Skattar og gjöld. Erfðafjárskattur. Innheimta.

(Mál nr. 12119/2023)

Kvartað var yfir fyrirkomulagi innheimtu erfðafjárskatts, þ.e. að skuldara sé ekki tilkynnt sérstaklega um gjaldfallna skuld sem safni því dráttarvöxtum án þess að skuldara sé kunnugt um það.

Ekki varð séð að endanleg afstaða fjármála- og efnahagsráðherra lægi fyrir í málinu og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. apríl 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 26. mars sl. yfir fyrirkomulagi innheimtu erfðafjárskatts af hálfu sýslumannsins á höfuðborgarasvæðinu og ríkisskattstjóra. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að því að skuldara sé ekki tilkynnt sérstaklega um gjaldfallna skuld vegna erfðafjárskatts sem af þeim sökum safni dráttarvöxtum án þess að skuldara sé um það kunnugt.

Fjallað er um erfðafjárskatt í lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Þar segir í 1. mgr. 14. gr. að skattar álagðir samkvæmt lögunum renni í ríkissjóð og hafi sýslumenn og eftir atvikum ríkisskattstjóri á hendi innheimtu þeirra og er ríkisskattstjóra heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt. Nánari ákvæði um innheimtu erfðafjárskatts og tilhögun hennar er að finna í lögum nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Í 1. mgr. 3. gr. laganna segir að innheimtumenn ríkissjóðs annist innheimtu skatta og gjalda hver í sínu umdæmi. Með sköttum og gjöldum er átt við hvers konar skatta og gjöld sem lögð eru á lögum samkvæmt. Í 2. mgr. sömu greinar segir að innheimtumenn ríkissjóðs séu ríkisskattstjóri í umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðisins en sýslumenn í öðrum umdæmum. Samkvæmt b- og e-lið 4. töluliðs 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fer fjármála- og efnahagsráðherra með yfirstjórn mála er varða tekjuöflun ríkisins, þ. á m. ríkisskattstjóra og innheimtu opinberra gjalda.

Ástæða þess að ég rek framangreint er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis er kveðið á um að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en kvartað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður fylgt þeirri starfsvenju að áður en mál er tekið til meðferðar sé rétt að æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnunarheimild á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess að beita þeim heimildum sínum.

Í kvörtun yðar kemur fram að þér hafið m.a. leitað með athugasemdir yðar við téð verklag við innheimtu erfðafjárskatts til ríkisskattstjóra og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þá liggur einnig fyrir að ráðuneytið áframsendi erindi yðar ríkisskattstjóra 6. febrúar sl. sem svaraði fyrirspurn yðar 7. febrúar sl. Af framangreindu verður þannig ekki séð að fyrir liggi endanleg afstaða fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer sem fyrr segir með yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart stofnuninni og mál er varða innheimtu skatta, til athugasemda yðar. Í samræmi við framangreint getið þér því leitað með athugasemdir yðar við almenna starfshætti og verklag ríkisskattstjóra að þessu leyti á framfæri við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Ef þér teljið yður enn rangindum beitta að fenginni afstöðu ráðuneytisins getið þér að leitað til umboðsmanns á ný.

Með vísan til framangreinds tel ég að ekki séu skilyrði að lögum til þess að ég fjalli frekar um kvörtun yðar. Lýk ég því athugun minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.