Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12068/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðvunarbrotsgjalds. Viðkomandi hefði í fjögur ár lagt í stæðið sem merkt er fyrir ökutæki fatlaðs fólks, eins og fleiri, án þess að hafa stæðiskort fyrir hreyfihamlaða og aldrei fengið sekt.  

Umboðsmaður benti á að viðkomandi væri ekki handhafi slíks korts og og því ekki ástæða til að gera athugasemd við ákvörðun Bílastæðasjóðs. Þótt viðkomandi og fleiri hefðu árum saman lagt í stæðið án þess að fá sekt veitti jafnræðisreglan fólki almennt ekki tilkall til neins sem ekki samrýmdist lögum. Hefði athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds ekki samrýmst lögum gæti aðili að öðru máli því yfirleitt ekki krafist sambærilegrar úrlausnar sér til handa með vísan til þess.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. apríl 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. febrúar sl., sem lýtur að ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 9. febrúar sl. um álagningu stöðvunarbrotagjalds fyrir brot gegn a-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Laut brotið að því að bifreið yðar hefði verið lagt á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks án þess að stæðiskort fyrir hreyfihamlaða væri sýnilegt í bifreiðinni. Í kvörtun yðar er m.a. bent á að þér og aðrir hafið lagt í umrætt stæði síðustu fjögur ár og aldrei áður fengið sekt. Gögn málsins bárust umboðsmanni 28. mars sl. samkvæmt beiðni þar um.

Samkvæmt a-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga er að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð bannað að stöðva eða leggja ökutæki á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks. Þá segir í 1. mgr. 87. gr. laganna að eingöngu handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða sé heimilt að leggja ökutæki í bifreiðastæði sem ætlað sé fyrir fatlaða og auðkennt með þar til gerðu umferðarmerki eða þar sem á annan hátt sé sannanlega gefið til kynna að um stæði fyrir ökutæki hreyfihamlaðs einstaklings sé að ræða. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er mælt fyrir um að þegar ökutæki sé lagt í bifreiðastæði skuli stæðiskorti komið fyrir innan við framrúðu þannig að framhlið þess sé vel sýnileg að utan. Leggja má gjald á vegna brota á ákvæði 29. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 109. gr. umferðarlaga.

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtun yðar og gögnum málsins er ljóst að ekki er um það deilt að þér eruð ekki handhafar  stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða og var slíku korti þannig ekki komið fyrir innan framrúðu bifreiðar yðar 9. febrúar sl. er henni var lagt á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks. Að þessu virtu og eftir að hafa kynnt mér gögn málsins að öðru leyti, þ. á m. ljósmyndir af vettvangi, tel ég því ekki efni til að gera athugasemdir við lögmæti ákvörðunar Bílastæðasjóðs.

Vegna athugasemda yðar um að þér hafið áður lagt í umrætt stæði án þess að hljóta sekt auk þess sem aðrir hafi lagt í stæðið án aðfinnsla er rétt að taka fram að enda þótt bifreiðum hafi áður verið lagt í umrætt stæði án þess að komið hafi til álagningar stöðvunarbrotagjalds er ekki þar með sagt að því megi jafna við að slíkt hafi verið heimilt að lögum. Ökutækjum kann t.a.m. að vera lagt ólöglega án þess að stöðuverðir verði þess áskynja. Þá hefur almennt verið lagt til grundvallar að þótt mál teljist sambærileg í skilningi jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði sú ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem lögð er til grundvallar við samanburð og beitingu jafnræðisreglunnar einnig að vera lögmæt. Jafnræðisreglan veitir mönnum almennt ekki tilkall til neins þess sem ekki samrýmist lögum. Hafi athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds ekki samrýmst lögum getur aðili að öðru máli því yfirleitt ekki krafist sambærilegrar úrlausnar sér til handa með vísan til þess.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.