Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11933/2022)

Kvartað var yfir einu og öðru á Litla-Hrauni. 

Að fengnum skýringum fangelsisins taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. mars 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 23. nóvember sl. er  lýtur að töfum á því að þér fengjuð að ræða við félagsráðgjafa, töfum á áformaðri blóðprufu, því að nánum vini yðar hafi verið vísað frá fangelsinu þegar hann hugðist heimsækja yður og að að þér hafið ekki fengið að fara í hárklippingu.

Í tilefni af kvörtun yðar var fangelsinu ritað bréf 7. desember sl. þar sem óskað var upplýsinga um framangreind umkvörtunarefni yðar auk gagna, sem eftir atvikum gætu varpað ljósi á þau. Var erindið ítrekað 12. janúar og 16. febrúar sl.

Svar fangelsisins barst 21. mars sl. en þar kemur fram að annars vegar hafið þér óskað eftir viðtali við félagsráðgjafa 3. ágúst sl. og hafi það viðtal farið fram 8. september sl. og hins vegar hafi þér óskað eftir viðtali 15. nóvember sl. og það viðtal farið fram 24. sama mánaðar. Í bréfinu er og staðfest að færa hafi þurft tíma yðar í blóðprufu til vegna annarra verkefna sem ekki hafi getað beðið. Í stað hins niðurfellda tíma hafi þó verið fundinn annar tími þar sem þér hafið getað hitt heilbrigðisstarfsmann.

Þá kemur fram í svari fangelsisins að vegna mistaka hafi sú fyrirhugaða heimsókn, sem þér vísið til, verið skráð á rangan dag. Af þeim sökum hafi starfsmenn fangelsisins komið af fjöllum þegar umræddur gestur yðar kom í fangelsið og fyrir vikið vísað honum frá. Tekið er fram að eftir að mistökin uppgötvuðust hafi þér verið beðnir afsökunar á þeim og boðið að fá aðra heimsókn hvenær sem þér vilduð.

Að endingu kemur fram í svarinu að hárskeri frá Selfossi hafi verið fenginn til að klippa hár yðar en þess einnig getið að fangar nýti sér jafnan þjónustu samfanga sinna í þessum tilgangi. Af þeim sökum sé minni eftirspurn en áður eftir þjónustu hárskera frá Selfossi.

Í ljósi þess sem rakið hefur verið um viðbrögð fangelsisins við umkvörtunum yðar tel ég ekki forsendur til að halda áfram athugun minni á henni. Í tilefni af athugasemdum í kvörtun yðar minni ég þó á að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsis­sviptra, þ.á m. fanga, á almennum grunni. Athugasemdir yðar verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd þessa eftirlits. Áréttað er að það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ekki séu forsendur til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.