Rafræn stjórnsýsla. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda.

(Mál nr. F131/2023)

Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum um Loftbrú frá Vegagerðinni í kjölfar fréttar um að fósturforeldrar barna í varanlegu fóstri hefðu ekki getað nýtt Loftbrúnna fyrir börnin. Þar var greint frá því að vegna persónuverndarsjónarmiða teldi Vegagerðin sér ekki fært að taka á móti umsóknum með öðrum hætti en rafrænum.

Í svari Vegagerðarinnar kom fram að svör hennar til blaðamanns á sínum tíma hefðu verið byggð á misskilningi. Nú sé hægt að sækja handvirkt um afsláttarkóða fyrir fósturbörn og unnið sé að því að það verði einnig hægt rafrænt. Þá sé unnið að því að bæta leiðbeiningar varðandi Lofbrú og óskaði umboðsmaður óskar eftir upplýsingum um framvindu þessarar vinnu þegar fram liðu stundir.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til Vegagerðarinnar 23. júní 2023.

  

  

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur lokið athugun á möguleikum fósturforeldra barna í varanlegu fóstri til að virkja afsláttarkóða Loftbrúar á island.is fyrir fósturbörn sín.

Tilefni athugunarinnar var fréttaflutningur 24. febrúar sl. um að fósturforeldrar næðu ekki að virkja afsláttarkóða vegna barnanna á island.is. Í fréttinni kom m.a. fram að ekki væri hægt að leysa vandamál þessa hóps handvirkt vegna persónuverndarsjónarmiða.

Af þessu tilefni var Vegagerðinni ritað bréf 1. mars sl. þar sem áréttuð var niðurstaða umboðsmanns í áliti frá 3. nóvember 2022 í máli nr. F118/2022 á þá leið að Vegagerðinni væri ekki heimilt að haga verklagi í tengslum við Loftbrú á þann veg að einungis væri mögulegt að sækja um afsláttarkóða með rafrænum skilríkjum í gegnum þjónustugáttina island.is. Þá var einnig vikið að upplýsingum sem umboðsmanni höfðu borist frá Vegagerðinni um að búið væri að gera breytingar á þeim hugbúnaði sem framleiddi umrædda afsláttarkóða þannig að starfsmenn Vegagerðarinnar gætu nú sótt kóða fyrir hönd umsækjenda.

Í téðu bréfi umboðsmanns til Vegagerðarinnar var þess óskað að umboðsmaður yrði upplýstur um með hvaða hætti þeir, sem ekki vildu eða gætu nýtt sér þann valkost að sækja um afsláttarkóða með rafrænum skilríkjum, væru upplýstir um að þeim stæði til boða að sækja um afsláttarkóða með öðrum hætti. Jafnframt var farið fram á að Vegagerðin skýrði nánar þau persónuverndarsjónarmið sem hún teldi koma í veg fyrir handvirka afgreiðslu afsláttarkóða.

Í svarbréfi Vegagerðarinnar 11. apríl sl. kom m.a. fram að stofnunin gerði sér grein fyrir því að bæta þyrfti leiðbeiningar um að hægt væri að leita til starfsfólks Vegagerðarinnar til að sækja um afsláttarkóða með öðrum hætti en rafrænum. Unnið væri að endurbótum á texta á heimasíðu Loftbrúar sem ætti að vera lokið sem fyrst, en í síðasta lagi fyrir lok maímánaðar. Þá kom einnig fram að Vegagerðin liti hvorki svo á að afgreiðsla afsláttarkóða til barna í varanlegu fóstri bryti í bága við reglur persónuverndarlaga né afgreiðsla afsláttarkóða með öðrum hætti en rafrænum. Svör til blaðamanns hefðu verið byggð á misskilningi.

Í téðu svarbréfi kom jafnframt fram að vandamál hefðu komið upp við vinnslu afsláttarkóða barna í varanlegu fóstri. Stofnunin gæti ekki afgreitt afsláttarkóða handvirkt fyrir þau börn sem byggju á svæði sem Loftbrú næði til án þess að forsjáraðilar þeirra ættu þar einnig lögheimili. Unnið væri að endurbótum og stefnt að því að þeim yrði lokið fyrir lok maímánaðar auk þess sem gera þyrfti breytingar á hugbúnaði til þess að þessi hópur gæti nálgast afsláttarkóða rafrænt.

Í símtali við starfsmann Vegagerðarinnar 21. júní sl. kom fram að fyrrgreindar leiðbeiningar verði birtar á vefsíðu Loftbrúar innan skamms. Umboðsmaður verði upplýstur um breytingar þegar þær liggi fyrir. Þá kom fram að fósturforeldrar geti nú sótt afsláttarkóða handvirkt til Vegagerðarinnar fyrir fósturbörn sín. Enn sé unnið að því að gera breytingar á kerfinu þannig að þeir geti einnig nálgast afsláttarkóða fyrir börnin rafrænt.

Í ljósi framangreindra upplýsinga hef ég ákveðið að aðhafast ekki frekar að svo stöddu. Embættið mun þó áfram fylgjast með framkvæmd Loftbrúar. Er þess þar af leiðandi óskað að Vegagerðin upplýsi um framvindu þeirrar vinnu sem lýst er að framan eigi síðar en 1. október nk.