Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Skattar og gjöld.

(Mál nr. 12072/2023)

Kvartað var yfir því að ríkisskattstjóri hefði ekki afgreitt beiðni frá janúar 2022 um leiðréttingu álagningar opinberra gjalda á dánarbú.  

Ríkisskattstjóri upplýsti að brugðist hefði verið við í kjölfar beiðninnar á sínum tíma en farist hefði fyrir að ljúka málinu með fullnægjandi hætti. Orðið hefði verið við óskum viðkomandi og í kjölfarið skerpt á verkferlum til að koma í veg fyrir tafir sem þessar. Lét því umboðsmaður athugun sinni lokið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. mars 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 28. febrúar sl. yfir því að ríkisskattstjóri hafi enn ekki afgreitt beiðni yðar frá janúar 2022 um leiðréttingu álagningar opinberra gjalda á dánarbúið.

Í tilefni af kvörtuninni var ríkisskattstjóra ritað bréf 10. mars sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort ofangreind beiðni hefði borist og eftir atvikum hvað liði meðferð og afgreiðslu hennar. Nú hefur borist svarbréf frá ríkisskattstjóra 24. mars sl. þar sem fram kemur að ríkisskattstjóri hafi í kjölfar beiðni yðar talið rétt að bakfæra upphaflega breytingu á skattframtali dánarbúsins vegna ársins 2021. Hins vegar hafi farist fyrir að ljúka málinu með fullnægjandi hætti. Ríkisskattstjóri hafi 22. mars sl. framkvæmt skattbreytingu til samræmis við umbeðna leiðréttingu og mun tilkynning þar að lútandi hafa verið send yður. Þá hafi verið skerpt á gildandi verkferlum við meðferð mála sem þessara í því skyni að koma í veg fyrir afgreiðslutafir sem þessar.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu máls og í ljósi þess að ríkisskattstjóri hefur nú lokið afgreiðslu máls yðar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni.

Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.