Lögreglu- og sakamál. Málskostnaður. Tafir á afgreiðslu máls hjá stjórnvaldi.

(Mál nr. 11906/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um að hafna reikningi frá viðkomandi sem og töfum á afgreiðslu embættisins á beiðni um rökstuðning fyrir því.  

Hvað síðara atriðið snerti svaraði lögreglustjórinn erindinu eftir eftirgrennslan umboðsmanns og því ekki ástæða til að aðhafast frekar þar að lútandi. Þar sem athugasemdir vegna synjunar á greiðslu reikningsins höfðu ekki verið bornar undir dómsmálaráðuneytið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. apríl 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 28. október 2022 sem ráðið verður að lúti annars vegar að þeirri ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra 22. júlí þess árs að hafna reikningi yðar nr. 31 og hins vegar að töfum á afgreiðslu lögreglustjórans á beiðni yðar 12. september sama árs um rökstuðning fyrir téðri höfnun. Erindi yðar um rökstuðning var ítrekað 26. september og 14. október sama árs.

Í tilefni af kvörtun yðar var lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra ritað bréf 8. nóvember 2022 þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu beiðninnar. Sú beiðni var ítrekuð með bréfum 15. febrúar og 3. mars sl.

Svar lögreglustjórans barst ásamt gögnum málsins 24. mars sl. en þar kemur fram að 22. sama mánaðar hafi beiðni yðar um rökstuðning verið svarað með tölvubréfi og upplýsingar veittar. Þar sem nú liggur fyrir að lögreglustjórinn hefur afgreitt beiðni yðar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að þessu leyti.

Þá lýtur kvörtun yðar að synjun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um að greiða framangreindan reikning sem þér gáfuð út vegna ritvinnslu læknisvottorðs sem lögreglustjórinn óskaði eftir frá nafngreindum lækni vegna rannsóknar tiltekins lögreglumáls, sbr. 9. tölulið 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1551/2022, um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Af kvörtun yðar og meðfylgjandi gögnum verður ráðið að ágreiningur málsins snúi að því hvort lögreglu beri að greiða fyrir ritvinnslu téðs læknisvottorðs á grundvelli framangreindrar reglugerðar og hugsanlegrar venju eða sé heimilt að hafna reikningnum með vísan til i-liðar 12. gr. leiðbeininga um málskostnað í opinberum málum frá 1. maí 2011 og þess að embættið hafi ekki óskað eftir eða keypt viðkomandi þjónustu. 

Í tilefni af kvörtun yðar bendi ég á að í 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er kveðið á um það að dómsmálaráðherra sé æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Þá fer dómsmálaráðherra með málefni lögreglu og löggæslu, þar á meðal lögreglustjóraembætta, sbr. k-lið 16. tölulið 2. gr. forsetaúrskurðar nr. 31/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Með vísan til þessa, sem og þeirrar grundvallar­reglu íslenskrar stjórnskipunar að ráðherrar fari ávallt með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema að hún sé að lögum undanskilin, tel ég að það verði að ganga út frá því að starfsemi lögreglustjóra falli undir eftirlit dómsmálaráðherra. Í slíkum málum ber ráðherra sem æðra stjórnvaldi að hafa með því eftirlit hvort stjórnsýsla og störf embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra séu í samræmi við lög og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins að því marki sem það fellur ekki undir hlutverk nefndar sem hefur eftirlit með störfum lögreglu, sbr. 35. gr. laga nr. 90/1996.

Ástæða þess að ég geri grein fyrir þessu er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið kvörtun yðar undir dómsmálaráðuneytið eða að fyrir liggi afstaða þess vegna atriða sem kvörtunin lýtur að. Að þessu gættu tel ég rétt að þér leitið fyrst með athugasemdir yðar til dómsmálaráðuneytisins áður en ég fjalla um þær. Ef þér teljið yður enn rangindum beittan að fenginni afstöðu dómsmálaráðherra getið þér að leitað til umboðsmanns á ný.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.