Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Fjárhagsaðstoð. Leiðbeiningarskylda. Kæruleiðbeiningar. Svör við erindum.

(Mál nr. 12075/2023)

Kvartað var yfir málsmeðferð velferðarsviðs Kópavogsbæjar í tengslum við umsóknir um fjárhagsaðstoð.

Ekki varð betur séð en bærinn hefði almennt svarað erindunum og veitt viðeigandi upplýsingar. Benti umboðsmaður viðkomandi á að kæra mætti ákvarðanirnar til úrskurðarnefndar velferðarmála og ekki væru skilyrði til að hann fjallaði um þær fyrr en að fengnum úrskurði nefndarinnar. Hins vegar varð ekki annað ráðið af gögnum málsins en Kópavogsbær hefði ekki leiðbeint um kæruheimildina eða kærufresti og var bænum því sent ábendingarbréf þar að lútandi.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. mars 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 1. mars sl. yfir málsmeðferð velferðarsviðs Kópavogsbæjar í tengslum við umsóknir yðar um fjárhagsaðstoð. Í kvörtun yðar eru m.a. gerðar athugasemdir við að yður hafi verið greitt lán til framfærslu án þess að yður hafi verið gerð grein fyrir þeim skilmálum sem lánveitingin var bundin. Þá lýtur kvörtun yðar að því að beiðnum yðar um frekari upplýsingar og skýringar á skilmálunum hafi ekki verið svarað.

Í tilefni af kvörtun yðar var Kópavogsbæ ritað bréf 9. mars sl. þar sem þess var óskað að sveitarfélagið léti umboðsmanni í té upplýsingar sem varpað gætu ljósi á þann farveg sem mál yðar var lagt í hjá sveitarfélaginu og upplýsti hvort beiðnum yðar um upplýsingar hefði verið svarað. Svar Kópavogsbæjar ásamt umbeðnum gögnum barst 21. mars sl. Þar kemur fram að með tölvupósti til yðar 30. nóvember sl. hafi yður verið tilkynnt um að umsókn yðar um fjárhagsaðstoð hefði verið afgreidd en hún myndi verða greidd sem lán þar til frekari upplýsingar bærust um tekjur maka yðar eða staðfesting á skilnaði. Með tölvubréfi 31. janúar sl. tilkynnti sveitarfélagið yður að í ljósi upplýsinga frá skattyfirvöldum þess efnis að þér hefðuð haft tekjur í desember 2022 bæri yður að endurgreiða umrætt lán þar sem þér hefðuð ekki átt rétt til fjárhagsaðstoðar. Þá verður ráðið af svari sveitarfélagsins og meðfylgjandi gögnum að yður hafi verið boðið að skipta greiðslunum sem þér munuð hafa þegið.

Eftir að hafa kynnt mér svör sveitarfélagsins og meðfylgjandi gögn fæ ég ekki betur séð en að erindum yðar hafi almennt verið svarað. Þá mun yður hafa verið veittar upplýsingar um skilmála lántökunnar í viðtali í nóvember 2022. Af þeim sökum tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar að því marki sem kvörtun yðar lýtur að því að erindum yðar hafi ekki verið svarað.

Hvað varðar athugasemdir yðar við afgreiðslu sveitarfélagsins á umsókn yðar um fjárhagsaðstoð tek ég fram að fjallað er um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga í VI. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 21. gr. segir að sveitarstjórn skuli setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Á þessum grunni hefur Kópavogsbær sett sér reglur um fjárhagsaðstoð, þar sem m.a. kemur fram að skjóta megi synjun um fjárhagsaðstoð til velferðarráðs Kópavogs, sbr. 13. gr. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna er aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Þar sem ekki liggur fyrir að þér hafið borið framangreindar ákvarðanir sveitarfélagsins og athugasemdir yðar við meðferð sveitarfélagsins á umsókn yðar um fjárhagsaðstoð undir úrskurðarnefnd velferðarmála eru ekki skilyrði að lögum til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu.

Rétt er að taka fram að ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að þriggja mánaða kærufrestur 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 5. mgr. 33. gr. a laga nr. 92/2008 kunni að vera liðinn, a.m.k. í tilfelli fyrri ákvörðunar Kópavogsbæjar frá 30. nóvember sl. Þá verður ekki séð að yður hafi verið leiðbeint um kæru­heimild eða kærufresti, svo sem skylt er samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993.

Ef þér ákveðið að kæra ákvarðanir sveitarfélagsins til úrskurðarnefndar velferðarmála og hún telur að kæra yðar hafi borist að liðnum þriggja mánaða kærufresti reynir á hvort nefndinni sé rétt að taka kæruna samt sem áður til meðferðar á grundvelli 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þar er mælt fyrir um að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr. Litið hefur verið svo á að skilyrði þessa ákvæðis geti verið uppfyllt hafi verið veittar ófullnægjandi kæruleiðbeiningar.

Í ljósi framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Ég tel einnig rétt að upplýsa að ég hef ritað Kópavogsbæ bréf það sem fylgir hjálagt í ljósriti.

   

  


    

Bréf umboðsmanns til Kópavogsbæjar 27. mars 2023

   

Vísað er til fyrri samskipta í tilefni af kvörtun A yfir málsmeðferð velferðarsviðs Kópavogsbæjar í tengslum við umsóknir hans um fjárhagsaðstoð.

Eins og fram kemur í bréfi mínu til A, sem fylgir hér með í ljósriti, hef ég ákveðið að ljúka umfjöllun minni um kvörtunina, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á þessu máli orðið mér tilefni til að koma eftir­farandi ábendingum á framfæri og þá með það í huga að umrædd atriði verði höfð í huga við meðferð hliðstæðra mála hjá embætti yðar.

Þegar stjórnvaldsákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skal veita leiðbeiningar um heimild aðila til þess að fá hana rökstudda og kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti, kærugjöld svo og hvert skuli beina kæru, sbr. 1. og 2. tölulið 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hins vegar þarf ekki að veita slíkar leiðbeiningar ef um­sókn aðila hefur verið tekin til greina að öllu leyti, sbr. 3. og 4. mgr. 20. gr.

Við athugun mína á máli þessu vakti það athygli að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum sem bárust frá lögfræðingi sveitarfélagsins 23. mars sl. var A tilkynnt um ákvarðanir sveitarfélagsins annars vegar um að fallast á umsókn hans um fjárhagsaðstoð en veita hana í formi láns og hins vegar um að endurkrefja hann um téð lán með tölvupóstum 30. nóvember 2022 og 31. janúar sl. án þess að þar kæmu fram leiðbeiningar um heimild til að fá ákvörðunina rökstudda eða kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í fyrrgreindu svari lögfræðingsins 23. mars sl. kom enn fremur fram að eingöngu í þeim tilvikum þegar umsókn um fjárhagsaðstoð er synjað sé sent út „bréf um afgreiðslu og leiðbeint með kæruleiðir, sbr. 11. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð“. Þar sem kæranda hafi ekki verið synjað um fjárhagsaðstoð hafi slíkt bréf ekki verið sent. Af kvörtun A verður ekki annað ráðið en að hann hafi með umsókn sinni óskað eftir fjárhagsaðstoð í formi styrks en það veitt sem lán. Ég tek fram að svari sveitarfélagsins fylgdu ekki gögn sem varpa ljósi á hvernig umsókn hans var sett fram. Í ljósi þeirrar afstöðu sem fram kemur í svari lögfræðings sveitarfélagsins og þar sem ekki verður séð miðað við fyrirliggjandi gögn að orðið hafi verið að öllu leyti við umsókn A minni ég á að eingöngu er heimilt að víkja frá þeim reglum um leiðbeiningar sem fram koma í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga þegar umsókn aðila hefur verið tekin til greina að fullu. 

Í ljósi framangreinds og þess að leiðbeiningar samkvæmt 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga var ekki að finna í tilkynningum sveitarfélagsins til A kem ég þeirri ábendingu á framfæri að betur verði gætt að því að þær verði veittar við meðferð hliðstæðra mála hjá stofnuninni í framtíðinni.