Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Húsnæðismál.

(Mál nr. 12069/2023)

Kvartað var yfir töfum á málsmeðferð Reykjavíkurborgar vegna úthlutunar félagslegs leiguhúsnæðis.  

Þar sem ekki lá annað fyrir en tafir innan málaflokksins væru almennar en ekki bundnar við þetta mál lét umboðsmaður staðar numið í athugun sinni. Viðkomandi var h.v. bent á að mögulegt væri að kæra óhæfilegar tafir á afgreiðslu málsins til úrskurðarnefndar velferðarmála.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. mars 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 26. febrúar sl. sem beinist að töfum á málsmeðferð Reykjavíkurborgar vegna úthlutunar félagslegs leiguhúsnæðis.

Í tilefni af kvörtun yðar var Reykjavíkurborg ritað bréf 10. mars sl. þar sem óskað var upplýsinga um í hvaða farvegi mál yðar væru hjá Reykjavíkurborg. Svar Reykjavíkurborgar barst 29. mars sl. en þar kemur fram að þér hafið sótt um almennt félagslegt leiguhúsnæði með umsókn dagsettri 4. febrúar 2022. Í bréfinu kemur og fram að umsókn yðar sé metin til tólf stiga samkvæmt matsviðmiðum Reykjavíkurborgar vegna úthlutunar félagslegs leiguhúsnæðis en samkvæmt reglum þurfi umsókn að vera metin til að minnsta kosti tíu stiga til að vera samþykkt á biðlista og umsókn yðar sé því á biðlista. Þá segir í bréfinu að úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fari að jafnaði fram vikulega á fundum svonefndra úthlutunarteyma. Að endingu er því lýst að í árslok 2022 hafi fjöldi umsókna á biðlista eftir tveggja herbergja íbúð verið alls 589 og meðalbiðtími eftir úthlutun 21 mánuður.      

Ég tek fram að þótt ekki komi skýrt fram í svörum Reykjavíkurborgar hvenær nákvæmlega sé gert ráð fyrir að máli yðar ljúki verður ekki betur séð en að það sé í farvegi hjá sveitarfélaginu. Í ljósi þess og þeirra skýringa sem ég hef fengið fyrir þeirri stöðu sem uppi er hvað varðar málshraða tel ég ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega í máli yðar að svo stöddu en ekki liggur annað fyrir en að tafir innan málaflokksins séu almennar ekki bundnar við mál yðar sérstaklega. Hef ég því ákveðið að ljúka meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Vegna kvörtunar yðar og þeirrar stöðu sem uppi er í máli yðar tel ég rétt að benda yður á að samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra óhæfilegar tafir á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds, sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Í ljósi þessa bendi ég yður á að samkvæmt að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, er heimilt að kæra stjórnvalds­ákvarðanir teknar samkvæmt lögum þessum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Ef þér teljið sérstakt tilefni til getið þér getið því freistað þess að kæra tafir á málsmeðferð Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.