Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12061/2023)

Kvartað var yfir Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar vegna álagningar stöðubrotsgjalds. Var henni mótmælt á þeim forsendum að viðkomandi væri handhafi stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða. Óumdeilt var að viðkomandi hafði fengið gefið út stæðiskort en sjóðurinn taldi aftur á móti að kortið sem hann framvísaði hefði verið afrit af frumriti þess.  

Með hliðsjón af gögnum málsins, einkum myndum af bæði frumriti stæðiskortsins og því korti sem framvísað var, taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við álagningu gjaldsins. Hann benti viðkomandi þó á að þar sem ágreiningur væri um málsatvik og skjalleg gögn vörpuðu ekki fyllilega ljós á þau sætti skoðun hans á málinu takmörkunum enda ekki í sömu stöðu og dómstólar að skera úr um hvort umdeild atvik teldust sönnuð eður ei. Þá vakti hann athygli á að hugsanlega mætti óska eftir endurupptöku málsins hjá Bílastæðasjóði á grundvelli upplýsinga sem komið hefði verið á framfæri við umboðsmann en ekki sjóðinn. Með ábendingunni væri þó engin afstaða tekin til þess hvaða meðferð eða afgreiðslu erindi þar að lútandi ætti að fá hjá sjóðnum.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. apríl 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. febrúar sl. yfir Bílastæðasjóði. Kvörtun yðar lýtur nánar tiltekið að álagningu stöðubrotsgjalda 6. og 9. desember sl. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtun yðar hafið þér mótmælt álagningunni á þeim grundvelli að þér séuð handhafar stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða.

Í tilefni af kvörtun yðar var Bílastæðasjóði ritað bréf 24. febrúar sl. þar sem óskað var eftir afriti af öllum gögnum málsins og að upplýst yrði um það sem lá fyrir um að stæðiskort yðar hafi ekki verið gilt. Svör bárust 10. mars sl. og var yður sent afrit af svarbréfi Reykjavíkurborgar að undanskildum gögnum þess 28. mars sl.

Um stæðis­kort fyrir hreyfihamlaða er fjallað í 87. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Í 1. mgr. greinarinnar segir að eingöngu handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða sé heimilt að leggja ökutæki í bifreiðastæði sem ætlað er fyrir fatlaða og auðkennt með þar til gerðu umferðarmerki eða þar sem á annan hátt er sannarlega gefið til kynna að um stæði fyrir ökutæki hreyfihamlaðs einstaklings sé að ræða. Í 3. mgr. greinarinnar er kveðið á um að stæðiskorti skuli vera komið fyrir innan framrúðu þegar ökutæki er lagt í bifreiðastæði þannig að framhlið þess sé vel sýnileg að utan. Sýslumenn gefa út stæðiskort fyrir hreyfihamlaðan einstakling á grundvelli læknisvottorðs, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1130/2016, um útgáfu og notkun stæðiskorts fyrir hreyfi­hamlaða, sem sett var á grundvelli eldri umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt athugasemdum við 87. gr. laga nr. 77/2019 í frumvarpi því er varð að lögunum fela reglur um stæðiskort fyrir hreyfihamlaða í sér undanþágur frá almennum reglum um bann við stöðvun og lagningu ökutækja (þskj. 231 á 149. löggjafarþingi 2018-2019, bls. 104).

Af lögum nr. 77/2019 og reglugerð nr. 1130/2016 verður ekki annað ráðið en að reglur um stæðiskort hafi þann tilgang að tryggja að aðeins sá sem fær kortið útgefið, þ.e. handhafi þess, nýti kortið til að leggja bifreið gjaldfrjálst í stæði enda er stæðiskort opinber staðfesting á því að handhafi þess fullnægi þeim almennu læknisfræðilegu viðmiðum sem þar til bær stjórnvöld hafa talið rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvort viðkomandi sé nauðsyn á undanþágum frá reglum umferðarlaga um stöðvun og lagningu ökutækja vegna hreyfi­hömlunar. Það að stæðiskort útgefið af sýslumanni skuli vera sýnilegt í framrúðu ökutækis þegar því er lagt felur í sér kröfu um að frumriti þess skuli framvísað af handhafa þess, ekki ljósriti.

Af gögnum málsins og skýringum Bílastæðasjóðs má ráða að óumdeilt sé að þér höfðuð fengið útgefið stæðiskort á þeim tíma sem stöðubrotsgjöldin voru lögð á. Aftur á móti telji sjóðurinn stæðiskort það sem framvísað var 6. og 9. desember sl. hafa verið afrit af frumriti þess. Það sé afstaða sjóðsins að þegar myndir af annars vegar frumriti kortsins og hins vegar því korti sem framvísað var í desember sl. séu bornar saman sjáist sýnilegur munur. Fram- og bakhlið þess síðarnefnda liggi ekki beint saman og lögunin á plastinu sé jafnframt ekki sú sama. Undir það er tekið í tölvubréfi frá starfsmanni sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 12. janúar sl. þar sem segir að stæðiskortið virðist hafa verið plastað á annan máta en venja sé hjá embættinu.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, einkum myndir af bæði frumriti kortsins og því korti sem framvísað var 6. og 9. desember sl., tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að fullyrða að það mat sem lá til grundvallar afstöðu Bílastæðasjóðs hafi verið rangt. Eins og málið liggur fyrir tel ég því ekki efni til að gera athugasemdir við álagningu gjaldsins. Ég tek þó fram að í málum sem þessum, þar sem ágreiningur er um málsatvik og skjalleg gögn varpa ekki fyllilega ljósi á þau, er umboðsmaður ekki í sömu stöðu og dómstólar til að skera úr um hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð eður ei. Skoðun mín á máli yðar hefur því sætt takmörkunum sem leiða af eðli þess og heimildum umboðsmanns á grundvelli laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Að endingu tek ég fram að ekki verður ráðið af gögnum málsins að þér hafið komið athugasemdum yðar, sem fram komu í tölvubréfi til umboðsmanns 29. mars sl., um að yður hafi verið nauðsyn að klippa utan af stæðiskorti yðar á framfæri við Bílastæðasjóð. Ég bendi yður því á að þér getið freistað þess að óska eftir endurskoðun málsins á þeim grundvelli hjá Bílastæðasjóði. Með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar þar að lútandi ætti að hljóta hjá sjóðnum.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.