Fullnusta refsinga. Framkoma opinberra starfsmanna. Heimsókn í fangelsi.

(Mál nr. 12123/2023)

Kvartað var yfir reglum Fangelsisins Sogni og framkomu starfsmanna þess. 

Þar sem athugasemdunum hafði ekki verið komið formlega á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og þeim gefist tækifæri til að taka afstöðu til þeirra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. apríl 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 29. mars sl. yfir reglum Fangelsisins Sogni svo og framkomu starfsmanna þess við yður.

Í tilefni af kvörtun yðar hafði starfsmaður umboðsmanns Alþingis samband við yður símleiðis 4. apríl sl. Í því símtali lýstuð þér ítarlega þeim þáttum, sem kvörtun yðar laut að, og virðist hún í fyrsta lagi lúta að skemmri heimsóknartíma í Fangelsinu Sogni en í Fangelsinu Kvíabryggju, í annan stað að því að heimsóknartíma svonefndra AA-trúnaðarmanna sé þrengri stakkur sniðinn í Fangelsinu Sogni en í öðrum fangelsum og í þriðja lagi að samskiptum yðar við starfsmenn fangelsisins annars vegar vegna nettengingar fyrir leikjatölvu yðar og hins vegar í tengslum við afhendingu lyfja.

Af kvörtun yðar og framangreindum upplýsingum sem þér veittuð starfsmanni umboðsmanns verður ekki annað ráðið en að þér hafið aðeins komið athugasemdum yðar vegna nettengingar leikjatölvunnar og lyfjagjafar á framfæri við vakthafandi starfsmenn hverju sinni. Af þessu tilefni bendi ég á að af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir m.a. að umboðs­maður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra. Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 segir til að mynda að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið komið athugasemdum yðar formlega á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og fengið viðbrögð við þeim, til dæmis til forstöðumanns fangelsisins eða Fangelsismálastofnunar, sem samkvæmt 5. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, hefur umsjón með rekstri fangelsa. Þá bendi ég yður á að samkvæmt 4. gr. sömu laga fer dómsmálaráðherra með yfirstjórn fangelsis­mála. Þar sem þér getið freistað þess að leita til framangreindra stjórnvalda með erindi yðar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða um að leiðir innan stjórnsýslunnar séu fullnýttar áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun tel ég ekki unnt að taka mál yðar til athugunar að svo stöddu og lýk því meðferð málsins með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í tilefni af athugasemdum í kvörtun yðar minni ég þó á að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsis­sviptra, þ.á m. fanga, á almennum grunni. Athugasemdir yðar verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd þessa eftirlits. Áréttað er að það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ekki séu forsendur til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu.

Teljið þér yður enn rangindum beittan að fenginni niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins getið þér leitað til mín a nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.