útgefið rafrænt skírteini. Þá kemur fram að umsækjendur séu hvattir til þess, hafi þeir tök á, að sækja um með rafrænum hætti en að öðrum kosti geti þeir snúið sér til lögregluembættis í heimabyggð viðkomandi. Einnig er tekið fram að unnt sé að fá útgefið bréflegt skírteini á lögreglustöðvum. Að lokum er upplýst að fyrrnefndar upplýsingar á vefsíðu lögreglunnar hafi verið leiðréttar og beðist velvirðingar á þeim misskilningi sem þær kynnu að hafa valdið.

Í bréfi ríkislögreglustjóra er jafnframt gerð grein fyrir prófunum á hinu rafræna skotvopnakerfi svo og þeim hnökrum sem í ljós komu á fyrstu vikum notkunar þess þrátt fyrir prófanirnar. Áréttað er að á þeim tíma sem afgreiðsla rafrænna umsókna tafðist af þessum sökum hafi þó verið unnt að leggja inn skriflegar umsóknir. Tekið er fram að engin vandkvæði séu nú með kerfið. 

Í ljósi framangreindra upplýsinga ríkislögreglustjóra um fyrirkomulag umsókna um skotvopnaleyfi að undanförnu tel ég ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram.