Atvinnuréttindi. Starfsleyfi. EES-samningurinn. Rannsóknarreglan. Málshraði. Stjórnarskrá.

(Mál nr. 3308/2001)

A og B kvörtuðu yfir synjun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á að veita þeim starfsleyfi til að starfa sem sjúkranuddarar. Beindist kvörtun þeirra einkum að því að ráðuneytið hefði ekki viðurkennt menntun þeirra í sjúkranuddi í Svíþjóð. Töldu þau að synjunin væri ekki í samræmi við ákvæði EES-samningsins þar sem þau hefðu réttindi frá Svíþjóð til þess að starfa á EES- svæðinu.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, og reglugerðar nr. 204/1987, um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara, sbr. reglugerð nr. 285/1989. Þá rakti hann ákvæði laga nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, sem voru sett til að fullnægja skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Tók umboðsmaður fram að tilvist laga nr. 83/1993 leiddi til þess að stjórnvöldum hér á landi sem falið væri að fjalla um útgáfu leyfa til að stunda tiltekna atvinnustarfsemi væri skylt við afgreiðslu umsókna um starfsréttindi að ganga úr skugga um hvort ákvæði laganna, og þá einkum þær tilskipanir EBE og þeir samningar sem lögin tækju til, hefðu áhrif á úrlausn slíkrar umsóknar gæfu gögn málsins tilefni til þess og fjalla um þau atriði með fullnægjandi hætti. Þar sem fyrir lá að A og B hefðu hlotið menntun sína á EES- svæðinu taldi umboðsmaður að ráðuneytinu hefði borið við meðferð umsókna þeirra að taka afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti lög nr. 83/1993 og umræddar tilskipanir EBE áttu við í tilviki þeirra og fjalla um það atriði þegar það ákvað að synja erindi þeirra. Var það því niðurstaða umboðsmanns að skort hefði á það við afgreiðslu á umsóknum A og B að tekin væri afstaða til þess hvaða þýðingu þær reglur sem leiddu af lögum nr. 83/1993 hefðu í málum þeirra. Var slíkt nauðsynlegt til þess að fullnægt væri þeim skyldum sem hvíldu á ráðuneytinu í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og til að leggja að lögum réttan grundvöll að úrlausn málsins. Tók hann fram að í álitinu hefði ekki verið tekin afstaða til þess hvort lög nr. 83/1993 eða umræddar tilskipanir EBE hefðu átt að leiða til annarrar efnislegrar niðurstöðu.

Kvörtun þeirra A og B beindist einnig að því að málsmeðferð ráðuneytisins hefði tekið of langan tíma. Í málinu lá fyrir að afgreiðsla á umsóknum þeirra hjá ráðuneytinu tók tæplega þrjú ár. Þar af voru þær í umsögn hjá landlæknisembættinu fyrst í tæplega tvö ár, síðan í um fjóra mánuði og að lokum í tvo mánuði. Benti umboðsmaður á að í þessum umsagnarbeiðnum ráðuneytisins til landlæknis hefði embættinu ekki verið settur frestur til að láta í té umsagnirnar, sbr. 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, auk þess sem ekki yrði séð að gerður hefði verið neinn reki að því af hálfu ráðuneytisins að hraða afgreiðslu málsins. Með vísan til þessa yrði að telja að dregist hefði úr hófi að afgreiða umsóknir A og B og meðferð málsins því ekki samrýmst málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að það tæki mál þeirra A og B fyrir að nýju, kæmi fram ósk þess efnis frá þeim, og tæki við þá málsmeðferð mið af niðurstöðum sem fram kæmu í álitinu.

I.

Hinn 20. ágúst 2001 leituðu A og B, til mín. Beinist kvörtun þeirra að synjun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á að veita þeim starfsleyfi til að starfa sem sjúkranuddarar. Kvörtunin beinist einkum að því að ráðuneytið hafi ekki viðurkennt menntun þeirra í sjúkranuddi í Svíþjóð. Telja þau að þau uppfylli þau lágmarksviðmið sem óskað er eftir af hálfu yfirvalda hér á landi og eru ósátt við að hafa ekki verið leiðbeint um hvað vanti upp á nám þeirra til að hljóta löggildingu. Af kvörtuninni má enn fremur ráða að þau telji að synjun ráðuneytisins sé ekki í samræmi við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þar sem þau hafi réttindi frá Svíþjóð til þess að starfa á EES-svæðinu. Jafnframt telja þau að aðrir sjúkranuddarar hafi fengið löggildingu með sambærilega menntun og þau hafi aflað sér í Svíþjóð. Að lokum beinist kvörtun þeirra að þeim tíma sem það tók ráðuneytið að afgreiða umsóknir þeirra.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 4. júlí 2002.

II.

Málavextir eru þeir að 22. september 1998 sóttu A og B um leyfi til að kalla sig sjúkranuddara til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Í samræmi við 2. gr. reglugerðar nr. 204/1987, um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara, með áorðnum breytingum skv. reglugerð nr. 285/1989, voru umsóknirnar sendar landlækni sama dag til umsagnar.

Landlæknisembættið veitti álit sitt á umsóknum þeirra með tveimur samhljóða bréfum til ráðuneytisins, dags. 6. júlí 2000. Þar segir meðal annars svo:

„Hér með umsókn [...] um starfsleyfi sem sjúkranuddari hér á landi ásamt fylgiskjölum.

Landlæknisembættið hefur áður fjallað um umsókn [...] og gefið umsagnir sínar í bréfum dags. 29.12.1994 og 10.06.1996.

Þau gögn sem fylgdu umsókninni nú eru:

1. Diplome sem friskvårdsterapeut frá Göteborgs Gymnastiska Institut, dags. 5. ágúst 1998.

2. Hluti af forsíðu á Göteborgs-Posten, 15. ágúst 1997.

3. Innihaldslýsing í friskvårdsutbildning. Þar kemur fram að námið er 320 klukkustundir, sem skiptist niður á 3 daga í viku yfir 15 vikna tímabil.

Í fyrri gögnum umsækjanda kemur fram að hann hefur áður stundað nám við sama skóla, þ.e. Göteborgs Gymnastiska Institut, í flestum þeim greinum sem um getur í námsskránni. Því er ekki ljóst hve miklu námi hann hefur bætt við sig nú, þ.e. frá því fyrri umsögn var gefin. Svo virðist sem umsækjandi hafi í mesta lagi bætt við sig 60-70 tíma námi.

Landlæknir mælir ekki með veitingu starfsleyfis sem sjúkranuddari.

Með bréfi þessu eru gögn umsækjanda endursend.“

Í framhaldi af athugasemdum lögmanns A og B fór heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fram á það með bréfum til landlæknisembættisins, dags. 21. nóvember 2000, að embættið léti ráðuneytinu í té rökstuddar umsagnir um umsóknir þeirra um starfsleyfi sem sjúkranuddarar. Ráðuneytið ítrekaði þessar beiðnir sínar með bréfum, dags. 19. mars 2001, þar sem fram kom að óskað væri eftir að málinu yrði hraðað eftir því sem kostur væri.

Í tveimur samhljóða umsögnum landlæknisembættisins til ráðuneytisins, dags. 29. mars 2001, segir meðal annars svo:

„Vísað er til bréfs heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 21. nóvember 2000, þar sem óskað er rökstuddrar umsagnar um umsókn [...] um löggildingu sem sjúkranuddari.

Landlæknisembættið hefur áður gefið umsagnir sínar um umsóknir [...], þ.e. 29.12.1994, 07.06.1996 og 06.07.2000.

Samkvæmt reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara nr. 204/1987 er landlæknir eini umsagnaraðilinn um starfsréttindi sjúkranuddara. Til að tryggja að umsögn landlæknis sé byggð á faglegri þekkingu hefur allt frá upphafi verið leitað álits sérfróðra aðila á þessu sviði, áður en umsögn Landlæknisembættisins er gefin. Þessir aðilar eru sjúkranuddarar og endurhæfingarlæknar. Þeir sem lögðu mat á umsóknir [...] í öll þrjú skiptin voru auk fulltrúa Landlæknisembættisins, tveir sjúkranuddarar og endurhæfingarlæknir.

Við mat á umsóknum sjúkranuddara er tekið mið af skjali sem Landlæknisembættið og fulltrúar Félags íslenskra endurhæfingarlækna, Félags íslenskra sjúkranuddara og Sjúkranuddarafélags Íslands útbjuggu árið 1991-1992 til að hafa til viðmiðunar við mat á námi umsækjenda um starfsleyfi sem sjúkranuddari. Yfirlit yfir helstu námsgreinar og tímafjölda í einstökum námsgreinum sem haft er til viðmiðunar fylgir þessu bréfi.

Tekið skal fram að námskröfur miðast við nám á háskólastigi.

Þau gögn [...] sem lágu fyrir við hvert mat eru tilgreind í hverri umsögn Landlæknisembættisins.

Með umsókn árið 1994 fylgdu eftirtalin gögn:

· Diplom för genomgången utbildning till fysioterapeut frá Göteborgs Gymnastiska Institut.

· Diplom för genomgången kurs í:

- Bindvävsmassage

- Kroppsbalansering

- Idrotts- och avspänningsmassage II

- Idrottsmassage

frá Göteborgs Gymnastiska Institut.

· Meistarabréf frá Félagi íslenskra nuddara.

· Staðfesting frá Göteborgs Gymnastiska Institut um tímafjölda sem stendur að baki diplom í Swedish Massage og Physiotherapy.

· Upplýsingablöð um Kinesiologi.

· Staðfesting nokkurra lækna á að hafa vísað sjúklingi til umsækjanda.

Aðeins var tilgreindur tímafjöldi sem stendur að baki Diplom í Swedish Massage og Physiotherapy, samanlagt 640 stundir.

Ekki var tilgreindur tímafjöldi né námsinnihald á námskeiðum í bindvävsmassage, kroppsbalansering, idrottsmassage og idrotts- og avspänningsmassage II.

Með umsókn árið 1996 fylgdu, til viðbótar við þau gögn sem lágu fyrir árið 1994, eftirtalin gögn:

· Yfirlýsing frá Gothenburg Gymnastic Institute (GGI) um að það sé nuddskóli sem uppfylli kröfur um menntun í nuddi og sjúkraþjálfun.

· Námsefni í fjarnámi í grundmedicinsk utbildning við Göteborgs Gymnastiska Institut (GGI).

· Staðfesting frá GGI um að [...] hafi verið í 88 kennslustunda námi í GGI – kinesiologi 1.

· Yfirlýsing frá GGI um að [...] hafi stundað 100 kennslustunda nám í bindvävsmassage haustið 1985.

· Ritgerð Jim Abrahamsson um Ergonomi frá 1982.

· Mynd með heitum á helstu stoð- og hreyfivöðvum líkamans.

· Bókalisti – 2 blaðsíður úr bók eða hefti þ.e. bls. 108 og 109.

Þessi gögn staðfestu kennslustundafjölda að baki námi í bindvävsmassage 100 kennslustundir og 88 kennslustundir í GGI – kinesiologi I. Hér voru því staðfestar 188 klukkustundir til viðbótar þeim 640 sem áður hafði fengist staðfesting á.

Þau gögn sem fylgdu umsókn árið 1998 og umsögn Landlæknisembættisins árið 2000 byggðist á voru:

· Diplome sem friskvårdsterapeut frá Göteborgs Gymnastiska Institut, dags. 5. ágúst 1998.

· Hluti af forsíðu á Göteborgs-Posten, 15. ágúst 1997.

· Innihaldslýsing í friskvårdsutbildning. Þar kemur fram að námið er 320 klukkustundir, sem skiptist niður á 3 daga í viku yfir 15 vikna tímabil.

Í gögnum umsækjanda sem fylgdu umsóknum árið 1994 og 1996 kom fram að hann hafði áður stundað nám við sama skóla, þ.e. Göteborgs Gymnastiska Institut, í flestum greinum sem um getur í þeirri 320 klukkustunda námsskrá sem hér var lögð fram, í námsskránni. Því er ekki ljóst hve miklu námi hann hafði bætt við sig frá því umsögn árið 1996 var gefin. Að mati Landlæknisembættisins var það í mesta lagi 60-70 tíma viðbót.

Það sem Landlæknisembættið getur best greint af fyrrgreindum gögnum er að [...] hafi lokið um 900 stundum í námsgreinum sem kenndar eru í sjúkranuddnámi.

Landlæknisembættið telur hins vegar að nám í sjúkranuddi verði að ná a.m.k. til þeirra námsgreina og í því umfangi sem tilgreint er í meðfylgjandi skjali „Starfsleyfi sem sjúkranuddari – Mat á námi umsækjenda – Lágmarksviðmið í hverri námsgrein“ en þær námskröfur gera ráð fyrir um 1800 stundum.

Að mati Landlæknisembættisins var það nám sem [...] stundaði því ekki formlegt sjúkranuddnám og uppfyllti ekki þau skilyrði sem landlæknir gerir varðandi sjúkranuddnám, hvorki hvað varðar uppbyggingu, áherslur né námslengd.

Að mati Landlæknisembættisins uppfyllir [...] ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara nr. 204/1987 með áorðnum breytingum. Landlæknir mælir því ekki með veitingu starfsleyfis sem sjúkranuddari.“

Hinn 6. apríl 2001 sendi ráðuneytið lögmanni þeirra A og B tvö svohljóðandi bréf:

„Ráðuneytið vísar til bréfs dags. 14. nóvember 2000 varðandi umsókn [...] um löggildingu sem sjúkranuddari.

Með bréfi dags. 21. nóvember 2000 var umsókn ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum send landlæknisembættinu til umsagnar. Farið var fram á rökstudda umsögn varðandi umsókn um starfsleyfi sem sjúkranuddari. Ráðuneytinu barst svar landlæknisembættisins þann 29. mars sl.

Að mati landlæknisembættisins uppfyllir [...] ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara nr. 204/1987, með síðari breytingum og mælir landlæknir því ekki með veitingu starfsleyfis sem sjúkranuddari. Í umsögn landlæknisembættisins kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist [...] hafa lokið 900 stundum í námsgreinum sem kenndar eru í sjúkranuddnámi. Landlæknisembættið telur hins vegar að nám í sjúkranuddi verði að ná a.m.k. til þeirra námsgreina og í því umfangi sem tilgreint er í meðfylgjandi skjali „Starfsleyfi sem sjúkranuddari. Mat á námi umsækjanda. Lágmarksviðmið í hverri námsgrein.“ Samkvæmt því eru gerðar kröfur til u.þ.b. 1800 kennslustunda. Að mati landlæknisembættisins uppfyllir [...] ekki þau skilyrði sem landlæknir setur varðandi sjúkranuddnám, hvorki hvað varðar uppbyggingu, áherslur né námslengd. Nám það sem hún stundaði var því að mati landlæknisembættisins ekki formlegt sjúkranuddaranám. Að öðru leyti vísast til bréfs landlæknisembættisins frá 29. mars sl. í heild, sem fylgir hér með í afriti.

Með vísan til fyrirliggjandi gagna og umsagnar landlæknisembættisins, hefur ráðuneytið ákveðið að veita [...] ekki löggildingu sem sjúkranuddari að svo stöddu.

Ráðuneytið gefur hér með kost á að koma fram andmælum til 30. apríl n.k. áður en ráðuneytið tekur endanlega ákvörðun í málinu.“

Í kjölfar athugasemda lögmanns A og B, dags. 10. og 21. maí 2001, við framangreindum umsögnum landlæknis varðandi útreikning á tímalengd námsins, fór ráðuneytið með bréfum, dags. 29. maí 2001, fram á það við landlæknisembættið að það mæti að nýju námstíma þeirra A og B og ef eitthvað vantaði upp á námið þá í hvaða grein eða greinum skorti þekkingu og hversu margar klukkustundir.

Í svarbréfum landlæknisembættisins til ráðuneytisins, dags. 19. júlí 2001, segir svo:

„Vísað er í bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 29. maí 2001, þar sem farið er fram á að landlæknisembættið meti að nýju námstíma [...] í ljósi nýrra upplýsinga. Einnig er vísað til fyrri bréfa Landlæknisembættisins til ráðuneytisins vegna þess máls, dags. 29.12.1994, 07.06.1996, 06.07.2000 og 29.03.2001.

Ítrekað er að það sé mat Landlæknisembættisins í samráði við sérfróða aðila á þessu sviði að það nám sem [...] stundaði hafi ekki verið formlegt sjúkranuddaranám og uppfylli ekki þau skilyrði sem landlæknir gerir varðandi það nám, hvorki hvað varðar uppbyggingu, áherslur né tímalengd.

Landlæknisembættið telur að eina leiðin til að unnt sé að mæla með að [...] fái starfsleyfi sem sjúkranuddari sé að hún sæki nám við viðurkenndan sjúkranuddaraskóla s.s. í Þýzkalandi eða Kanada, fái þar væntanlega hluta af fyrra námi metinn og ljúki formlegri gráðu sem sjúkranuddari.

Að mati Landlæknisembættisins uppfyllir [...] nú ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara nr. 204/1987 með áorðnum breytingum. Landlæknir mælir því ekki með veitingu starfsleyfis sem sjúkranuddari.“

Í bréfum ráðuneytisins, dags. 8. ágúst 2001, til lögmanns A og B, segir meðal annars svo:

„Ráðuneytið vísar til bréfa dags. 14. nóvember 2000, 10. maí 2001 og 21. maí 2001 varðandi umsókn [...] um löggildingu sem sjúkranuddari.

Með bréfi dags. 21. nóvember 2000 var umsókn ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum send landlæknisembættinu til umsagnar. Farið var fram á rökstudda umsögn varðandi umsókn um starfsleyfi sem sjúkranuddari. Ráðuneytinu barst svar landlæknisembættisins þann 29. mars sl. Þann 29. maí sl. var landlæknisembættinu aftur send umsókn [...] ásamt fyrirliggjandi gögnum og athugasemdum varðandi fyrri umsögn og farið fram á að námstími [...] yrði metinn að nýju í ljósi nýrra upplýsinga. Svar landlæknisembættisins barst ráðuneytinu þann 24. júlí sl., sjá hjálagt bréf dags. 19. júlí sl.

Í svari landlæknisembættisins er það ítrekað að það sé mat hans í samráði við sérfróða aðila á þessu sviði að það nám sem [...] stundaði hafi ekki verið formlegt sjúkranuddaranám og uppfylli ekki þau skilyrði sem landlæknir gerir varðandi það nám, hvorki hvað varðar uppbyggingu, áherslur né tímalengd. Fram kemur að landlæknisembættið telji að eina leiðin til að unnt sé að mæla með að [...] fái starfsleyfi sem sjúkranuddari sé að hún sæki nám við viðurkenndan sjúkranuddaraskóla s.s. í Þýskalandi eða Kanada, fái þar væntanlega hluta af fyrra námi metinn og ljúki formlegri gráðu sem sjúkranuddari.

Að mati landlæknisembættisins uppfyllir [...] ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara nr. 204/1987, með síðari breytingum og mælir landlæknir því ekki með veitingu starfsleyfis sem sjúkranuddari.

Með vísan til umsagna landlæknisembættisins og fyrirliggjandi gagna er umsókn [...] um löggildingu sem sjúkranuddari því hafnað.“

III.

Ég ritaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf, dags. 12. september 2001, og óskaði eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar og léti mér í té öll gögn málsins allt frá því að þau lögðu fram umsóknir um starfsleyfi sem sjúkranuddarar 7. febrúar 1996. Sérstaklega óskaði ég eftir skýringum ráðuneytisins á afgreiðslutíma erindis þeirra með hliðsjón af 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá óskaði ég eftir upplýsingum um það hverjir hefðu fengið starfsleyfi sem sjúkranuddarar frá því að lágmarksviðmið við mat á námi umsækjenda um slíkt starfsleyfi tók gildi á árunum 1991-1992, hvar þeir hafi sótt menntun sína og fyrirliggjandi upplýsingum um námsgreinar og kennslustundafjölda þeirra í því námi sem lá til grundvallar ákvörðun um að veita þeim starfsleyfi. Svarbréf ráðuneytisins barst mér 3. október 2001. Í bréfinu segir meðal annars svo:

„Þann 7. febrúar 1996 er skráð inn umsókn um sjúkranuddaraleyfi frá [A og B] og strax daginn eftir eru umsóknirnar sendar landlæknisembættinu til frekari fyrirgreiðslu. Þann 26. mars 1996 bárust fylgiskjöl með umsóknum um sjúkranuddaraleyfi. Umsögn landlæknis er dagsett þann 10. júní 1996. Þann 25. júní 1996 sendir ráðuneytið þeim [A og B] bréf að [X], þar sem tilkynnt er að landlæknir mæli ekki með veitingu starfsleyfis og er bréfið ásamt afriti af umsögn landlæknis hjálagt.

Þann 23. september 1998 eru bókaðar inn umsóknir frá þeim [A og B] um starfsleyfi sem sjúkranuddarar. Sama dag eru umsóknirnar sendar landlækni til frekari fyrirgreiðslu ásamt með viðbótargögnum. Það var ekki fyrr en með bréfi dags. þann 6. júlí 2000 að svar barst ráðuneytinu frá landlæknisembættinu og enn var ekki mælt með veitingu starfsleyfis. Með bréfi dags. 11. september 2000 var þeim [A og B ] tilkynnt umsögn landlæknisembættisins og gefinn frestur til andmæla til 11. október 2000. Bréfin voru send að [X], sbr. hjálagt afrit.

Þann 12. október (á bréfi 12. september, en faxi 12. október) 2000 barst ráðuneytinu bréf frá lögmanni [A og B], þar sem komið er á framfæri andmælum, en jafnframt beðið um tveggja vikna frest til að rökstyðja andmælin og er frestur veittur. Bókað er inn bréf frá lögmanni þann 16. nóvember 2000 þar sem synjun ráðuneytisins er andmælt. Með bréfum dags. 21. nóvember 2000 eru umsóknir þeirra [A og B] sendar aftur til umsagnar til landlæknisembættisins ásamt afriti af andmælabréfum. Ítrekunarbréf frá ráðuneytinu er sent landlæknisembættinu þann 19. mars 2001, en þann 29. mars 2001 barst svar landlæknisembættisins. Þar kemur aftur fram að þau [A og B] uppfylli ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara nr. 204/1987 með áorðnum breytingum og mælir hann ekki með veitingu starfsleyfis sem sjúkranuddari. Þann 6. apríl er lögmanni þeirra [A og B] tilkynnt umsögn landlæknis og gefinn frestur til að andmæla til 30. apríl 2001 áður en ráðuneytið taki endanlega ákvörðun í málinu. Bókuð eru inn hjá ráðuneytinu bréf frá lögmanni ásamt viðbótargögnum þann 15. maí og 23. maí 2001 og eru þau ásamt gögnum send til landlæknisembættisins til umsagnar. Í umsögn landlæknisembættisins dags. 19. júlí sl. er enn ekki mælt með veitingu starfsleyfa og með bréfi dags. 8. ágúst tilkynnir ráðuneytið síðan lögmanni [A og B] um niðurstöðu ráðuneytisins.

Lögmaður þeirra [A og B] fór fram á í bréfi dags. 14. ágúst sl. að fá upplýsingar um löggildingar sjúkranuddara. Hvaða einstaklingum hafi verið veitt löggilding sem sjúkranuddarar frá því reglugerðin um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara nr. 204/1987 var sett. Óskað var eftir að fram kæmi nafn einstaklings, útgáfudagur starfsleyfis og hvaða próf (nafn stofnunar, land og prófheiti) lá til grundvallar leyfisveitingu.

Ráðuneytið sendi svar þann 4. september sl. ásamt lista yfir útgefin leyfi, útgáfudag námsland og nafni skóla eða stofnunar þar sem viðkomandi stundaði nám.

Loks er vakin athygli á að umsóknir um starfsleyfi höfðu borist í nóvember 1990 á grundvelli bráðabirgðaákvæðis reglugerðar nr. 204/1987 um réttindi og skyldur sjúkranuddara sbr. breytingu á bráðabirgðaákvæðinu, nr. 285/1989, og 6. september 1994 og fylgja afrit af fyrirliggjandi gögnum varðandi það til fróðleiks.

Álit ráðuneytisins:

Með vísan til framanritaðs telur ráðuneytið að málsmeðferð hafi ekki verið á neinn hátt ábótavant hvað varðar meðferð umsókna frá árinu 1996. Þeim [A og B] var tilkynnt synjun ráðuneytisins vegna umsóknar dags. 7. febrúar 1996 með bréfi ráðuneytisins dags. 25. júní 1996 og sá tími sem líður frá móttöku umsóknar þar til endanleg ákvörðun liggur fyrir ekki óeðlilega langur að mati ráðuneytisins. Hvað varðar aftur á móti umsóknir frá 1998 fellst ráðuneytið á að óeðlilega langur tími hafi liðið frá móttöku umsóknar þar til umsögn landlæknis barst. Ráðuneytið bendir þó á, að þar sem ekki höfðu á þeim tíma verið lögð fram nein viðbótargögn sem hefðu getað breytt niðurstöðu landlæknis gátu þau [A og B] átt von á að um sambærilega niðurstöðu yrði að ræða. Hvað varðar meðferð málsins eftir það, þ.e. fram til 8. ágúst 2001 getur ráðuneytið ekki fallist á að um óeðlilegan drátt á afgreiðslu málsins hafi verið að ræða, en lögmanni var í tvígang veittur andmælaréttur vegna umsagnar landlæknisembættisins.

Upplýsingar um útgefin starfsleyfi:

Umboðsmaður fer ennfremur fram á að fá upplýsingar um hverjir hafi fengið starfsleyfi sem sjúkranuddarar frá því að lágmarksviðmið við mat á námi umsækjenda um slíkt starfsleyfi tók gildi á árunum 1991-1992, hvar þeir hafi sótt menntun sína og fyrirliggjandi upplýsingar um námsgreinar og kennslustundafjölda þeirra í því námi sem lá til grundvallar ákvörðun um að veita þeim starfsleyfi.

Meðfylgjandi er listi yfir útgefin leyfi til sjúkranuddara frá 1991 til dagsins í dag ásamt fyrirliggjandi gögnum um nám.

Ráðuneytið eða landlæknisembættið hafa aldrei gefið út viðurkenningu fyrir sjúkranuddaraskóla fyrirfram heldur hefur landlæknisembættinu verið falið að leggja mat á nám þeirra sem sótt hafa um starfsleyfi og gera tillögur til ráðuneytisins um afgreiðslu hverju sinni.“

Með bréfi, dags. 4. október 2001, gaf ég A og B kost á því að gera athugasemdir við framangreindar skýringar ráðuneytisins. Með bréfi, dags. 15. nóvember s.á., ítrekaði ég fyrrnefnt bréf mitt en athugasemdir þeirra bárust mér 5. desember 2001. Þar benda þau meðal annars á að skóli sá sem þau stunduðu nám sitt við í Svíþjóð sé viðurkenndur sjúkranuddskóli þar í landi.

IV.

1.

Um starfsréttindi sjúkranuddara gilda lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, og reglugerð nr. 204/1987, um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara, sbr. reglugerð nr. 285/1989. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 24/1985 hefur sá einn sem lokið hefur prófi í einhverri grein heilbrigðisfræði og fengið löggildingu heilbrigðismálaráðherra að loknu námi rétt til þess að starfa hér á landi sem starfsmaður heilbrigðisstétta. Skal ráðherra setja reglur með nánari ákvæðum um nám og menntunarskilyrði fyrir hverja stétt er hann ákveður að fella undir þessi lög, að fengnum tillögum viðkomandi starfsstétta og umsögn landlæknis, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í 3. mgr. er tekið fram að ætíð skuli leita umsagnar viðkomandi starfsstéttar og landlæknis áður en leyfi er veitt í þeim tilvikum þar sem um er að ræða fólk er starfað hefur í starfsgrein án þess að hafa tilskilda starfsmenntun.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 204/1987 er kveðið á um það að sá einn sem til þess hefur leyfi heilbrigðisráðherra hafi rétt til þess að kalla sig sjúkranuddara. Leyfi samkvæmt 1. gr. skal veita þeim íslenskum ríkisborgurum sem lokið hafa námi sem viðurkennt er sem slíkt af heilbrigðisyfirvöldum, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar. Í sömu grein kemur fram að umsækjendur skulu hafa næga kunnáttu í íslensku máli og réttarreglum er lúta að starfinu. Þá skal leita umsagnar landlæknis áður en leyfi er veitt. Samkvæmt ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar er starfsvettvangur sjúkranuddara á heilbrigðisstofnunum og eigin stofum. Er tekið fram að með sjúkranuddi sé átt við nudd í lækningaskyni samkvæmt tilvísun og á ábyrgð læknis. Samkvæmt 5. gr. er öðrum en þeim sem hafa leyfi óheimilt að starfa sem sjúkranuddarar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið veitir samkvæmt því sem að framan er rakið leyfi samkvæmt 2. gr. laga nr. 24/1985, sbr. og reglugerð nr. 204/1987. Landlækni er skylt að veita umsögn áður en ráðuneytið tekur endanlega ákvörðun en slík umsögn bindur ekki hendur ráðuneytisins.

2.

Skilyrði fyrir leyfisveitingu sem sjúkranuddari er eins og fyrr er rakið að umsækjandi hafi lokið námi sem viðurkennt er sem slíkt af heilbrigðisyfirvöldum auk þess sem hann þarf að hafa næga kunnáttu í íslensku máli og réttarreglum er lúta að starfinu, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 204/1987. Samkvæmt sama ákvæði skal leita umsagnar landlæknis áður en leyfi er veitt.

Í umsögn landlæknisembættisins frá 29. mars 2001, sem rakin er hér að framan, kemur fram að við mat embættisins á námi umsækjenda sé skjal haft til viðmiðunar sem útbúið var af embættinu og fulltrúum Félags íslenskra endurhæfingarlækna, Félags íslenskra sjúkranuddara og Sjúkranuddarafélags Íslands á árunum 1991-1992. Enn fremur er tekið fram að námskröfur miðist við nám á háskólastigi. Í umræddu skjali sem kallast „Starfsleyfi sem sjúkranuddari. Mat á námi umsækjenda. Lágmarksviðmið í hverri námsgrein“ er kveðið á um samtals 1785 kennslustundir í hinum ýmsu námsgreinum. Af umsögninni má ráða að gerður hafi verið samanburður á námi þeirra A og B í Svíþjóð og þessum viðmiðunarreglum. Niðurstaða landlæknis er sú að þau hafi lokið um 900 stundum í þeim námsgreinum sem kenndar eru í sjúkranuddnámi. Er það mat hans að þau hafi ekki stundað formlegt sjúkranuddnám og hafi því ekki uppfyllt þau skilyrði sem landlæknir gerir varðandi sjúkranuddnám, hvorki hvað varðar uppbyggingu, áherslur né námslengd. Þá segir í umsögn landlæknisembættisins frá 19. júlí 2001 að embættið telji að eina leiðin til að unnt sé að mæla með leyfisveitingum í tilvikum A og B sé að þau „sæki nám við viðurkenndan sjúkranuddaraskóla s.s. í Þýzkalandi eða Kanada, fái þar væntanlega hluta af fyrra námi metinn og ljúki formlegri gráðu sem sjúkranuddari“.

3.

Mat landlæknis, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið byggði synjun sína á, beindist samkvæmt framangreindu eingöngu að því að upplýsa hvort nám þeirra A og B í Svíþjóð hefði verið í samræmi við viðmiðunarreglur þær sem embættið hefur sett sér. Ég geri ekki athugasemdir við það að embættið setji sér viðmiðunarreglur til að gæta jafnræðis við framkvæmd þessa mats svo lengi sem gætt sé málefnalegra sjónarmiða. Hins vegar er hvorki í umsögnum landlæknis né í afgreiðslu ráðuneytisins vikið að því hvaða réttindi námið í Svíþjóð veitir þeim þar í landi og hvort það hafi eitthvað að segja fyrir veitingu leyfis hér á landi.

Eftir lögfestingu laga nr. 24/1985 og setningu reglugerðar nr. 204/1987 hafa verið sett lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, sbr. lög nr. 37/1997 og 49/2001, um breyting á þeim lögum. Voru lögin sett til að fullnægja skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. b-lið 7. gr. samningsins og VII. viðauka við hann þar sem vísað er til tilskipana 89/48/EBE og 92/51/EBE. Í 30. gr. EES-samningsins, sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. ákvæði 2. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, er kveðið svo á að til þess að auðvelda launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum að hefja og stunda starfsemi sína skuli samningsaðilar í samræmi við VII. viðauka gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi, svo og samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum samningsaðila varðandi rétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til að hefja og stunda starfsemi.

Ákvæði 1. gr. laga nr. 83/1993 er svohljóðandi:

„Lög þessi gilda um störf sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til og falla undir tilskipanir 89/48/EBE, 92/51/EBE eða 1999/42/EB, sem og viðauka við þær svo sem þeir eru á hverjum tíma, sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið nær til og kveða á um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum vegna starfsmenntunar.

Lög þessi gilda einnig um störf sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til og falla undir samninga sem ríkisstjórnir Norðurlanda gera og öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar og kveða á um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum vegna starfsmenntunar.“

Samkvæmt ákvæði 2. gr. laga nr. 83/1993 eiga ríkisborgarar í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, svo og norrænir ríkisborgarar sem uppfylla skilyrði þessara tilskipana eða samninga sem falla undir 1. gr., rétt á að gegna hér á landi starfi sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til, hvort heldur er sjálfstætt eða sem launþegar, með sömu skilmálum og gilda um íslenska ríkisborgara. Ég tek fram að í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 83/1993 segir m.a. um 2. gr. að hún taki „einnig til íslenskra ríkisborgara sem hafa öðlast starfsmenntun í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða á einhverju öðru Norðurlanda“. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 956.)

Með tilliti til framangreinds gera lögin ráð fyrir því í ákvæði 3. gr. að þau stjórnvöld, sem fara með málefni er varða hlutaðeigandi starf, skuli sjá um að skilyrði þau sem greinir í 2. gr. til að gegna starfinu hafi verið uppfyllt. Þá er byggt á því í 6. gr. laganna að viðkomandi stjórnvöld geti krafið umsækjanda um upplýsingar sem þörf er á til að taka megi afstöðu til umsóknar um heimild til að gegna lögvernduðu starfi hér á landi.

Tilvist framangreindra laga nr. 83/1993 leiðir til þess að stjórnvöldum hér á landi, sem falið er að fjalla um útgáfu leyfa til að stunda tiltekna atvinnustarfsemi, er skylt við afgreiðslu umsókna um starfsréttindi að ganga úr skugga um hvort ákvæði laganna, og þá einkum þær tilskipanir EBE og þeir samningar sem lögin taka til, hafi áhrif á úrlausn slíkrar umsóknar gefi gögn málsins tilefni til þess og fjalla um þau atriði með fullnægjandi hætti. Í þessu sambandi minni ég á að með umsóknum A og B fylgdu gögn um menntun þeirra í Svíþjóð, m.a. tiltekin vottorð um þá menntun sem þau höfðu hlotið þar. Þar sem fyrir lá að þau höfðu hlotið menntun sína á EES-svæðinu, og að með umsóknum þeirra fylgdu tiltekin vottorð um þá menntun frá sænskum skóla, tel ég að ráðuneytið hafi borið við meðferð umsóknar þeirra að taka afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti lög nr. 83/1993 og umræddar tilskipanir EBE áttu við í tilviki þeirra og fjalla um það atriði þegar það ákvað að synja erindi þeirra. Ég bendi á að slík athugun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hefði t.d. getað leitt til þess að ráðuneytið hefði talið rétt að óska eftir frekari upplýsingum frá umsækjendum, sbr. 6. gr. laga nr. 83/1993.

Í afgreiðslu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem hér er til umfjöllunar var ekkert vikið að því hvort og þá með hvaða hætti tilskipun 89/48/EBE eða tilskipun 92/51/EBE ætti við um umsóknir A og B til að starfa sem sjúkranuddarar hér á landi. Var aðeins vísað til umsagnar landlæknis sem byggð var á því að nám þeirra uppfyllti ekki viðmiðunarreglur sem embættið hafði sett sér. Ég tek af því tilefni fram að í umsóknum þeirra A og B og bréfum lögmanns þeirra til ráðuneytisins var ekki beinlínis vikið að hugsanlegum rétti þeirra á grundvelli nefndra tilskipana eða laga nr. 83/1993. Umfjöllun ráðuneytisins var því að þessu leyti í samræmi við umsóknirnar. Sjónarmiðum um rétt á grundvelli umræddra tilskipana er hins vegar hreyft í kvörtun A og B til mín. Eins og ég hef vísað til hér að framan gera lög nr. 83/1993 og þær tilskipanir sem voru tilefni þeirrar lagasetningar ráð fyrir að stjórnvöld hafi ákveðið frumkvæði um að haga afgreiðslu umsókna um starfsréttindi þannig að gætt sé að því hvort og þá hvaða réttindi umsækjandi kann að eiga á grundvelli þessara réttarreglna. Ég tel samkvæmt þessu að skort hafi á það við afgreiðslu á umsóknum A og B að tekin væri afstaða til þess hvaða þýðingu þær reglur sem leiða af lögum nr. 83/1993 hefðu í málum þeirra. Var slíkt nauðsynlegt til þess að fullnægt væri þeim skyldum sem hvíldu á ráðuneytinu í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og til að leggja að lögum réttan grundvöll að úrlausn málsins. Samkvæmt þessu er það niðurstaða mín að annmarkar hafi að þessu leyti verið á meðferð ráðuneytisins í tilefni af umsóknum A og B og synjun þess, dags. 8. ágúst 2001. Ég tek fram að í þessu áliti hefur ekki verið tekið nein afstaða til þess hvort lög nr. 83/1993 eða umræddar tilskipanir EBE hafi átt að leiða til annarrar efnislegar niðurstöðu en fram kom í ofangreindu bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til lögmanns þeirra 8. ágúst 2001.

Ég tek fram að ekki er tilefni til að fjalla sérstaklega um það hér hvort ráðuneytið hafi veitt öðrum umsækjendum með sambærilega menntun og A og B löggildingu sem sjúkranuddarar. Ég bendi hins vegar á að af lista ráðuneytisins yfir útgefin leyfi í sjúkranuddi, skóla og lönd, sem það útbjó samkvæmt beiðni lögmanns þeirra, má ráða að eftir að landlæknisembættið hóf að taka mið af áðurnefndum viðmiðunarreglum frá 1991-1992 við mat á námi umsækjenda hafa eingöngu umsækjendur, sem lokið hafa prófi frá Kanada eða Þýskalandi fyrir utan einn sem lauk prófi í Bandaríkjunum, hlotið leyfi ráðuneytisins sem sjúkranuddarar.

4.

Að því virtu að hér reynir á lagareglur um starfsréttindi heilbrigðisstétta tel ég rétt að minna á þau sjónarmið sem ég rakti í álitum mínum frá 5. mars 1999 í máli nr. 2241/1997, frá 25. september 2001 í málum nr. 3064/2000 og 3108/2000 og frá 7. mars 2002 í máli nr. 3133/2000.

Í þessum málum vék ég m.a. að því hvaða kröfur 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 gerir til forms og efnis löggjafar sem mælir fyrir um skilyrði fyrir veitingu starfsréttinda af hálfu stjórnvalda til þeirra sem stunda vilja störf á heilbrigðissviði. Benti ég á að væru aðstæður með þeim hætti að einstaklingur hefði menntun og þjálfun í ákveðinni starfsgrein gæti það haft mikla þýðingu fyrir hann að geta starfað í greininni. Væri honum að lögum bannað að starfa og kynna sig undir ákveðnu starfsheiti án leyfis stjórnvalda fæli það í sér takmörkun á möguleikum hans til að nýta aflahæfi sitt til þeirrar atvinnu. Í ljósi þessa og með vísan til dómaframkvæmdar Hæstaréttar taldi ég að gera yrði ráð fyrir því að meginreglur um skerðingar á rétti manna til atvinnu og þar með almenn skilyrði til að hljóta leyfi þyrftu að koma fram í lögum. Var það niðurstaða mín að verulegur vafi léki á því að þau lagaákvæði sem á reyndi í þessum málum hefðu að geyma fullnægjandi fyrirmæli löggjafans um þær meginreglur um takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar sem nauðsynleg væri til þess að umræddir einstaklingar gætu starfað sem heilbrigðisstarfsmenn.

Ég tel rétt með tilliti til þeirra lagareglna sem á reynir í þessu máli, þ.e. ákvæði laga nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, að ítreka þau sjónarmið sem ég reifaði í framangreindum álitum. Þá minni ég loks á að í áliti mínu frá 25. september 2001 í málum nr. 3064/2000 og 3108/2000 tók ég fram í niðurstöðukafla álitsins að ég hefði ákveðið, vegna framangreindra sjónarmiða um vafa á samræmi umræddra lagaákvæða við fyrirmæli stjórnarskrárinnar, að vekja athygli Alþingis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, á álitinu. Þá taldi ég í því sambandi rétt að vekja athygli á því að þörf kynni að vera á að taka jafnframt ýmis önnur ákvæði laga um starfsleyfi á heilbrigðissviði til athugunar af sama tilefni.

5.

Kvörtun A og B beinist einnig að því að málsmeðferð ráðuneytisins í máli þeirra hafi tekið of langan tíma.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Í reglunni felst áskilnaður um að aldrei megi vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Ég vek athygli á því að bæði í tilskipun 89/48/EBE og 92/51/EBE er sérregla um málshraða í málum sem falla undir tilskipanirnar. Þar kemur fram að taka skuli fyrir umsókn um starf í lögverndaðri starfsgrein svo skjótt sem verða má og skal greina frá rökstuddri niðurstöðu í málinu eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að lögð hafa verið fram öll viðeigandi skjöl um hlutaðeigandi aðila.

Eins og áður er rakið bárust umsóknir þeirra A og B um starfsleyfi sem sjúkranuddarar ráðuneytinu 22. september 1998. Sama dag eru umsóknirnar sendar landlækni til umsagnar, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 204/1987, um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara með áorðnum breytingum skv. reglugerð nr. 285/1989. Umsögn landlæknis barst ráðuneytinu 6. júlí 2000. Tæpum tveimur mánuðum síðar eða 11. september s.á. var þeim A og B veittur frestur í einn mánuð til að koma að athugasemdum sínum við umsögn landlæknis. Í kjölfar athugasemda þeirra 16. nóvember 2000 eru umsóknirnar ásamt athugasemdunum sendar landlækni aftur til umsagnar. Eftir ítrekun ráðuneytisins 19. mars 2001 berst umsögn landlæknis 29. s.m. Er þeim A og B veittur frestur til að andmæla þessari umsögn landlæknis til 30. apríl s.á. Athugasemdir þeirra ásamt viðbótargögnum bárust ráðuneytinu 15. og 23. maí 2001. Í kjölfarið eru þessi gögn send landlækni til umsagnar. Síðasta umsögn landlæknis berst ráðuneytinu 19. júlí 2001 og 8. ágúst s.á. er lögmanni þeirra A og B tilkynnt niðurstaða ráðuneytisins.

Samkvæmt seinni málslið 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald tiltaka fyrir hvaða tíma óskað er eftir að umsagnaraðili láti í té umsögn sína. Í öllum framangreindum umsagnarbeiðnum til landlæknis var embættinu ekki settur frestur til að láta í té umsagnirnar. Í fyrsta tilvikinu liðu tæplega 22 mánuðir eða hátt í tvö ár frá því að umsagnar var óskað og þar til hún barst ráðuneytinu. Af svari ráðuneytisins frá 3. október 2001 við fyrirspurn minni má ráða að ráðuneytið hafi ekki ítrekað umsagnarbeiðni sína. Rúmlega fjórir mánuðir liðu frá því umsagnar númer tvö var óskað og þar til hún barst ráðuneytinu eða tíu dögum eftir að hún var ítrekuð af ráðuneytinu. Að lokum liðu um tveir mánuðir frá því síðustu umsagnarinnar var óskað og þar til hún barst ráðuneytinu. Ráðuneytið fellst á að óeðlilega langur tími hafi liðið frá móttöku umsóknar og þar til fyrsta umsögn landlæknis barst. Bendir ráðuneytið á að þar sem á þessum tíma hefðu ekki verið lögð fram nein viðbótargögn sem hefðu getað breytt niðurstöðu landlæknis gátu þau A og B átt von á að um sambærilega niðurstöðu yrði að ræða. Hins vegar fellst ráðuneytið ekki á að um óeðlilegan drátt á afgreiðslu málsins hafi verið að ræða eftir það. Af þessu tilefni tel ég rétt að taka fram að athugasemdir lögmanns þeirra A og B beindust einkum að því að umsagnir landlæknis væru órökstuddar. Að mínu áliti skiptir í þessu sambandi ekki máli hvaða væntingar þau höfðu um afgreiðslu málsins hjá ráðuneytinu. Þá tek ég fram að gögn málsins bera ekki með sér að þeim A og B hafi verið tilkynnt um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga verður að meta í hverju tilviki hvað telst hæfilegur málsmeðferðartími samkvæmt ákvæðinu. Mál það sem hér hefur verið til umfjöllunar varðar möguleika þeirra A og B til að fá leyfi til þess að starfa við þá starfsgrein sem þau hafa menntað sig í og er því um verulega hagsmuni þeirra að ræða. Fyrir liggur að afgreiðsla á umsóknum þeirra hjá ráðuneytinu tók tæplega þrjú ár. Þar af voru þær í umsögn hjá landlæknisembættinu fyrst í tæplega tvö ár, síðan í um fjóra mánuði og að lokum í tvo mánuði. Ekki verður séð að gerður hafi verið neinn reki að því af hálfu ráðuneytisins að hraða afgreiðslu málsins. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan verður að telja að dregist hafi úr hófi að afgreiða umsóknir þeirra A og B og meðferð málsins ekki samrýmst málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða mín að á hafi skort við afgreiðslu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á umsóknum A og B að tekin væri afstaða til þess hvaða þýðingu þær reglur sem leiða af lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, hefðu í málum þeirra. Þá er það niðurstaða mín að afgreiðsla ráðuneytisins á umsóknunum hafi ekki samrýmst ákvæði 9. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af þessu tel ég rétt að beina þeim tilmælum til ráðuneytisins að það taki mál þeirra A og B fyrir að nýju, komi fram ósk þess efnis frá þeim, og taki við þá málsmeðferð mið af niðurstöðum mínum í áliti þessu.

Ég tel rétt með tilliti til þeirra lagareglna sem á reynir í þessu máli, þ.e. ákvæði laga nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, að minna á þau sjónarmið sem ég reifaði í álitum mínum frá 5. mars 1999 í máli nr. 2241/1997, frá 25. september 2001 í málum nr. 3064/2000 og 3108/2000 og frá 7. mars 2002 í máli nr. 3133/2000.

VI.

Með bréfi til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 11. febrúar 2003, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A og B hefðu leitað til ráðuneytisins á ný og hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða hvort mál þeirra væri enn til meðferðar. Þann 13. maí 2003 barst mér afrit bréfs heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til lögmanns A og B, dagsett 12. sama mánaðar. Þar kemur fram að A og B hafi farið fram á endurupptöku máls síns hjá ráðuneytinu með bréfi, dags. 22. ágúst 2002. Í niðurlagi bréfs ráðuneytisins segir m.a. svo:

„Ráðuneytið aflaði gagna frá Svíþjóð þar sem fram kemur að nám umsækjenda er ekki viðurkennt sem æðra nám þar í landi, sbr. bréf Högskoleverket, dags. 21. febrúar 2003. Samkvæmt bréfi Socialstyrelsen, dags. 7. ágúst 2002, er nám umsækjenda ekki löggilt starfsgrein í Svíþjóð og þurfa þeir því ekki starfsleyfi til að starfa þar fremur en nuddarar á Íslandi. Samkvæmt framansögðu uppfyllir nám umsækjenda ekki þær kröfur sem 1. gr., sbr. 3. gr. tilskipunar 89/98/EBE gerir til umsækjenda um starfsleyfi. Umsókn [A] og [B] um starfsleyfi sem sjúkranuddarar er því hafnað.“