Lögreglu- og sakamál. Sakarkostnaður.

(Mál nr. 11954/2022)

Kvartað var yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun sýslumanns um að synja beiðni um niðurfellingu sakarkostnaðar með vísan til að tekjur hefðu verið nokkuð yfir viðmiðunarfjárhæðum.  

Ekki varð annað séð en tekjur viðkomandi hefðu verið nokkuð yfir viðmiðunarfjárhæð á því tímabili sem um ræddi og því ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. apríl 2023.

  

    

I

Vísað er til kvörtunar yðar 8. desember sl., fyrir hönd, A, yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins 17. maí sl. í máli nr. [...]. Með úrskurðinum staðfesti ráðuneytið ákvörðun sýslu­mannsins á Norðurlandi vestra 8. nóvember 2021 um að synja beiðni A um niður­fellingu sakarkostnaðar með vísan til þess að tekjur hans hefðu verið nokkuð yfir viðmiðunarfjárhæðum undanfarin ár.

Í tilefni af kvörtuninni var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 17. janúar sl. og þess óskað að ráðuneytið myndi veita umboðsmanni nánari upplýsingar og skýringar á nánar tilteknum atriðum. Þar sem þér fenguð afrit bréfsins sent tel ég óþarft að gera nánari grein fyrir því hér. Svör ráðuneytisins bárust 13. febrúar sl. og var það sent yður til athugasemda sama dag. Engar athugasemdir hafa borist frá yður.

  

II

Í 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um þá meginreglu að sakfelldum manni beri að greiða sakarkostnað. Í 1. mgr. 239. gr. laganna segir að lagt skuli út fyrir sakarkostnaði úr ríkissjóði. Sakarkostnaður sem sakfelldum manni sé gert að greiða samkvæmt dómi, úrskurði eða viðurlagaákvörðun skuli innheimtur hjá honum, eftir atvikum með fjárnámi eða nauðungarsölu. Hann skuli bera kostnað af þeim aðgerðum, svo og aðgerðum vegna fullnustu refsingar og annarra viðurlaga á hendur honum, til viðbótar sakarkostnaði. Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um undantekningu frá framangreindri reglu. Þar segir efnislega að liggi nægilega ljóst fyrir að sakfelldur maður eigi hvorki eignir né hafi tekjur til að standa straum af kostnaði sem honum hefur verið gert að greiða beri að falla frá kröfu á hendur honum um greiðslu.

Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum nr. 88/2008 segir að 2. mgr. 239. gr. laganna eigi rætur að rekja til fyrirmæla c-liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem sökuðum manni sé m.a. tryggður réttur til ókeypis lögfræðiaðstoðar til að halda upp vörnum í sakamáli ef það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar. Þá verður einnig ráðið af athugasemdum að ákvæðið hafi verið sett í kjölfar dóms Hæstaréttar 21. september 2005 í máli nr. 248/2005. Nánar tiltekið kemur þar fram að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu með vísan til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu að skýra beri íslensk lög svo að sakfelldum manni sem gert hefur verið að greiða sakarkostnað verði að vera unnt að sanna vanhæfni sína til greiðslu málsvarnarlauna verjanda síns þegar um er að ræða innheimtu slíks kostnaðar (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1511-1513).

Með ákvæði 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 hefur löggjafinn fengið stjórnvöldum í hendur matskennda valdheimild þar sem þeim er einkum falið að meta hvenær „nægilega ljóst“ liggur fyrir að sakfelldur maður hafi hvorki eignir né tekjur til að standa straum af sakar­kostnaði. Í tilvikum sem þessum er stjórnvöldum að jafnaði heimilt að setja sér viðmiðunarreglur um helstu sjónarmið sem byggja ber á til stuðnings beitingu slíkra valdheimilda. Slík sjónarmið verða þó að vera málefnaleg og að jafnaði ekki tæmandi upp talin í viðmiðunarreglum enda mega slíkar reglur ekki takmarka óhóflega eða útiloka það einstaklingsbundna mat sem lög gera ráð fyrir.

Dómsmálaráðuneytið setti sér viðmiðunarreglur í tengslum við beitingu 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 hinn 1. nóvember 2019. Í 1. mgr. 2. gr. þeirra segir að við mat á því hvort sakarkostnaður verði felldur niður skuli miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars, fjármagnstekjur og aðrar tekjur, þ.m.t. skattfrjálsar tekjur, nemi ekki hærri fjárhæð en samtals 3.650.000 kr. Hækka skuli þessa viðmiðunarfjárhæð um 406.000 kr. fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, þ.m.t. stjúp- og fósturbörn, sem búa hjá umsækjanda eða hann greiðir meðlag með. Í 2. mgr. greinarinnar segir að synja megi beiðni um niðurfellingu sakarkostnaðar þótt tekjur umsækjanda séu undir viðmiðunarmörkum samkvæmt 1. mgr. þegar umsækjandi á fé á banka­reikning, hlutabréf, skuldabréf, fasteign, lausafé eða aðrar eignir. Í a-lið 1. mgr. 3. gr. sömu reglna segir að fella megi niður sakar­kostnað þótt tekjur umsækjanda séu yfir viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt 2. gr. ef aflahæfi umsækjanda er verulega skert til frambúðar vegna varanlegrar örorku, eða veikinda.

  

2

Af úrskurði ráðuneytisins verður ráðið að synjun um niðurfellingu sakarkostnaðar hafi byggst á því að þótt aflahæfi umbjóðanda yðar kynni að vera skert væri ljóst að það væri ekki svo verulega skert til frambúðar að sakarkostnaður yrði felldur niður með heimild í a-lið 1. mgr. 3. gr. viðmiðunarreglna ráðuneytisins og þeim sjónarmiðum sem þar er lýst.

Af gögnum málsins verður ráðið að þér séuð ósáttir við téða niðurstöðu ráðuneytisins þar sem A sé bæði ellilífeyrisþegi og 75% öryrki. Þá hafi þér bent á að umbjóðandi yðar fái einungis tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins að undanskildum „smávægilegum fjárhæðum“ frá lífeyrissjóði. Umbjóðandi yðar sé auk þess á leigumarkaði og ljóst að hann eigi engar eignir.

Eins og áður er rakið hefur 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 að geyma matskennda valdheimild þar sem í hverju tilviki þarf að taka afstöðu til þess hvort sá sem sækir um niðurfellingu sakarkostnaðar geti ekki, vegna eigna- og tekjustöðu sinnar, staðið straum af greiðslu sakarkostnaðar. Þar sem umbjóðandi yðar hefur ekki börn á framfæri er tekjuviðmið hans samkvæmt 2. gr. téðra viðmiðunarreglna dómsmála­ráðuneytisins 3.650.000 kr. Hins vegar er heimilt að víkja frá þeirri upphæð ef aflahæfi umsækjanda er verulega skert til frambúðar vegna varanlegrar örorku, eða veikinda. Ákvæðið felur því ekki í sér fortaks­lausa skyldu til niðurfellingar sakarkostnaðar þegar umsækjandi er öryrki heldur felur það í sér heimild fyrir stjórnvöld til að víkja frá framangreindri viðmiðunar­fjárhæð undir vissum kringumstæðum. Óumdeilt er í málinu að umbjóðandi yðar fær einungis greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá kemur fram í svari ráðuneytisins til mín 13. febrúar sl. að ráðuneytið hafi ekki dregið í efa þá staðhæfingu að A hafi verið metinn 75% öryrki þó staðfesting þess efnis hafi ekki verið að finna í gögnum málsins.

Hvað sem því líður verður af téðum úrskurði ráðuneytisins, og meðfylgjandi gögnum, ekki annað séð en að tekjur umbjóðanda yðar hafi verið nokkuð yfir framangreindri viðmiðunarfjárhæð, eða um 5,6% yfir viðmiðunarfjárhæðinni árið 2019, um 14,4% yfir viðmiðunarfjárhæðinni árið 2020 og um 16,7% yfir viðmiðunarfjárhæðinni árið 2021. Svo sem áður er rakið leiðir af 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 að leggja verður  til grundvallar að hinn sakfelldi hafi hvorki eignir né tekjur til að standa straum af þeim sakarkostnaði sem honum hefur verið gert að greiða. Af framangreindu er ljóst að tekjur umbjóðanda yðar eru nokkuð yfir þeirri viðmiðunarfjárhæð sem fram kemur í téðum reglum dómsmálaráðuneytisins.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðu­neytisins að umbjóðandi yðar hafi ekki sýnt nægilega fram á að hann hafi ekki nægilegar tekjur til að standa straum af greiðslu sakarkostnaðar í skilningi 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008.

   

III

Með vísan til þess sem rakið hefur verið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.