Börn. Umgengni.

(Mál nr. 12129/2023)

Kvartað var yfir upplýsingagjöf sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við meðferð embættisins á umgengnismálum, nánar tilteki að hafa fengið þær leiðbeiningar að forsenda þess að úrskurðað yrði um umgengni væri að leyst hefði verið úr ágreiningi um lögheimili. 

Umboðsmaður hafði þegar lýst afstöðu sinni til þeirrar stjórnsýslu sem kvörtunin laut að í tilefni af annarri kvörtun. Þá hafði dómsmálaráðuneytið orðið við tilmælum sem umboðsmaður setti fram af því tilefni. Þar sem svo virtist sem umræddar leiðbeiningar hefðu verið veittar fyrir nokkru síðan og áður en afstaða stjórnvalda til tilmæla umboðsmanns lá fyrir var viðkomandi bent á að fá viðbrögð sýslumanns við athugasemdum sínum og í kjölfar þess mætti bera niðurstöðuna undir dómsmálaráðuneytið ef tilefni væri til. Að þessu loknu yrðu skilyrði til að umboðsmaður gæti fjallað um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. apríl 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 31. mars sl., yfir upplýsingagjöf sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við meðferð embættisins á málum er lutu að umgengni við dóttur yðar og lögheimili hennar.

Í kvörtun yðar er rakið að þér séuð ósáttir við þá leiðbeiningu fulltrúa sýslumanns til yðar um að forsenda þess að úrskurðað yrði um umgengni væri sú að leyst yrði úr ágreiningi um lögheimili. Af kvörtuninni verður ráðið að á grundvelli þessara leiðbeininga hafið þér gert samkomulag við barnsmóður yðar 25. ágúst 2022 sem laut meðal annars að því að lögheimili dóttur yðar yrði hjá barnsmóðurinni.

Í kvörtun yðar vísið þér sérstaklega til álits umboðsmanns Alþingis frá 17. mars 2022 í máli nr. 11017/2021 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sýslumanni bæri að úrskurða um umgengni foreldra þegar búsetustaður þeirra væri ekki sá sami og barn hefði fasta búsetu hjá öðru þeirra, óháð ágreiningi um lögheimili.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Í ákvæðum 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er enn fremur kveðið á um það með hvaða hætti umboðsmanni sé heimilt að ljúka meðferð kvartana sem honum hafa borist. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 getur umboðsmaður lokið máli sem hann hefur tekið til nánari athugunar með áliti á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum. Sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns getur hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur. Umboðsmaður Alþingis hefur hins vegar ekki að lögum réttarskipandi vald í einstökum málum sem hann hefur til meðferðar. Getur hann því ekki tekið ákvarðanir sem binda enda á þann ágreining sem fyrir liggur. Málum sem umboðsmaður hefur til meðferðar getur þannig lokið með áliti þar sem sett eru fram tilmæli til stjórnvalda og það fer síðan eftir frekari athöfnum þess sem leitað hefur til umboðsmanns og viðbrögðum stjórnvaldsins hver verður framgangur málsins.

Í tilefni af vinnu við árlega skýrslu umboðs­manns Alþingis fyrir árið 2022 til Alþingis, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/1997, var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf þar sem m.a. var óskað eftir því að upplýst yrði hvort og þá með hvaða hætti hugað hefði verið að þeim almennu sjónarmiðum sem rakin voru í álitinu. Í svari dómsmálaráðuneytisins kom fram að það hefði með umburðarbréfi 28. september sl. vakið athygli allra sýslumanna á umræddu áliti umboðsmanns. Beindi ráðuneytið þeim tilmælum til allra sýslumanna að kynna sér efni álitsins. Í bréfinu kemur einnig fram að ráðuneytið telji að skýra beri viðeigandi ákvæði barnalaga nr. 76/2003 á þá leið að sýslumanni beri að úrskurða um inntak umgengni við barn þegar slík beiðni kemur fram og barn hefur fasta búsetu hjá öðru foreldrinu, óháð því hvort ágreiningi foreldra varðandi forsjá og lögheimili barns hefur verið stefnt fyrir dóm til úrlausnar eða ekki.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að umboðsmaður hefur þegar lýst afstöðu sinni til þeirrar stjórnsýslu sýslumanns og dómsmálaráðuneytisins sem kvörtun yðar lýtur að. Þá liggur enn fremur fyrir að dómsmálaráðuneytið, sem fer með yfirstjórn embætta sýslumanna, hefur orðið við tilmælum umboðsmanna sett voru fram í álitinu. Af kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að yður hafi verið veittar umræddar leiðbeiningar fyrir nokkru síðan og áður en framangreind afstaða stjórnvalda til tilmæla umboðsmanns lá fyrir. Af kvörtun yðar verður ekki séð að þér hafið freistað þess að leita til sýslumannsins með athugasemdir yðar við umrædda starfshætti embættisins eða eftir atvikum með því að beina sérstakri beiðni til sýslumanns um breytt lögheimili barns, sbr. 32. gr. barnalaga. Að fengnum viðbrögðum sýslumanns getið þér leitað til dómsmálaráðuneytisins með athugasemdir yðar teljið þér tilefni til. Að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda og séuð þér enn ósáttir getið þér leitað til mín á nýjan leik. 

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.