Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12012/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds fyrir brot sem fólst í að leggja bifreið við biðstöð hópbifreiða. Ekki hafi verið gætt meðalhófs við álagninguna og einnig var vísað til þess að bifreiðin væri sjö manna með hópferðaskráningu.  

Fyrir lá að bifreiðin væri ekki hópbifreið í skilningi umferðarlaga þar sem þær eru ætlaðar til að flytja fleiri en átta farþega. Ekki voru því efni til að gera athugasemdir við ákvörðun bílastæðasjóðs.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. apríl 2023.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 18. janúar sl. yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 16. sama mánaðar um álagningu stöðubrotsgjalds vegna bifreiðarinnar [...] fyrir brot gegn b-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 með því að hafa lagt bifreiðinni við biðstöð hópbifreiða. Í kvörtuninni er því haldið fram að ekki hafi verið gætt meðalhófs við álagninguna auk þess sem vísað er til þess að bifreiðin sé sjö manna bifreið með hópferðaskráningu, en kvörtun yðar fylgdi ljósmynd af skoðunarmiða fyrir sérútbúna bifreið.

Í tilefni af kvörtun yðar var umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ritað bréf 23. janúar sl. og 10. mars sl. þar sem óskað var eftir gögnum málsins og nánar tilteknum skýringum. Svör Reykjavíkurborgar bárust 21. febrúar og 30. mars sl. ásamt gögnum málsins, þ. á m. ljósmyndum af bifreiðinni [...] þar sem henni var lagt við Þórunnartún. Þar sem þér hafið fengið afrit af framangreindum bréfaskiptum er ekki ástæða til að rekja efni þeirra nánar nema að því leyti sem þýðingu hefur fyrir eftirfarandi umfjöllun.

Í b-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 segir að á biðstöð hópbifreiða megi ekki stöðva eða leggja öðrum ökutækjum en þeim, sem hún er ætluð, innan 15 metra frá merki. Samkvæmt gögnum málsins og skýringum Reykjavíkurborgar mun bifreiðinni hafa verið lagt í útskot austan Þórunnartúns þar sem umferðarmerki D09.21 er að finna sem táknar biðstöð fyrir hópbifreiðar. Með „hópbifreið“ í skilningi umferðarlaga er átt við bifreið sem ætluð er til að flytja fleiri en átta farþega, einnig þótt bifreiðin sé jafnframt ætluð til annarra nota, sbr. 23. tölulið 1. mgr. 3. gr. laganna. Fyrir liggur að bifreið yðar, 7 sæta Land Cruiser jeppi, er ekki hópbifreið í þessum skilningi, enda þótt hún sé notuð til farþegaflutninga og yður hafi verið veitt leyfi til reksturs sérútbúinnar bifreiðar svo sem límmiði í framrúðu bifreiðarinnar gefur til kynna. Að þessu virtu og eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar, ljósmyndir af vettvangi og skýringar Reykjavíkurborgar eru ekki efni til að gera athugasemdir við þá ákvörðun sem kvörtun yðar beinist að.

Loks tek ég fram að í svörum Reykjavíkurborgar er greint frá því að mistök hafi valdið því að í svari borgarinnar við endurupptökubeiðni yðar hafi verið vísað til rangs stafliðar í 2. mgr. 29. gr. laga nr. 77/2019 og rangt umferðarmerki tilgreint. Í ljósi þessa tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar um það misræmi sem var annars vegar á tilgreiningu brots í svari við endurupptökubeiðni yðar og hins vegar tilkynningu um álagningu stöðvunarbrotsgjaldsins.

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. a- lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.