Námslán og námsstyrkir. Endurgreiðsla.

(Mál nr. 12043/2023)

Kvartað var yfir úrskurði málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna sem staðfesti ákvörðun stjórnar sjóðsins að hafna beiðni um niðurfellingu námslána. Í kvörtuninni var því m.a. haldið fram að beita bæri heimild þess efnis þótt lánið hefði verið tekið í tíð eldri laga.  

Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu málskotsnefndarinnar að heimildin ætti aðeins við um lán sem veitt væru í samræmi við tiltekið ákvæði laga um Menntasjóð námsmanna, þ.e. lán sem væru með endurgreiðsluskilmálum sem kvæðu á um að afborganir miðuðst við lánsfjárhæð og sem heimilt væri að gjaldfella þegar lánþegi næði 66 ára aldri.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. apríl 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 5. febrúar sl. yfir úrskurði málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna frá 18. mars 2022 í máli nr. M-13/2021 þar sem ákvörðun stjórnar menntasjóðsins að hafna beiðni yðar um niðurfellingu námslána yðar á grundvelli 5. mgr. 20. gr. laga nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna, var staðfest. Í kvörtuninni er því m.a. haldið fram að beita beri umræddri heimild í tilviki yðar þótt lán yðar hafi verið tekin í tíð eldri laga.

Í tilefni af kvörtuninni var málskotsnefndinni ritað bréf 24. mars sl. þar sem þess var óskað að nefndin afhenti umboðsmanni öll gögn málsins, þ.m.t. afrit af skuldabréfum námslána yðar. Umbeðin gögn bárust 3. apríl sl.

Samkvæmt gögnum málsins tókuð þér námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN), forvera menntasjóðsins, í gildistíð laga nr. 21/1992, um LÍN, og laga nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, þ.e. svonefnd S- og R lán.  Beiðni yðar um niðurfellingu lánsins byggðist sem fyrr segir á téðri 5. mgr. 20. gr. laga nr. 60/2020. Í máli þessu reynir því á hvort þér getið reist beiðni um niðurfellingu námslána yðar sem tekin voru í gildistíð eldri laga á framangreindri heimild.

Í úrskurði málskotsnefndarinnar kemur fram að þótt lán yðar hafi verið tekin í gildistíð eldri laga hafi nefndin engu að síður talið rétt að taka afstöðu til þess hvort unnt væri að beita umræddri heimild í yðar tilviki. Var það niðurstaða nefndarinnar að umrædd niðurfellingarheimild væri bundin við lán þar sem endurgreiðslutími væri háður lánsfjárhæð, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, sem heimilt væri að gjaldfella við 66 ára aldur en gæti ekki átt við um lán yðar sem væru tekjutengd með tveimur afborgunum á ári og meira í ætt við þau lánakjör sem mælt væri fyrir um í 21. gr. laganna, en slík lán væru ekki bundin lánsfjárhæð og lánstími ótilgreindur. Lánþegum slíkra námslána stæði ekki til boða að fá námslán sitt afskrifað.

Í 1. mgr. 20. gr. laganna er mælt fyrir um þá meginreglu laganna, að endurgreiðslutími námslána skuli vera háður lántökufjárhæð. Þó skuli námslán almennt vera að fullu greidd á því ári þegar lánþegi nær 65 ára aldri. Í athugasemdum við greinina í greinargerð frumvarps þess er varð að lögunum segir að þar komi fram sú meginregla að almennt skuli miðað við að endurgreiðslutími námslána verði háður lántökufjárhæð og að lánið hafi verið endurgreitt að fullu á því ári sem sem lánþegi nær 65 ára aldri. Ljóst er að um nýmæli er að ræða sem sett var m.a. með það að markmiði að hvetja námsmenn til að ljúka námi á sem skemmstum tíma.

Í 3. mgr. 20. gr. laganna segir að hafi námslán ekki verið að fullu greidd þegar lánþegi nær 66 ára aldri hafi sjóðstjórn heimild til að gjaldfella lánin. Þá segir í 4. og 5. mgr. greinarinnar:

Hafi námslán ekki verið að fullu greidd á því ári þegar lánþegi nær 66 ára aldri er sjóðstjórn heimilt að gera tímabundna samninga sem kveða á um greiðslu á eftirstöðvum námslánsins sé lánþega það vandkvæðum bundið að mati sjóðstjórnar að endurgreiða námslán af heilsufarsástæðum, sökum fjárhagsörðugleika eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Sjóðstjórn er skylt að kynna lánþegum sem náð hafa 66 ára aldri og hafa ekki að fullu greitt lán sitt framangreinda heimild. Slíka samninga skal endurskoða reglulega og a.m.k. á sex mánaða fresti. Nánar skal kveðið á um skilyrði og framkvæmd samninga í úthlutunarreglum.

Ef um áframhaldandi erfiðleika er að ræða hjá lánþega og sjóðstjórn telur ljóst að aðstæður hans séu með þeim hætti að hann geti ekki greitt höfuðstól námsláns eða hluta hans skal stjórnin afskrifa höfuðstól lánþega að hluta eða öllu leyti. Afskriftin er bundin því skilyrði að lánþegi hafi að lágmarki í eitt ár staðið við samninginn. Kostnaður við afskriftir skal greiðast úr ríkissjóði en ekki fara inn í vaxtaálag námslána. Nánar skal mælt fyrir um skilyrði og framkvæmd afskrifta í úthlutunarreglum.

Ákvæðum 4. og 5. mgr. 20. gr. laganna var bætt við frumvarp til þeirra í meðförum þingsins að tillögu allsherjar- og menntamálanefndar. Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar sagði m.a. að námslán væru félagslegt jöfnunartæki sem hefði það hlutverk að tryggja öllum aðgengi að menntun óháð efnahag. Heimild 3. mgr. greinarinnar til að gjaldfella lán væri afar íþyngjandi úrræði sem kæmi til með að bitna mest á þeim sem verst standi fjárhagslega. Af þeim sökum lagði nefndin til að bætt yrði við frumvarpið heimildum sjóðstjórnar til koma, að vissum skilyrðum fullnægðum, til móts við lánþega sem hafa ekki greitt námslán sín að fullu við 66 ára aldur, eftir atvikum með því að afskrifa höfuðstól láns svo sem að framan er rakið.

Í ljósi framangreinds og með hliðsjón af framsetningu 5. mgr. 20. gr. laga nr. 60/2020 um framangreinda heimild sjóðstjórnar Menntasjóðs námsmanna til niðurfellingar höfuðstóls námsláns, og þeim skilyrðum sem heimildin er bundin, tel ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu málskotsnefndarinnar hún eigi aðeins við um lán sem veitt eru í samræmi við 20. gr. laganna, þ.e. lán sem eru með endurgreiðsluskilmálum sem kveða á um að afborganir miði við lánsfjárhæð og sem heimilt er að gjaldfella þegar lánþegi nær 66 ára aldri. Í því sambandi hef ég í huga að samkvæmt skuldabréfum yðar fer um endurgreiðslu lána yðar eftir ákvæðum laga nr. 21/1992, um LÍN, (R-lán) og laga nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki (S-lán). Lánin eru  tekjutengd með tveimur afborgunum á ári. Þau eru hins vegar ekki bundin sambærilegum skilmálum og lán samkvæmt 20. gr. laga nr. 60/2020 um að gjaldfella megi höfuðstól þeirra verði þau ekki greidd innan tilskilins tíma.

Að þessu gættu, og eftir að hafa kynnt mér úrskurð málskotnefndarinnar og gögn málsins að öðru leyti, tel ég ekki líkur á því að frekari athugun mín á málinu muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við fyrrgreindan úrskurð nefndarinnar í máli yðar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar lokið.