Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Húsnæðismál.

(Mál nr. 12134/2023)

Kvartað var yfir því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefði ekki orðið við umsókn um húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir.  

Þar sem hvorki lá fyrir afstaða áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar né úrskurðarnefndar velferðarmála til erindisins voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. apríl 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 3. apríl sl., sem beinist að því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi ekki orðið við umsókn yðar frá 28. febrúar sl. um húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Með tölvubréfi 16. apríl sl. upplýstuð þér umboðsmann um að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefði með ákvörðun 12. apríl sl. synjað umsókn yðar um húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Í bréfi Reykjavíkurborgar til yðar segir að umsókn yðar hafi verið synjað þar sem Reykjavíkurborg hefði þegar samþykkt umsókn yðar um húsnæði fyrir fatlað fólk 22. mars sl. en einungis væri heimilt að eiga eina samþykkta umsókn um félagslegt leiguhúsnæði, sbr. 4. mgr. 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Í niðurlagi bréfsins segir að heimilt sé að áfrýja ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar innan fjögurra vikna eftir að bréfið berst. Þá er í XII. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga fjallað um húsnæðisstuðning sveitarfélaga. Þar segir í 1. mgr. 6. gr. að heimilt sé að kæra stjórnvaldsákvarðanir teknar samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en kvartað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í ljósi þess að ekki liggur fyrir niðurstaða framangreindra stjórnvalda eru ekki uppfyllt skilyrði til þess að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Ef þér eruð enn ósáttir að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála getið þér leitað til mín að nýju.

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.