Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Málsmeðferð stjórnvalda.

(Mál nr. 12067/2023)

Blaðamannafélag Íslands kvartaði yfir afskiptum lögreglu af störfum blaðamanna við fréttaflutning af aðgerðum lögreglu á Keflavíkurflugvelli þegar öflugum ljósabúnaði var beint að fréttamönnum svo og viðbrögðum dómsmálaráðherra í því sambandi. 

Í kjölfar þess að ráðuneytið svaraði erindi BÍ að nýju og að gættum sjónarmiðum félagsins um að það teldi tilefni kvörtunarinnar um garð gengið, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar hvað þennan þátt snerti. Að því er lyti afskiptum lögreglu af störfum blaðamanna og ef svör ráðuneytisins kynnu að vera ófullnægjandi að mati félagsins benti umboðsmaður félaginu hins vegar á að hugsanlega gæti það freistað þess að leita til nefndar um eftirlit með lögreglu áður en hann gæti aðhafst frekar í þeim efnum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. júní 2023.

  

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 20. febrúar sl., f.h. Blaðamannafélags Íslands, yfir afskiptum lögreglu af störfum blaðamanna við fréttaflutning af aðgerðum lögreglu á Keflavíkurflugvelli aðfaranótt fimmtudagsins 3. nóvember 2022, þegar öflugum ljósabúnaði var beint að fréttamönnum, svo og viðbrögðum dómsmálaráðherra í því sambandi.

Með erindi yðar 24. janúar sl. f.h. Blaðamannafélags Íslands var fyrirspurnum og ábendingum beint til dómsmálaráðuneytisins vegna ýmissa atriða varðandi framkvæmd lögreglu í tengslum við téð atvik á Keflavíkurflugvelli, einkum með vísan til eftirlitshlutverks ráðherra gagnvart lögreglu. Var erindi félagsins svarað með tölvubréfi 26. sama mánaðar frá upplýsingafulltrúa ráðuneytisins. Samkvæmt kvörtuninni teljið þér að ráðherra hafi þrátt fyrir fyrirspurnina ekki séð til þess að upplýsa málið með fullnægjandi hætti eða brugðist við því á annan hátt í samræmi við alvarleika þess.

Í tilefni af kvörtun yðar var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 7. mars sl. þar sem óskað var eftir að veitt yrðu svör við því hvaða sjónarmið og upplýsingar hafi legið til grundvallar þeirri afstöðu ráðuneytisins að ekki hafi verið tilefni til frekari viðbragða vegna framangreinds erindis Blaðamannafélags Íslands og upplýsinga frá ríkislögreglustjóra um framangreint atvik. Svör ráðuneytisins bárust umboðsmanni 31. mars sl.

  

II

Í svari dómsmálaráðuneytisins til umboðsmanns greinir að í kjölfar téðra atvika á Keflavíkurflugvelli 2. nóvember 2022 hafi ríkislögreglustjóri upplýst um tildrög, undirbúning og framkvæmd aðgerða lögreglu í samtölum við ráðuneytið 3. sama mánaðar, og þá sérstaklega um afskipti af störfum fjölmiðla þegar ljóskösturum bifreiða á vegum ISAVIA virðist hafa verið beint að fjölmiðlum, sem staddir voru á svæðinu, í því skyni að hindra störf þeirra á vettvangi. Af hálfu ríkislögreglustjóra hafi skýrt komið fram að starfsmenn embættisins hafi hvorki við undirbúning né framkvæmd aðgerðanna beint þeim tilmælum til ISAVIA að viðhafa nokkuð sem gæti hindrað störf fjölmiðla. Af hálfu stjórnenda aðgerðarinnar hafi þvert á móti verið lögð á það áhersla að ekki ætti að koma í veg fyrir téð störf eða gera athugasemdir við myndatöku fjölmiðla af aðgerðum stoðdeildar ríkislögreglustjóra og gæta ætti vel að öllum samskiptum við fjölmiðla.

Þrátt fyrir þetta sé ljóst að tvær slökkviliðsbifreiðar og nokkrar minni bifreiðar á vegum ISAVIA hafi á meðan aðgerðum stóð beint ljóskösturum í átt að fjölmiðlum sem staddir voru utan við flugverndarsvæðið og voru að reyna að taka upp aðgerðir lögreglu. Starfsmenn stoðdeildar ríkislögreglustjóra á vettvangi hafi kveðist ekki hafa áttað sig á því í hvaða tilgangi þetta hafi verið gert og ekki fengið upplýsingar um það frá forsvarsmönnum ISAVIA fyrr en eftir að aðgerðum var lokið.

Í svari dómsmálaráðuneytisins segir jafnframt að í kjölfar fréttaflutnings af afskiptum lögreglu af störfum fjölmiðla hafi ríkislögreglustjóri að eigin frumkvæði hafið könnun á öllum samskiptum stoðdeildar embættisins og ISAVIA í aðdraganda og við framkvæmd aðgerðanna. Ekkert hafi komið í ljós við þá könnun sem bendi til þess að stoðdeild hafi gefið fyrirmæli um að starfsmenn ISAVIA skyldu beina ljóskösturum eins og gert hafi verið eða að störf fjölmiða skyldu hindruð með einhverjum öðrum hætti. Samkvæmt niðurstöðu fundar ríkislögreglustjóra með fulltrúum ISAVIA, 9. nóvember 2022, sé líklegasta skýringin á atvikinu að misskilningur hefði orðið varðandi beiðni stoðdeildar um að fá að athafna sig í næði á haftasvæði flugvallarins, á þann hátt að í beiðninni hefðu jafnframt falist fyrirmæli um að hefta ætti för fjölmiðla.

Þá er í bréfinu vísað til þess að ríkislögreglustjóri hafi tafarlaust gert breytingar á verklagi við brottvísanir til að tryggja að atvik sem þessi endurtækju sig ekki, farið hafi verið yfir alla verkferla á Keflavíkurflugvelli í málum sem þessum til að tryggja rétta framkvæmd og embættið hafi átt opinn fund með Blaðamannafélagi Íslands 10. nóvember 2022 þar sem samskipti lögreglu og fjölmiðla hafi sérstaklega verið rædd. Ráðuneytið hafi ekki talið ástæðu til að ætla að ætla, samkvæmt þeim upplýsingum sem það fékk frá ríkislögreglustjóra, að starfsmenn embættisins hafi gefið fyrirmæli um að beina ljósum að fjölmiðlum í þeim tilgangi að hindra störf þeirra. Fulltrúar ISAVIA hafi heldur ekki gefið til kynna að svo hafi verið og því verið talið líklegast að ákvörðun um beitingu ljósanna hafi byggst á misskilningi. Skýringar sem fram komu hafi því verið taldar eiga við rök að styðjast. Ráðuneytið hafi talið að ríkislögreglustjóri hafi brugðist við af ákveðni og festu með því að taka fyrirvaralaust verklag aðgerða af þessu tagi til endurskoðunar og verði ekki annað ráðið en að þær breytingar sem gerðar hafa verið séu til þess fallnar að koma í veg fyrir að atvik sem þessi endurtaki sig.

Með vísan til þessa hafi ráðuneytið ekki talið hafa verið tilefni til frekari viðbragða vegna ábendinga Blaðamannafélags Íslands en tekur fram að réttara hefði verið að nánari upplýsingar um sjónarmið að baki afstöðu ráðuneytisins hefðu komið fram í upphaflegu svari þess við erindi félagsins.

  

III

Með tölvubréfum 16. og 24. maí sl. gerðuð þér umboðsmanni kunnugt um að í kjölfar þess að hafa fengið afrit af svarbréfi dómsmála-ráðuneytisins til umboðsmanns 31. mars sl. hefði Blaðamannafélag Íslands óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það teldi tilefni til þess að erindi félagsins frá 24. janúar sl. yrði svarað að nýju og þá með þeim ítarlegri hætti sem hafður var á í téðu svarbréfi til umboðsmanns. Með tölvubréfi 7. júní sl. senduð þér umboðsmanni afrit af svarbréfi ráðuneytisins 6. júní s.m. þar sem ítarlegri sjónarmið koma fram af hálfu þess en í fyrra svari þess 26. janúar sl., í samræmi við svarbréf ráðuneytisins til umboðsmanns 31. mars sl.

Þar sem nú liggur fyrir að ráðuneytið hefur svarað erindi Blaðamannafélags Íslands að nýju, og að gættum sjónarmiðum félagsins sem bárust mér með tölvubréfi 7. júní sl. um að það telji tilefni kvörtunarinnar til umboðsmanns um garð gengið, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af þessum þætti kvörtunarinnar.

Að því leyti sem kvörtunin lýtur að afskiptum lögreglu af störfum blaðamanna við fréttaflutning í viðkomandi sinn og þér kunnið að telja svör ráðuneytisins ófullnægjandi skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að nefnd um eftirlit með lögreglu starfar á grundvelli lögreglulaga nr. 90/1996 og er hlutverk nefndarinnar m.a. að taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald, sbr. b-lið 1. mgr. 35. gr. a. laganna. Þrátt fyrir athugasemdir í kvörtuninni um starfssvið nefndarinnar, og þá að gættum þeim sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og í ljósi þess hlutverks sem nefnd um eftirlit með lögreglu er ætlað að hafa með höndum, tel ég rétt að afstaða nefndarinnar liggi fyrir áður en kvörtunin getur komið til skoðunar af hálfu embættis umboðsmanns. Er þá haft í huga að nefndinni gefist kostur á að taka afstöðu til þess hvort málið heyri undir starfssvið hennar og eftir atvikum bregðast við með þeim hætti sem hún telur tilefni til. Í ljósi þessa og með vísan til þess sem að framan er rakið tel ég ekki rétt að taka kvörtunina að þessu leyti til frekari athugunar að svo stöddu. Ég tek hins vegar fram að freisti félagið þess að leita til nefndarinnar og þér teljið það enn beitt rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar er unnt að leita til mín á ný innan eins árs frá því afstaða hennar liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

  

IV

Með vísan til alls framangreinds lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.