Gjafsókn.

(Mál nr. F106/2021)

Umboðsmaður hóf athugun á ákvæði í reglugerð um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar og samræmi þess við ákvæði í lögum um meðferð einkamála. 

Við meðferð kvörtunar vakti það athygli að ákvæði reglugerðarinnar virtist ekki hafa verið breytt í samræmi við ummæli í lögskýringargögnum. Ráðuneytið svaraði því til að á sínum tíma hefði ekki verið talin þörf á að breyta því en í ljósi breytinganna á lögunum kynni reglugerðarákvæðið að valda ruglingi og yrði því tekið til frekari athugunar. Ekki var því tilefni til að halda athugun umboðsmanns áfram að svo stöddu en óskað eftir upplýsingum þegar niðurstaða endurskoðunarinnar lægi fyrir.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 15. mars 2022.

   

   

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns hefur lokið athugun sinni á ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfs­hætti gjafsóknarnefndar, og samræmi þess við ákvæði laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Tilefni athugunarinnar er að rekja til meðferðar umboðsmanns á kvörtun frá nafngreindum manni sem laut að synjun á umsókn ráðuneytisins um gjafsókn. Við meðferð málsins lá fyrir að með 7. gr. laga nr. 72/2012 hafði 126. gr. laga nr. 91/1991 verið breytt. Í 1. mgr. greinarinnar segir nú að gjafsókn verði aðeins veitt gefi málstaður umsækjanda nægi­legt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar. Þá er vísað til þess að öðru hvoru eftirfarandi skilyrða samkvæmt a- og b-lið málsgreinarinnar þurfi að vera fullnægt. Í niðurlagi téðs a-liðar er vísað til þess að eðlilegt megi teljast að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 72/2012 kemur fram að verði frumvarpið að lögum þurfi að gera breytingar á 5. gr. fyrr­greindrar reglugerðar að því er snerti mat á tilefni til veitingar gjafsóknar fyrir héraðsdómi í samræmi við rýmkun á heimild til gjaf­sóknar.

Við meðferð fyrrgreinds máls vakti það athygli umboðsmanns að þrátt fyrir framangreind ummæli í lögskýringargögnum var ekki að sjá að ákvæði 5. gr. reglugerðarinnar hefði verið breytt. Þótt umboðsmaður hefði lokið athugun sinni á framangreindri kvörtun með vísan til þeirrar ákvörðunar ráðuneytisins að gefa út gjafsóknarleyfi var þess þar af leiðandi óskað, með bréfi 20. október 2021, að ráðuneytið skýrði hvort og  þá hvernig það teldi ákvæði 5. gr. téðrar reglugerðar samræmast efni 126. gr. laga nr. 91/1991.

Í svari dómsmálaráðuneytisins 2. mars sl. eru raktar þær breytingar sem ráðist var í af hálfu innanríkisráðuneytisins, sem þá fór með málefni dómstóla, á ákvæðum reglugerðar nr. 45/2007 í kjölfar gildistöku laga nr. 72/2012. Ráðuneytið hafi á þeim tíma ekki talið þörf á breytingu á 5. gr. reglugerðarinnar enda litið svo á að tilgangur lagabreytinganna væri sá að breyta öðrum atriðum. Ráðuneytið lýsti þó þeirri afstöðu sinni að í ljósi fyrrgreindra breytinga á 126. gr. laga nr. 91/1991 kynni 5. gr. reglugerðarinnar að valda ruglingi og hefði ákveðið að taka ákvæðið til frekari athugunar.

Í ljósi þess sem fram kemur í bréfi ráðuneytisins um áformaða athugun á umræddu ákvæði reglugerðarinnar tel ég ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu. Áfram verður þó fylgst með málinu af hálfu embættisins og þeirri vinnu sem áformuð er í ráðuneytinu. Loks er þess óskað að ráðuneytið upplýsi umboðsmann um niðurstöðu þeirrar endurskoðunar sem áformuð er þegar hún liggur fyrir.