Skattar og gjöld. Tekjuskattur. Jafnrétti kynjanna. Jafnræðisregla.

(Mál nr. 12040/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun matsnefndar um frádráttarrétt erlendra sérfræðinga um að hafna umsókn um frádrátt frá tekjuskattsstofni.  

Þar sem ákvæði laga og reglugerðar um búsetutíma og umsóknarfrest hvað þetta snertir eru, samkvæmt orðanna hljóðan, afdráttarlaus og án undantekninga varð ekki séð að þau heimiluðu nefndinni að víkja frá skilyrðum. Nefndin afgreiddi því umsóknina í samræmi við lögmælt hlutverk sitt. Ekki kom heldur fram að þau skilyrði sem reyndi á í málinu hafi falið í sér óbeina mismunun vegna þungunar, þannig að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. apríl 2023.

  

  

I

Vísað til kvörtunar yðar 2. febrúar sl. yfir ákvörðunum matsnefndar um frádráttarrétt erlendra sérfræðinga 21. september og 13. október 2022 um að hafna umsókn yðar um frádrátt frá tekjuskattsstofni á grundvelli 6. töluliðar A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Bæði upphaflega ákvörðunin og staðfesting hennar við endurupptöku málsins voru reistar á því að þér hefðuð ekki uppfyllt skilyrði þau sem kveðið er á um í fyrrgreindum töluliði. Í tilefni kvörtunarinnar var matsnefndinni ritað bréf 8. febrúar sl. þar sem umboðsmaður óskaði eftir afriti af gögnum málsins og nánari skýringum. Svör bárust með bréfi nefndarinnar 22. sama mánaðar og athugasemdir yðar þar að 10. mars sl. 

   

II

1

Eitt skilyrðanna í 6. tölulið A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 lýtur að búsetu og er sem hér segir:  

Erlendur sérfræðingur hafi ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á næsta 60 mánaða samfelldu tímabili fyrir upphaf starfa hans hér á landi, en þó þannig að fyrstu þrír mánuðir dvalar hérlendis teljast ekki með.

Þá er tekið fram að umsókn til matsnefndarinnar, sem ætlað er að hafna eða staðfesta að umsækjandinn uppfylli sett skilyrði, skuli berast eigi síðar en þremur mánuðum eftir að erlendur sérfræðingur hóf störf hér á landi.

Framangreint búsetuskilyrði er jafnframt tiltekið í a-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1202/2016, um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga, með efnislega sama orðalagi. Í 2. málslið 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir enn fremur að umsókn skuli berast nefndinni eigi síðar en þremur mánuðum frá þeirri dagsetningu sem starfsmaður hóf störf hérlendis ella skuli henni hafnað. Þá er tekið fram í 2. mgr. 3. gr. að umsókn skuli fylgja staðfesting Þjóðskrár Íslands á íslensku heimilisfangi og því að skilyrði a-liðar 2. mgr. 2. gr. séu uppfyllt.

Framangreind ákvæði laga og reglugerðar um búsetutíma og umsóknarfrest eru, samkvæmt orðanna hljóðan, afdráttarlaus og án nokkurra undantekninga. Verður því ekki séð að þau heimili nefndinni að víkja frá skilyrðum um þriggja mánaða hámarkstíma hvort sem um er að ræða búsetu hérlendis fyrir upphaf starfa eða frest frá upphafi starfa þar til sótt er um skattafrádrátt. Þá er 2. málsliður 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1202/2016 ótvíræður um að hafna skuli umsókn berist hún meira en þremur mánuðum eftir að viðkomandi sérfræðingur hóf störf hér á landi.

  

2

Umsókn yðar til nefndarinnar, sem barst henni 19. september 2022, fylgdu m.a. búsetutímavottorð frá Þjóðskrá Íslands og ráðningarsamningur við Landspítala. Í þessum gögnum kemur fram að þér hafið átt lögheimili á Íslandi frá 30. desember 2021 til útgáfudags vottorðsins 22. ágúst 2022. og upphafsdagur ráðningar yðar til Landspítala hafi verið 1. september þess árs.

Í tölvubréfi 21. september 2022, þar sem yður var tilkynnt um höfnun umsóknarinnar, var vísað til þess að skilyrði a-liðar 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1202/2016 væri ekki uppfyllt. Í tölvubréfi 13. október 2022, þar sem yður var tilkynnt að farið hefði verið yfir umsóknina öðru sinni, kvað nefndin fyrri ákvörðun um höfnun vegna lögheimilissögu standa. Í skýringum til umboðsmanns Alþingis vísaði nefndin til þess að þér hefðuð í fyrstu ráðgert að hefja störf haustið 2021 en vegna fæðingarorlofs hefði það frestast til 1. september 2022. Um ákvarðarnir nefndarinnar sagði þar enn fremur að í umfjöllun sinni um málið hefði hún komist að þeirri niðurstöðu „að hvort sem litið væri til fyrri dagsetningarinnar eða þeirrar síðari þá væru skilyrði framangreindra laga og reglugerðar ekki uppfyllt“. Af framangreindu verður ráðið að við meðferð umsóknar yðar, a.m.k. hinnar síðari, hafi matsnefndin leitast við að koma til móts við aðstæður yðar með því að kanna sérstaklega hvort skilyrði 6. töluliðar A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 teldust uppfyllt ef upphaf starfa yðar hefði miðast við haustið 2021 svo sem samskipti yðar við Landspítala fyrr á því ári gefa til kynna að bundið hafi verið fastmælum. 

  

3

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftir­lit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum um hann og tryggja rétt borgarana gagnvart stjórn­völdum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórn­sýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Kveðið er á um hlutverk matsnefndar um frádráttarrétt erlendra sérfræðinga í 6. tölulið A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 með þeim orðum að nefndin skuli:  

[...] fara yfir þær umsóknir sem berast og meta þær m.a. með tilliti til menntunarstigs, sérþekkingar, reynslu og fjárhæðar launa. Telji nefndin umsækjanda uppfylla skilyrði ákvæðisins skal hún veita umsækjanda staðfestingu á því en hafna umsókn ella. Afrit af staðfestingu umsóknar skal senda ríkisskattstjóra.

Eftir yfirferð á gögnum málsins fæ ég ekki annað séð en að matsnefndin hafi afgreitt umsókn yðar í samræmi við lögmælt hlutverk sitt og þær reglur sem hér áttu við og áður er gerð grein fyrir. Í ljósi þess sem áður er rakið tel ég heldur ekki fram komið að þau skilyrði um hámarkstíma, sem sérstaklega reyndi á í málinu, hafi falið í sér óbeina mismunun gagnvart gagnvart yður, sem barnshafandi konu, þannig að brotið hafi gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

   

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.