Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. F103/2021)

Í kjölfar kvörtunar vegna framkvæmdar mennta- og barnamálaráðuneytisins á greiðslu launa við embættislok rektora var óskað eftir upplýsingum og skýringum.

Í ljósi skýringa ráðuneytisins og að ekki varð annað ráðið en það myndi framvegis haga afgreiðslu beiðna um greiðslur við embættislok í samræmi við lög, taldi umboðsmaður ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu. Áfram yrði þó fylgst með og málefnin möguleg tekin til frekari athugunar ef tilefni yrði til.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. febrúar 2022.

   

   

I

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur lokið athugun sinni á framkvæmd ráðuneytisins á greiðslu launa við embættislok rektora samkvæmt 35. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Tilefni athugunarinnar var sem kunnugt er kvörtun frá nafngreindum manni sem laut að synjun mennta- og menningarmálaráðuneytisins við beiðni hans um greiðslu launa við embættislok sem rektor framhaldsskóla samkvæmt 35. gr. laga nr. 70/1996. Umboðsmaður lauk athugun sinni á kvörtuninni á grundvelli 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis þar sem hann taldi ekki tilefni til gera athugasemdir við að ráðuneytið hefði hafnað beiðni hans um endurupptöku málsins enda ekki leitt í ljós að afgreiðsla þess væri haldin verulegum efnislegum annmarka. Í kvörtuninni var athygli umboðsmanns hins vegar vakin á því að aðrir rektorar, sem fengið hefðu lausn frá embætti á grundvelli 37. gr. laga nr. 70/1996, hefðu eftir að skipunartími þeirra rann út, fengið greiðslur á grundvelli 35. gr. laganna í allt að sex mánuði.

Á þessum grundvelli ákvað embætti umboðsmanns með bréfi 2. júlí 2021 til mennta- og menningarmálaráðherra að óska frekari upplýsinga um framkvæmd ráðuneytisins að þessu leyti. Í bréfinu var óskað upplýsinga um hvort aðrir rektorar sem óskað hefðu eftir lausn frá embætti síðastliðin fimm ár, hefðu fengið greiðslur á grundvelli 35. gr. laganna eftir að skipunartími þeirra rann út. Hefðu aðrir rektorar hlotið slíkar greiðslur var óskað upplýsinga um hverjir það voru og skýringa á því hvaða forsendur og lagasjónarmið bjuggu þar að baki.

  

II

Í svari ráðuneytisins 21. september sl. við fyrrgreindri fyrirspurn umboðsmanns kom fram að þrír skólameistarar sem óskað hefðu eftir lausn frá embætti hefðu fengið greiðslur á grundvelli 35. gr. laga nr. 70/1996 eftir að skipunartími þeirra rann út. Ekki væri hins vegar ljóst hvaða forsendur hefðu legið þeim ákvörðunum til grundvallar. Í bréfinu er þeirri afstöðu ráðuneytisins lýst að ákvæði 1. mgr. 35. gr. eigi eingöngu við í þeim tilvikum þegar skipun embættismanns, sem skipaður hefur verið í embætti á grundvelli 23. gr. laganna er ekki skipaður að nýju í embættið á þeim grundvelli að veitingarvaldshafi ákveður að auglýsa embættið á ný. Þannig sé það mat ráðuneytisins að embættismaður sem óskar lausnar á grundvelli 37. gr. laganna geti ekki átt rétt til greiðslna samkvæmt 1. mgr. 35. gr. Í svari ráðuneytisins er jafnframt vísað til þess að aflað hafi verið álits kjara- og mannauðssýslu ríkisins í febrúar 2020 þar sem fallist hafi verið á framangreinda túlkun ráðuneytisins á 1. mgr. 35. gr. laga nr. 70/1996.

Í ljósi þess sem fram kom í svörum ráðuneytisins um ráðgjöf kjara- og mannauðssýslu ríkisins til þess var kjara- og mannauðssýslu ríkisins ritað bréf, dags. 4. febrúar 2022, þar sem m.a. var óskað upplýsinga um hvort það væri almenn afstaða stofnunarinnar að embættismenn sem óskað hefðu eftir lausn frá embætti á grundvelli 37. gr. laga nr. 70/1996 ættu ekki rétt til greiðslna á grundvelli 35. gr. laganna. Enn fremur var óskað eftir að umboðsmanni yrði afhent afrit af umræddri ráðgjöf stofnunarinnar til ráðuneytisins frá febrúar 2020. Þá var einnig óskað upplýsinga um hvort stofnuninni væri kunnugt um dæmi þess að embættismenn sem óskað hefðu eftir lausn frá embætti síðastliðin fimm ár, hefðu fengið greiðslur á grundvelli 35. gr. laganna eftir að skipunartími þeirra rann út.

Í svari kjara- og mannauðssýslu ríkisins var þeirri almennu afstöðu lýst að ákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 70/1996 ætti eingöngu við í þeim tilvikum þegar veitingarvaldshafi ákveður að auglýsa embætti laust til umsóknar, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 70/1996 en ekki í þeim tilvikum þegar embættismaður sjálfur óskar lausnar. Meðfylgandi svarinu var bréf stofnunarinnar til ráðuneytisins vegna umrædds máls, dags. 5. mars 2021, þar sem sömu afstöðu er lýst.

  

III

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það m.a. hlutverk umboðsmanns að gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í jafnræðisreglum stjórnsýsluréttarins felst að gæta skuli sam­ræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í jafnræðisreglum felst aftur á móti almennt ekki að réttur skapist til handa ein­staklingum eða lögaðilum til að fá tiltekna afgreiðslu mála sinna í andstöðu við lög þótt önnur mál hafi hlotið slíka afgreiðslu. Með hliðsjón af framangreindu beindist athugun umboðsmanns að því hvort afgreiðsla ráðuneytisins á beiðnum rektora, sem beðist hafa lausnar, um greiðslur við embættislok væri almennt í samræmi við 35. gr. laga nr. 70/1996 og jafnframt hvort gætt væri samræmis og jafnræðis við meðferð slíkra beiðna þannig að sambærileg tilvik hljóti almennt sömu afgreiðslu í samræmi við lög.

Í svari ráðuneytisins var sem fyrr segir þeirri almennu afstöðu lýst að réttur til greiðslna samkvæmt 1. mgr. 35. gr. eigi eingöngu við í þeim tilvikum þegar skipun embættismanns, sem skipaður hefur verið í embætti á grundvelli 23. gr. laganna er ekki skipaður að nýju í embættið á þeim grundvelli að veitingarvaldshafi ákveður að auglýsa embættið á ný en ekki í þeim tilvikum þegar embættismaðurinn sjálfur biðst lausnar, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna. Þessi afstaða er jafnframt í samræmi við þann skilning sem umboðsmaður Alþingis lagði í orðalag ákvæðis 1. mgr. 35. gr. laganna í því máli sem varð tilefni athugunar þessara, sbr. lokabréf hans í máli nr. 11097/2021. Tekið skal fram að þó að í svörum ráðuneytisins komi fram að dæmi séu um að aðrir rektorar sem beðist hafi lausnar hafi fengið slíkar greiðslur, að því er virðist í andstöðu við þann almenna skilning sem ráðuneytið leggur í ákvæðið, þá verður ekki framhjá því litið að í svari ráðuneytisins er beinlínis tekið fram að þær ákvarðanir hafi ekki verið í samræmi við lög, þótt þar hafi ekki komið skýrt fram hvaða forsendur hafi legið þeim til grundvallar. Þá verður ekki önnur ályktun dregin af svörum ráðuneytisins en að það muni framvegis haga afgreiðslu beiðna um greiðslur við embættislok í samræmi við lög.

Í ljósi þessa tel ég ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu. Áfram verður þó fylgst með málinu af hálfu embættisins og kunna þessi málefni að verða tekin til frekari athugunar ef tilefni verður til, m.a. með hliðsjón af þeim kvörtunum og ábendingum sem umboðsmanni kunna að berast.