Menntamál. Starfsnám lögreglu.

(Mál nr. 11857/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun ríkislögreglustjóra um að synja umsókn um starfsnám hjá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu. Mat á umsókninni hefði ekki verið í samræmi við ákvæði lögreglulaga um inntökuskilyrði nema í starfsnám lögreglu.  

Ekki voru forsendur til að draga í efa að ríkislögreglustjóri hefði lagt heildstætt mat á umsóknina og ekki hægt að fullyrða að það hefði bersýnilega verið ómálefnalegt eða óforsvaranlegt. Umboðsmaður minnti í því sambandi á það svigrúm sem ríkislögreglustjóra verður að játa að þessu leyti og gerði ekki athugasemdir við að ríkar kröfur væru gerðar til umsækjenda við mat á sakaferli og fyrri háttsemi þeirra. Málsmeðferðin og ákvörðun um synjunina hefðu verið í samræmi við lög. Engu að síður var dómsmálaráðherra send ábending um visst ósamræmi sem virtist vera milli skilyrða fyrir veitingu starfa hjá lögreglu annars vegar og inntökuskilyrða í starfsnám hjá lögreglu hins vegar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. apríl 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A yfir ákvörðun ríkislögreglustjóra 13. júní sl. um að synja umsókn hans um starfsnám hjá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu. Lýtur kvörtunin að því að mat á umsókn A hafi ekki verið í samræmi við ákvæði lögreglulaga nr. 90/1996 um inntökuskilyrði nema í starfsnám hjá lögreglu. 

Með bréfi 16. nóvember sl. óskaði umboðsmaður Alþingis eftir afriti af gögnum málsins ásamt nánari upplýsingum og skýringum á þar tilgreindum atriðum. Svör og gögn frá ríkislögreglustjóra bárust 20. desember sl. Með bréfi 21. þess mánaðar var yður sent afrit af svörunum og bárust athugasemdir yðar 12. janúar sl.

  

II

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtun yðar og gögnum málsins hlaut A 30 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm árið 2010 vegna þjófnaðar, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvörðun ríkislögreglustjóra 13. júní 2022 þar sem A var synjað um inngöngu í starfsnám var reist á því að hann teldist vegna þessa ekki uppfylla inntökuskilyrði lögreglulaga auk þess sem vísað var til þess að samkvæmt 28. gr. a. lögreglulaga mætti engan skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hlotið hefði fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára eða sýnt af sér háttsemi sem gæti rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu yrðu að njóta.

Í kvörtun yðar eru gerðar athugasemdir við efnislegt mat ríkislögreglustjóra á umsókn A. Í því sambandi er bent á að þótt A hafi hlotið dóm fyrir refsiverða háttsemi uppfylli hann skilyrði b- liðar 38. gr. lögreglulaga enda teljist það brot sem um ræðir smávægilegt þar sem um hafi verið að tefla smávægilega fjárhæð auk þess sem langt sé um liðið frá því brotið var framið.

  

III

Um menntun lögreglu er fjallað í VIII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996, eins og þeim var breytt með lögum nr. 61/2016. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. starfar mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu innan embættis ríkislögreglustjóra sem hefur meðal annars það hlutverk að annast starfsnám nema í lögreglufræðum við háskóla, sbr. a-lið 2. mgr. 37. gr. Um inntökuskilyrði nema í starfsnámið er síðan fjallað í 38. gr. laganna en þar segir m.a: 

„1. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu annast starfsnám lögreglunema og velur nema í starfsnám í samstarfi við háskóla. Ákvörðun setursins um val á nemum í starfsnám er endanleg. Nemar í starfsnámi skulu fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:

[...]

b. hafa ekki gerst brotlegir við refsilög, þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því það var var framið, né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta,“ 

Sambærileg ákvæði um hlutverk mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu og inntökuskilyrði nema í starfsnámið og nánari útfærsla á þeim skilyrðum sem umsækjendur þurfa að uppfylla koma fram í reglugerð nr. 221/2017, um mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu. Þar er í 7. gr. fjallað um val á nemendum í starfsnám. Í 2. mgr. 7. gr. segir eftirfarandi:  

Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu skal leitast við að velja til starfsnáms þá hæfustu úr hópi umsækjenda á hverjum tíma. Einkum skal þess gætt að velja ekki til starfsnáms einstakling sem ætla má að eigi erfitt með að sinna lögreglustarfi svo að vel fari, svo sem vegna óreglusemi, fjárhagsvanda eða vegna þess að hann hefur hlotið dóm fyrir brot á sérrefsilöggjöf. [...]

Með b-lið 38. gr. lögreglulaga hefur löggjafinn falið ríkislögreglustjóra að leggja mat á fyrri háttsemi og athafnir umsækjenda um inngöngu í starfsnámið og getur í því skyni aflað upplýsinga úr sakaskrá og málaskrá lögreglu, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna. Framangreint ákvæði veitir ákveðið svigrúm til mats þar sem það hefur ekki að geyma nánari útfærslu á því hvaða háttsemi sé til þess fallin að rýra það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta né heldur hvaða brot geti talist „smávægileg“ eða hvenær nægilega langt er um liðið frá því það var framið í skilningi ákvæðisins. Við mat sitt er ríkislögreglustjóri þó sem endranær bundinn við reglur stjórnsýsluréttar um málsmeðferð og efnislega niðurstöðu. Þurfa ákvarðanir hans því að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og vera í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Hefur athugun mín á málinu beinst að því hvort þessum kröfum hafi verið fullnægt.

Í skýringum ríkislögreglustjóra til umboðsmanns Alþingis 20. desember sl. er því mati lýst að umrætt brot A geti ekki talist smávægilegt þótt telja megi að langt sé um liðið frá því að refsing samkvæmt fyrirliggjandi dómi hafi verið tekin út. Í því sambandi er tekið fram að sú háttsemi sem um ræðir hafi falið í sér ítrekaðar úttektir á kort annars einstaklings. Horft hafi verið til eðlis brotsins og tekið fram að það yrði að setja í samhengi við það traust sem lögreglumenn verði að njóta. Það sé ekki síst mikilvægt í smærri samfélögum líkt og á Íslandi.

Af þessu verður ekki annað ráðið en að af tveimur skilyrðum b-liðar 38. gr. lögreglulaga, um brotaferil og traust, hafi síðarnefnda skilyrðið ráðið úrslitum um að A teldist ekki uppfylla skilyrði b-liðar í heild sinni að mati ríkislögreglustjóra en ekki það eitt að hafa hlotið dóm. Þá kemur fram í gögnum málsins að áður en til endanlegs mats og ákvörðunar kom var A gefinn kostur á tjá sig um fyrirhugaða synjun við því að taka hann inn í starfsnámið og andmæli hans voru metin með tilliti til þeirra atriða sem lágu til grundvallar hinni fyrirhuguðu ákvörðun. 

Með hliðsjón af framangreindum skýringum ríkislögreglustjóra hef ég ekki forsendur til að draga í efa að embættið hafi lagt heildstætt mat á umsókn A, m.t.t. framangreindra skilyrða b-liðar 1. mgr. 38. gr. laga nr. 90/1996. Þá tel ég mig ekki heldur hafa forsendur til að fullyrða að mat embættisins að þessu leyti hafi verið bersýnilega ómálefnalegt eða óforsvaranlegt. Í því sambandi minni ég á það svigrúm sem ég tel að játa verði ríkislögreglustjóra við framangreindar aðstæður og tek fram að ég geri ekki athugasemdir við að gerðar séu ríkar kröfur til umsækjenda við mat á sakaferli og fyrri háttsemi þeirra, sbr. b- lið 38. gr. laganna. Hef ég þá í huga sérstakt eðli lögreglustarfa, einkum það hlutverk sem lögreglunni er falið við að halda uppi lögum og reglu í landinu og þær umfangsmiklu heimildir sem henni eru fengnar með lögum til ýmiskonar íhlutunar og valdbeitingar gagnvart borgurunum við rækslu lögreglustarfa, sbr. t.d. 14. gr. lögreglulaga.

Ég tek einnig fram að ég get ekki fallist á þá athugasemd í kvörtun yðar, sbr. einnig andmælabréf A 12. maí sl., að túlka verði síðara skilyrði umrædds b-liðar á þann hátt að þar sé átt við háttsemi sem sönnuð sé og ámælisverð en hafi ekki verið felld undir refsiákvæði. Þvert á móti verður við túlkun ákvæðisins að ganga út frá að sú staða geti verið uppi að umsækjandi hafi gerst brotlegur við refsilög og að fyrirvarinn um grófleika brots og fjarlægð í tíma eigi við en engu að síður sé brotið metið þess eðlis að telja verði að það, eða sú háttsemi sem í því fólst, geti rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta.

Athugasemdir yðar vegna svara ríkislögreglustjóra, um að A hafi verið ranglega sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og að ríkislögreglustjóri hafi veitt samþykki fyrir ráðningu A í lögreglustarf með úthlutun h-númers geta ekki haggað þessari niðurstöðu minni. Horfi ég þá til þess að í umræddu sakamáli liggur fyrir endanlegur dómur sem er bindandi um úrslit sakarefnisins og með fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað, sbr. 186. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Þá eru í kvörtun yðar gerðar athugasemdir við að ríkislögreglustjóri hafi við mat á umsókn A litið til 28. gr. a. lögreglulaga þar sem fram kemur að engan megi skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára. Af því tilefni tek ég fram, líkt og að framan rakið, að þrátt fyrir framangreinda tilvísun ríkislögreglustjóra til umrædds ákvæðis fæ ég ekki séð af skýringum ríkislögreglustjóra að ákvæðið hafi ráðið úrslitum við mat á umsókn yðar heldur hafi synjunin fyrst og fremst verið reist á því að A fullnægði ekki framangreindu skilyrði b-liðar 38. gr. laganna. Ég tel því ekki tilefni til að fjalla frekar um athugasemdir yðar að þessu leyti. Engu að síður hafa atvik þessa máls orðið mér tilefni til þess að rita dómsmálaráðherra hjálagt bréf með ábendingu um visst ósamræmi sem virðist vera milli skilyrða fyrir veitingu starfa hjá lögreglu annars vegar og inntökuskilyrða í starfsnám hjá lögreglu hins vegar, sbr. 28. gr., 28 gr. a og 38. gr. laga nr. 90/1996.

Niðurstaða mín er því sú að ég tel ekki efni til að líta svo á að málsmeðferð eða ákvörðun um að synja umsókn A um starfsnám hafi verið í ósamræmi við lög.

  

IV

Með vísan til alls framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

   

  


  

Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðherra 14. apríl 2023.

  

Umboðsmaður Alþingis hefur haft til meðferðar kvörtun einstaklings yfir ákvörðun ríkislögreglustjóra 13. júní sl. um að synja umsókn hans um starfsnám. Lýtur kvörtunin m.a. að því að ríkislögreglustjóri hafi í ákvörðun sinni m.a. byggt á 28. gr. a lögreglulaga nr. 90/1996.

Eins og fram kemur í bréfi til mannsins, sem nafnhreinsað fylgir bréfi þessu í ljósriti, lauk umfjöllun um kvörtun hans með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það telur umboðsmaður rétt að vekja athygli ráðu­neytis yðar á vissu ósamræmi í lögreglulögum milli skilyrða fyrir veitingu starfa hjá lögreglu annars vegar og inntöku í starfsnám hjá lögreglu hins vegar.

Samkvæmt fyrri málslið 28. gr. a laga nr. 90/1996 má engan skipa setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Þegar 28. gr. a kom fyrst inn í lögreglulög með lögum nr. 51/2014, um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996, var hið fyrra tveggja skilyrða ákvæðisins með öðru orðalagi, þ.e. að engan mætti skipa, setja eða ráða sem hefði „gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti“. Með sömu breytingalögum, sbr. 10. gr. þeirra, var efni síðara skilyrðisins, um traust, bætt við þáverandi skilyrði í 2. mgr. 38. gr. lögreglulaga um að lögreglumannsefni mættu ekki „hafa ekki gerst brotleg við refsilög; þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því að það var framið“.

Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps til framangreindra breytingalaga sagði til skýringar að hér væri kveðið á um að lögreglumannsefni þyrftu að uppfylla sömu skilyrði og lögreglumenn, sbr. 8. gr. (28. gr. a) frumvarpsins.

Fyrra skilyrði 1. málsliðar 28. gr. a laga nr. 90/1996 var breytt til núverandi horfs með lögum nr. 141/2018, um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru. Verður ekki annað séð en að þar með hafi loku verið skotið fyrir að sá sem ráðinn er til starfa hjá lögreglu megi hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað eftir að hann varð fullra 18 ára. Þrátt fyrir það varð engin breyting á hliðstæðu skilyrði um inntöku nema í starfsnám hjá lögreglu, sbr. nú b-lið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 90/1996, um að nemar í starfsnámi skuli fullnægja skilyrði um að: 

hafa hafi ekki gerst brotlegir við refsilög, þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því að það var framið, né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta.

Fyrirvarinn um að heimilt sé að veita undantekningu í því tilfelli að brot nema teldist smávægilegt eða langt um liðið frá því að það var framið hefur verið við lýði allt frá gildistöku laga nr. 56/2002, um breytingu á almennum hegningarlögum og lögreglulögum, til þessa dags. Í athugasemdum við 5. gr. frumvarps til síðastnefndra breytingalaga sagði meðal annars að ekki þætti heppilegt að setja fortakslausar reglur um bann við því að umsækjandi hefði hlotið refsidóma fyrir brot á almennum hegningarlögum eða öðrum lögum, heldur yrði byggt á þeirri meginreglu að hann mætti ekki hafa framið refsiverð brot og þá með möguleika á undanþágu.

Þá er þess að geta að í samskiptum við ríkislögreglustjóra vegna áðurnefndrar kvörtunar kom fram að eftir breytinguna sem varð á lögreglulögum með lögum nr. 141/2018 hefði verið gengið út frá þeirri forsendu að þeir einstaklingar sem hefðu hlotið fangelsisdóm væru ekki gjaldgengir í starfsnám hjá lögreglu.

Í ljósi alls framangreinds er þeirri ábendingu hér með komið á fram­færi við ráðuneytið að taka til skoðunar hvort þörf sé á frekari samræmingu þeirra ákvæða í lögreglulögum sem mæla fyrir um skilyrði er lúta að sakarferli og fyrri háttsemi þeirra sem teknir eru inn í starfsnám hjá lögreglu annars vegar og þeirra sem veitt er starf hjá lögreglu hins vegar.